Bújörðin Urriðakot
Búskapur var stundaður í Urriðakoti öldum saman, en jörðin þótti heldur rýr. Elstu rituðu heimildir um búskapinn eru frá 1563.
Saga Urriðakots
Urriðakot var síðast í byggð 1958, þegar bærinn fór í eyði. Jörðin var þó áfram nytjuð frá Setbergi.
Urriðakot er fyrst nefnt í jarðaskiptabréfi árið 1563, ein 19 jarða sem konungur fær í skiptum fyrir jafnmargar sem renna til Skálholtsstóls. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls var kotið árið 1703 hálfbýli í eigu konungs, ekki með „fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir“. Ábúendur voru þeir Þórður Magnússon og Ólafur Ingimundarson en í manntali sama árs er í stað hins síðarnefnda tilgreindur Guðmundur Nikulásson. Hjá Þórði bjó ein þjónustustúlka en með hinum 27 ára gamla Guðmundi var móðir hans, Ása Ólafsdóttir, ekkja, yngri systur hans, Steinunn og Þóra, og Ásdís Ásbjarnardóttir, 6 ára „sveitarómagi“.
Kvaðir meðal annars um um heyhest til fálka
Þórður átti tvær kýr og eitt hross og Ólafur eina kýr að hálfu en jörðin fóðraði þrjár. Kvaðir voru mannslán um vertíð sem þeir guldu til skiptis, dagsláttur og lambsfóður af báðum og tveir hríshestar árlega. Þegar Páll Beyer varð umboðsmaður konungs tók hann þó aðeins einn á tveimur árum. Aðrar kvaðir, svo sem skipaferðir og heyhestur til fálka sem bændum bar að bera, voru sjaldan heimtar. Ábúendur lögðu uppbótarlaust við til húsabótar í fjórtán ár og Þórður kvartaði yfir að hafa tekið við húsunum í lélegu ásigkomulagi. Þeir höfðu hrístekju til kolagjörðar og eldiviðar í landi konungs, torfristu og stungu.
Urriðakot átti landamerki á móti Setbergi að vestan, Vífilstöðum að norðan og austan og Garðakirkju að sunnan þar sem mættist heimaland þess og afréttarlandið.
Sjö sambyggð hús og kálgarður
Á Túnakorti árið 1918 sést Urriðakot í miðju túni og samanstendur af sjö sambyggðum húsum. Þar af sýnast tvö þau suðvestustu vera úr torfi en tvö þau norðaustustu úr steini og gengur aftur af þeim minna torfhús. Tvö hús eru auk þess sýnd sem opnar tóftir. Fyrir framan húsin (nær vatninu) var stór kálgarður, um 30 metrar á kant.


Urriðakot verður Urriðavatn
Bræðurnir Alfreð og Kári Guðmundssynir keyptu Urriðakot árið 1939. Þeir breyttu heiti jarðarinnar í Urriðavatn árið 1944 og leigðu hana frá sér. Leigutekjur stóðu þó vart undir kostnaði. Alfreð hafði samband við verslunarmanninn Gunnar Ásgeirsson 30. apríl 1946 og spurði hvort hann hefði áhuga á að kaupa jörðina. Gunnari leist vel á og hóaði nokkrum félögum sínum í Oddfellowreglunni saman til að skoða möguleika á nýtingu landsins. Jörðin var auglýst til sölu 22. maí 1946 og gerði hópurinn tilboð upp á 167 þúsund krónur. Garðahreppur sýndi ekki áhuga á að nýta forkaupsrétt.
Alls stóðu 30 Oddfellowar að kaupunum á Urriðavatni og stofnuðu þeir félagið Sumarbúðir að Urriðavatni um framtakið og buðu öllum Oddfellowum að vera með. Árið 1957 gáfu Oddfellowarnir jörðina til Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar og hefur hún verið í eigu sjóðsins síðan.
Þó svo að íbúðahverfi það sem hóf að rísa 2007 kallist Urriðaholt, þá er hið forna örnefni þess Urriðakotsholt.

