Hverfið var byggt upp í áföngum

Urriðaholt byggðist upp á 17 árum í þremur megin áföngum og átti mesta uppbyggingin sér stað síðustu fjögur árin.

Áfangaskipting byggðarinnar

Uppbyggingu Urriðaholts var skipt í þrjá megin áfanga, vesturhluta, norðurhluta og austurhluta. Byrjað var að deiliskipuleggja vesturhlutann árið 2007 og þar á eftir kom norðurhluti, sem var deiliskipulagður í fjórum áföngum. Deiliskipulag fyrsta áfanga norðurhluta var kynnt í árslok 2014 og tók þá aðeins til neðsta hluta Holtsvegar. Deiliskipulag austurhluta var síðan kynnt í apríl 2018.

Áfangaskipting uppbyggingarinnar var ekki síst til að dreifa kostnaði og framkvæmdahraða við gatnagerð og lagnir, svo og að mæta eftirspurn verktaka og íbúðarkaupenda eftir því sem aðstæður leyfðu. Uppbyggingin fór rólega af stað fyrstu árin en jókst svo jafnt og þétt og frá 2018 til 2024 var hvað mest byggt, samhliða því að íbúum fjölgaði hratt.

Áfangaskipting uppbyggingar Urriðaholts.

Vesturhlutinn var fyrstur á dagskrá

Eins og fram kemur í fyrri kafla seldust allar lóðir sem í boði voru í vesturhlutanum á miðju ári 2007. Lóðirnar voru tilbúnar til byggingar í apríl 2008 og hófust framkvæmdir við örfá einbýlishús um sumarið. Verktakar héldu hins vegar að sér höndum, lánsfé til að byggja var ekki á lausu enda skammt í fall bankanna um haustið. Frá 2008 til 2012 voru aðeins sex einbýlishús og eitt parhús byggð í Urriðaholti, auk húss Náttúrufræðistofnunar Íslands. 

Árið 2012 var þjóðfélagið byrjað að jafna sig eftir fall bankanna og rýmkast hafði um lánafyrirgreiðslu. Snemma árs 2013 hófust jarðvegsframkvæmdir fyrir 15 lítil fjölbýlishús við Holtsveg og stóðu átta verktakafyrirtæki að byggingu þeirra. Bygging húsanna hófst þá um sumarið. 

Í frétt í janúar 2014 á vefsíðu Urriðaholts er skýrt frá því að uppsteypa fyrstu fjölbýlishúsanna við Holtsveg standi yfir um þær mundir. Búið væri að steypa grunna sjö húsa með samtals rúmlega 100 íbúðum. Í einu húsanna væri þegar búið að steypa þrjár hæðir og við önnur stæði mótasmíði sem hæst. Í maí 2014 var svo fyrsta reisugillið haldið í fjölbýlishúsi, að Holtsvegi 23-25 sem Borgarhraun ehf byggði. Á sama tíma var skýrt frá því að sala íbúða væri að hefjast. Í nóvember sama ár fluttu fyrstu íbúarnir inn í fjölbýli í Urriðaholti, að Holtsvegi 23-25.

Í nóvember 2013 var farið að undirbúa skólabyggingu fyrir hverfið, en þá auglýsti Garðabær eftir áhugasömum ráðgjöfum til að taka þátt í útboði á hönnun vegna nýbyggingar skóla í Urriðaholti. Áformað var að skólinn gæti tekið til starfa haustið 2016, en tafir urðu á því og tók skólinn til starfa vorið 2018.

Góður gangur frá og með 2015

Í janúar 2015 var skýrt frá því á vefsíðu Urriðaholts að 702 íbúðir væru ýmist á teikniborðinu eða í byggingu. Búið var að skipuleggja 404 íbúðir og voru 317 þeirra ýmist tilbúnar eða í byggingu. Í skipulagsferli voru 298 íbúðir til viðbótar, við Mosagötu og neðri hluta Holtsvegar. Sagt var að hluti lóðanna yrði byggingarhæfur vorið 2015 og hluti um haustið. Samtals gerði þetta 702 íbúðir sem byrjað var að byggja eða yrðu byggðar í Urriðaholti næstu misserin.

