Mannúðarverkefni Oddfellowreglunnar

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowreglunnar ver tekjum af sölu lóða í Urriðaholti til almannaheilla. Þetta gerir reglunni kleift að halda áfram meira en einnar aldar samfelldum stuðningi við góð málefni.

Sjálfsagt hefur fáa þeirra félaga í Oddfellowreglunni sem keyptu jörðina Urriðavatn árið 1946 órað fyrir því að sex áratugum síðar væri sala lóða úr landinu farin að gera reglunni kleift að styðja myndarlega við fjölbreytt verkefni í þágu almannaheilla.

Mannrækt og líknarstarf

Grunngildi Oddfellowreglunnar eru mannrækt og að láta gott af sér leiða. Upphaf reglunnar má rekja til 1730 en fyrsta stúkan var stofnuð hér á landi 1897. Fyrsta líknarverkefnið sem Oddfellowar hér á landi áttu hlut að var Holdsveikraspítalinn, sem byggður var að frumkvæði dönsku Oddfellowhreyfingarinnar.

Guðmundur Eiríksson, æðsti yfirmaður (stórsír) Oddfellowreglunnar, segir frá þeim grunngildum sem Oddfellowar starfa eftir, starfsemi reglunnar hér á landi og byggingu Holdsveikraspítalans, sem var upphafið að stofnun Oddfellow hér á landi.

Löng saga stuðnings til góðra verka

Á tuttugustu öldinni kom Oddfellowreglan að fjölda mannúðar- og líknarverkefna, ýmist á landsvísu eða í nærumhverfi stúkanna. Þann 10. september 1955 var Styrktar- og líknarsjóður Oddfellow (StLO) stofnaður til að halda utan um sameiginleg verkefni. Stofnun sjóðsins var hugsuð til að auka möguleika reglunnar til að standa myndarlega að átaksverkefnum í mannúðarmálum. Tveimur árum síðar fékk sjóðurinn jörðina Urriðavatn að gjöf frá félögunum í Oddfellowreglunni sem höfðu keypt hana níu árum áður sem aðstöðu til sumardvalar. Það var þó ekki fyrr en rúmlega hálfri öld síðar sem Urriðavatn varð sú lyftistöng fyrir sjóðinn sem raun ber vitni.

Meðal líknarverkefna Oddfellowa sem standa upp úr á tuttugustu öldinni eru forganga um menntun hjúkrunarkvenna, stofnun Sjúkrasamlags Reykjavíkur, frumkvæði að byggingu Vífilsstaðaspítala, bygging sumardvalarheimilis fyrir börn að Silungapolli, kaup á kóbalttæki til krabbameinslækninga og endurbætur á Líknardeild Landspítalans.

Guðmundur Eiríksson, stórsír Oddfellowreglunnar, segir frá nokkrum þeirra líknarverkefna sem reglan hefur staðið að frá stofnun og til loka 2024.

Landið fer loksins að gefa af sér

Stundum er talað um „þolinmótt fjármagn“ og næsta víst að jörðin Urriðavatn tilheyri því. Fimm áratugir liðu án þess að Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa hefði tekjur að nokkru gagni af jörðinni, helst þá af malarnámi. Garðabær keypti 5,8 hektara úr landinu undir atvinnustarfsemi í Molduhrauni, en hafði ekki áhuga á að kaupa jörðina í heild sinni þó það stæði til boða. 

Oddfellowstúkurnar stóðu að töluverðri skógrækt í hraunflatanum í Urriðakotshrauni og á svæðinu þar sem nú er Kauptún eftir að girðingarvinnu lauk 1962. Það var ekki fyrr en leið að aldamótum sem byrjað var að ræða af alvöru möguileika þess að hafa tekjur af landinu.

Steindór Gunnlaugsson, formaður stjórnar Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellow 2013-2023, segir frá tekjuöflun og umfangi sjóðsins frá stofnun hans til síðustu aldamóta.

Verkefnin sem styrkt hafa verið með tekjunum af Urriðaholti

Þegar Styrktar- og líknarsjóður Oddfellow fór að hafa tekjur af lóðarleigu í Kauptúni og sölu lóða í Urriðaholti á árunum fyrir og eftir bankahrun, jókst geta sjóðsins til að styðja myndarlega við framhald uppbyggingar og endurbóta líknardeildar Landspítalans í Kópavogi. En ekki aðeins voru framlögin í formi fjármagns, heldur lögðu Oddfellowar á sig mikla sjálfboðavinnu, alls um 8 þúsund vinnustundir. 

Árið 2015 lagði StLO lið við endurbyggingu húsakynna Ljóssins og þar á eftir miklar endurbætur á Hlaðgerðarkoti. 

Síðasta stóra verkefnið sem StLO hefur lagt lið er uppgerð þriðju hæðar St. Jósefs spítala í Hafnarfirði fyrir Alzheimersamtökin og Parkinsonsamtökin. 

Steindór Gunnlaugsson, formaður stjórnar Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellow 2013-2023 segir frá stórhuga stuðningi sjóðsins við uppbyggingu og endurbætur húsakynna Líknardeildarinnar, Ljóssins, Hlaðgerðarkots og St. Jósefs spítala.

Regluheimili á háholtinu

Vegna umræðu um stækkun Oddfellowhússins við Vonarstræti í Reykjavík árið 1971 var einnig farið að skoða hvort frekar ætti að reisa nýjar höfuðstöðvar reglunnar að Urriðavatni. Sú umræða náði þó ekki lengra, ekki síst vegna þess hvað samgöngur voru takmarkaðar. Nýja Reykjanesbrautin var ekki lögð milli Kópavgos og Hafnarfjarðar gegnum Búrfellshraun fyrr en 1985-86. 

Árið 2023 efndi Oddfellowreglan til hönnunarsamkeppni um nýtt regluheimili í Urriðaholti í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Niðurstaðan var kynnt í júní og urðu KRADS, TRÍPÓLÍ og Urbanlab Nordic hlutskörpust. Um er að ræða 3.000 fermetra regluheimili á tveimur hæðum með bílakjallara. Húsið verður við Vinastræti, efst í Urriðaholti.

Guðmundur Eiríksson, stórsír Oddfellowreglunnar talar um byggingu regluheimilis Oddfellow á háholti Urriðaholts.