Urriðaholt á stríðsárunum
Á einu ári frá 1942 til 1943 bjuggu um 500 bandarískir hermenn í Camp Russel herbúðunum í austanverðu Urriðaholti, við Flóttamannaveginn - sem fékk það nafn þó ekki fyrr en löngu síðar.

Camp Russel var fyrsta „íbúðahverfið“ í Urriðaholti
Útdráttur úr handriti „Herbúðir í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi í síðari heimsstyrjöld“ eftir Friðþór Eydal, 26. ágúst 2024
Nánast engin merki eru lengur til um fyrsta „íbúðahverfið“ sem reis í Urriðaholti (Urriðakotsholti). Þetta voru Camp Russell herbúðirnar, hátt í 100 braggar og steinhús sem bandaríski herinn reisti haustið 1942 í Urriðakotsholti, sitt hvoru megin við Flóttamannaveginn. Meirihluti bygginganna var á Urriðakotshálsi, þeim megin vegarins þar sem nú eru austustu hlutar Kinnargötu, Hraungötu, Holtsvegar og Maríugötu.
Camp Russel var aðsetur bandarísks herfylkis sem annaðist lagningu símalína og uppsetningu fjarskiptakerfa, 26th Signal Construction Battalion. Vorið 1943 bjuggu í búðunum alls um 500 liðsmenn herfylkisins, en þær nefndust eftir Edgar A. Russel hershöfðingja sem farið hafði fyrir fjarskiptasveitum bandaríska hersins í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöldinni.

Símamenn
Bandaríska herfylkið kom til landsins í maí 1942 þegar hernámi Breta lauk. Það hafði fyrst aðsetur í herbúðum á Reykjamelum í Mosfellssveit en flutti aðsetur sitt í Camp Russel um haustið. Störfuðu liðsmenn m.a. við lagningu símalína á Suður- og Vesturlandi vegna fyrirhugaðs símakerfis sem nefndist Project Latitude 65° og ná skyldi umhverfis landið til þess að tengja ratsjárstöðvar og herbúðir á landsbyggðinni við aðalstöðvarnar suðvestanlands. Hætt var við framkvæmdir sumarið 1943 þegar meginliðsafli Bandaríkjahers var fluttur til Bretlands, en þá var lokið við að leggja símann austur í Vík í Mýrdal.

Herbúðirnar voru eitt ár í notkun
Liðsmenn herfylkisins héldu af landi brott í ágúst 1943. Í herbúðirnar í Urriðakotsholti flutti þá 400 manna liðsafli úr bandarísku stórskotaliðssveitinni 115th Field Artillery Battalion sem starfað hafði á Seyðisfirði og Reyðarfirði um veturinn. Sú hersveit stoppaði stutt við og hélt af landi brott í október 1943. Virðist aðstaðan í Camp Russel ekki hafa verið í mikilli notkun eftir það, enda þá úr nógum auðum herbúðum að velja nærri byggð. Lauk þar með eins árs búsetu hátt í eitt þúsund liðsmanna tveggja bandarískra herfylkja í Urriðakotsholti.


Braggarnir fluttir á Keflavíkurflugvöll
Eftir að notkun herbúðanna lauk síðla árs 1943 var meirihluti bragganna fjarlægður. Talið er að hluti þeirra hafi farið til Keflavíkurflugvallar, þar sem uppbyggingu var að ljúka. Þegar hverfið var afhent Nefnd setuliðsviðskipta til ráðstöfunar árið 1944 stóðu eftir 8 braggar og 5 steinhús ásamt vatnsgeyminum efst á holtinu. Á loftmynd frá 1954 sjást enn grunnar braggabyggðarinnar.

Tactical Road varð að Flóttamannavegi
Þvert á það sem margir halda, þá var Flóttamannavegurinn ekki lagður í þágu íbúa Hafnarfjarðar til að flýja ef til innrásar kæmi í höfnina. Vegurinn var lagður frá Elliðavatni til Hafnarfjarðar til að tryggja hindrunarlausar samgöngur herliðs frá frá Vesturlandsvegi til Hafnarfjarðar og Suðurnesja án þess að til sæist frá sjó eða umferð flóttamanna tefði fyrir. Gert var ráð fyrir að íbúar myndu fara um Hafnarfjarðarveginn ef þeir þyrftu að flýja undan innrásarher. Vegurinn var þannig lagður til að forðast flótta heimamanna. Sú skýring á íslensku nafngiftinni hefur heyrst að hann hafi síðar þótt henta fyrir ölvaða ökumenn sem ekki hættu á að fara um Hafnarfjarðarveg.
Bandaríkjaher kallaði veginn Back Road eða Tactical Road. Heimildir eru um að vegurinn hafi meðal Íslendinga verið kallaður Setuliðsvegur. Það heiti kemur fram árið 1957 í samningi Skógræktarfélags við Stjórnarnefnd ríkisspítalanna um skógræktargirðingu við Vífilsstaðavatn.
Heitið Flóttamannavegur kom fyrst fram á prenti árið 1959. Lengi vel var þessi nafngift notuð óformlega manna á milli, meðan formlega heitið var og er Elliðavatnsvegur. Á síðari árum hefur heitið Flóttamannavegur verið fest í sessi hjá Garðabæ, meðan Vegagerðin heldur sig við að tala um Elliðavatnsveg. Vegnúmerið 410 er þó óbreytt.