Íbúðir í fjölbýlishúsunum við Holtsveg seldust jafnóðum og húsin voru tilbúin. Í mars 2016 hófst sala á íbúðum við Holtsveg 37-39, 41 og 51. Þá var minna en eitt og hálf ár liðið frá því að fyrstu íbúarnir fluttu í fjölbýlishúsið við Holtsveg 23-25.

Hverfið breiðir rólega úr sér

Byrjað var á einu og einu fjölbýlishúsi við aðrar götur í vesturhlutanum árið 2015, þar á meðal Hellagötu 15, Víkurgötu 2, Hraungötu 1-9, Holtsveg 8-18 og einbýli að Dýjagötu 18.

Á árinu 2016 var góður gangur í húsbyggingum í vesturhlutanum, þar á meðal í Kinnargötu, neðri hluta Holtsvegar (deiliskipulagt sem norðurhluti 1) og Mosagötu. 

Götur í vesturhluta 

Holtsvegur 23-51 

Lindastræti (Urriðaholtsskóli)

Mosagata 

Kinnargata 1-21, 

Hellagata 15 

Keldugata 

Hraungata 1-13 og 2-26

Dýjagata

Bæjargata
 

Deiliskipulag norðurhluta 2 kynnt til sögunnar

Skipulagsnefnd Garðabæjar kynnti drög að deiliskipulagi norðurhluta 2 í október 2014. Um var að ræða 5 hektara óbyggt svæði. Deiliskipulagið tók til hluta Holtsvegar, Lynggötu, Dyngjugötu, Hellagötu og hluta Brekkugötu. Í deiliskipulagstillögunni var gert ráð fyrir 161-181 íbúðareiningum í blandaðri byggð. Þar af áttu að vera 121 til 141 íbúð í fjölbýli, 24 í raðhúsum, 12 í parhúsum og 4 í einbýlishúsum.

Gatnagerð og jarðvegsframkvæmdir hófust árið 2015 eftir að deiliskipulagstillagan hafði verið samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar.

Götur í Norðurhluta 1  og 2                                  

Norðurhluti 1

Holtsvegur 2-18

Norðurhluti 2

Holtsvegur 3-17

Hellagata 2-14

Lynggata

Dyngjugata

Brekkugata 2-6 og 1-29

Deiliskipulag norðurhluta 3 sett á dagskrá

Í mars 2016 var deiliskipulagstillaga 3. áfanga norðurhluta Urriðaholts kynnt til sögunnar. Deiliskipulagið náði til 9 hektara svæðis við Urriðaholtsstræti og hæsta hluta holtsins (Brekkugata, Urðargata, Sjónarvegur og Vinastræti). Tillagan gerði ráð fyrir að hámarki 327 íbúðum í fjölbýli (3-5 hæðir) og rað- og parhúsum (1-2 hæðir). Við Urriðaholtsstræti yrðu fjölbýlishús með atvinnutengdri starfsemi á neðstu hæð sem snýr að götunni.

Jarðvegframkvæmdir og gatnagerð hófust síðar á árinu 2016 og voru langt komnar 2017.

Götur í norðurhluta 3 og háholti

Urriðaholtsstræti 12-46

Brekkugata 8-24

Vinastræti

Sjónarvegur

Urðargata

Deiliskipulag austurhluta kynnt 2018

Í apríl 2018 var komið að því að kynna deiliskipulag austurhluta Urriðaholts, næst síðasta áfanga í uppbyggingu hverfisins. Kynningarfundur var haldinn í Urriðaholtsskóla 3. apríl og svo vildi til að leikskólahluti hans tók til starfa þennan sama dag. Austurhlutinn er lang stærsti deiliskipulagsáfangi Urriðaholts, nær yfir 21,5 hektara svæði. Í deiliskipulaginu var gert ráð fyrir íbúðahverfi fyrir u.þ.b. 495 íbúðir í fjölbýli (2-5 hæðir), rað-, par- og einbýlishúsum (1-2 hæðir).

Holtsvegur, Kinnargata og Hraungata liggja jafnt í austurhluta og vesturhluta, og sama má segja um Urriðaholtsstræti. Flest íbúðarhúsin í austurhluta standa við Maríugötu. 

Götur í austurhluta

Urriðaholtsstræti 44-74

Holtsvegur 53-57 

Kinnargata 23-92 

Hraungata 15-47 og 28-54

Maríugata

Síðasta deiliskipulagstillagan – norðurhluti 4

Tillaga að deiliskipulagi norðurhluta 4 var kynnt í janúar 2020, en forkynning á tillögunni fór fram í maí 2019. Í tillögunni fólst að dregið var úr svæði sem upphaflega átti að fara undir byggð og stærra skógarsvæði var haldið óröskuðu. Norðurhluti 4 var síðasta deiliskipulagssvæðið sem bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti í Urriðaholti. Íbúðarhúsin neðan Urriðaholtsvegar snúa að Vífilsstaðahrauni og efst á svæðinu, við Vörðugötu, rís svokallað kennileitishús Urriðaholts. Jarðvegsvinna, gatnagerð og veitulagnir hófust 2021.

Götur í norðurhluta 4

Urriðaholtsstræti

Lautargata

Vörðugata

Grímsgata

Viðskipti og þjónusta

Þó Urriðaholt hafi fyrst og fremst verið hugsað sem íbúðabyggð var frá upphafi gert ráð fyrir að atvinnu- og þjónustuhúsnæði í hverfinu, aðallega meðfram Urriðaholtsstræti. Við Urriðaholtsstræti 2-4 reis 2.500 fermetra skrifstofu- og þjónustuhúsnæði árið 2020, en andspænis því við Urriðaholtsstræti 6-8 er Náttúrufræðistofnun Íslands, fyrsta atvinnuhúsnæðið sem reis í Urriðaholti árið 2009.

Á jarðhæðum meðfram Urriðaholtsstræti er verslunar- og þjónustuhúsnæði, en íbúðir á efri hæðum. Við Vinastræti er ennfremur að finna þjónustuhúsnæði á jarðhæðum. Nýtt regluheimili Oddfellow mun ennfremur rísa við Vinastræti. Hönnun þess var kynnt í júní 2023 og fyrsta skóflustunga tekin í janúar 2025. Þá eru uppi hugmyndir um að húsnæði verði reist fyrir líkamsræktarstöð og fyrir stærri matvöruverslun.

Minna hefur orðið úr uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í hverfinu en áformað var, að hluta vegna þess að eftirspurn hefur ekki verið fyrir hendi og að hluta vegna þess að fjármálastofnanir lána ekki til slíkra verkefna nema húsnæðið hafi verið leigt út fyrirfram. 

Gríðarlegt magn féll til af grjóti við framkvæmdir í Urriðaholti og var hluti þess mulinn á staðnum og nýttur í vegagerð.

Bílageymslur þar sem klappir voru áður

Vegna landhallans í Urriðaholti þurfti víða að sprengja úr klöppinni og fjarlægja blágrýtið sem til féll. Tölur eru ekki til um magnið af grjótinu sem þurfti að víkja, en talið að það gæti numið þúsundum tonna. Hluti af grjótinu var mulið í grjótmulningsvél sem var staðsett í austurhluta Urriðaholts. Mulningurinn var einkum notaður sem neðra burðarlag í vegagerð, jafnt í Urriðaholti og víðar. Svo heppilega vildi til að þörf var á verulegu magni af uppfyllingarefni vegna fyrirhugaðrar stækkunar Urriðavallar og því stutt að fara, bæði með grjót, mold og annan jarðveg sem til féll.  Þá var grjótið úr Urriðaholti víða notað í landfyllingar á höfuðborgarsvæðinu og greiddi Urriðaholt ehf fyrir fluning þess. 

Aðallega voru bílageymslur reistar í holrýmunum sem mynduðust þegar grafið var út úr hallanum, en einnig hefðbundnar geymslur. Fá ef nokkur íbúðahverfi hér á landi hafa jafn mikið af bílageymslum innanhúss, en fyrir vikið dregur verulega úr þörfinni fyrir bílastæði utanhúss. Víða við fjölbýlishús eru 8-10 bílastæði fyrir framan, einkum ætluð gestum, meðan íbúar leggja þar sem áður var urð og grjót.