Umhverfið í forgangi

Lífríki Urriðavatns er verndað með blágrænum ofanvatnslausnum enda felast mikil óáþreifanleg verðmæti í nálægð við útivistarsvæði. Með umhverfisvottunum er stuðlað að staðfestu í náttúruverndinni.

Hugað að áhrifum á lífríki Urriðavatns

Um leið og byrjað var að ræða uppbyggingu í Urriðaholti beindist athyglin að mögulegum áhrifum hennar á Urriðavatn og lífríkið í kringum það. Stór hluti Urriðaholts er innan vatnasviðs Urriðavatns. Vatnið er grunnt, aðeins um einn metri þar sem það er dýpst. Hætt var við að náttúrulegt rennsli til Urriðavatns ofan úr holtinu myndi minnka ef beitt yrði þeim hefðbundnum fráveitulausnum að safna ofanvatni af húsum og götum í hefðbundið fráveitukerfi sem liggur út í sjó. Væri slíkum lausnum beitt í Urriðaholti hefði það neikvæðar afleiðingar fyrir grunnt vatnið og lífríki þess.

Blágrænar ofanvatnslausnir

Að mati eigenda Urriðaholts ehf kom ekki annað til greina en leita bestu lausna til að vernda Urriðavatn og lífríki þess. Niðurstaðan varð sú að ráðast í aðgerðir til að leiða ofanvatnið út í jarðveginn frekar en í niðurföllin, þannig að það skilaði sér með náttúrulegum hætti út í vatnasvið Urriðavatns. Ráðgjafarfyrirtækið Alta, sem leiddi skipulagsvinnuna, fékk Hrund Ólöfu Andradóttur, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Ísland til ráðgjafar um fýsileika þessara aðferða, sem kallast blágrænar ofanvatnslausnir. 

Innan hverfisins er ofanvatni beint um þar til gerðar rásir og til opinna grænna svæða á yfirborði, þar sem vatn eða snjór getur safnast fyrir og/eða sigið ofan í jarðveg. Það þjónar jafnframt tilgangi við hreinsun mengunarefna.Ofanvatnsrásir eru jafnframt staðsettar við götur og bílastæði. Þakvatni er beint niður í jörð innan lóða.

Það vatn sem ekki sígur í jarðveg í ofanvatnsrásum, berst til safnlauta fyrir ofanvatn í grænum geirum. Ofanvatnsrásir, safnlautir og tjarnir geta tekið við vatni í miklum rigningum og/eða leysingum og tryggt að ofanvatn valdi ekki flóðum og sé nægilega hreinsað þegar það berst til í vatnasvið Urriðavatns. Þegar þurrt er mynda ofanvatnsmannvirki hluta af grænu landslagi svæðisins.

Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri Alta, talar um aðgerðir sem ráðast þurfti í til að vernda lífríki Urriðavatns vegna uppbyggingar í Urriðaholti.

Skipulagið lagað að þörfum blágrænna ofanvatnslausna

Eins og fram kemur hjá Halldóru Hreggviðsdóttur framkvæmdastjóra Alta hér á undan lá fyrir á fyrstu stigum skipulagningar Urriðaholts að gæta þyrfti að áhrifum byggðarinnar á lífríki Urriðavatns. Ráðgjafar voru kallaðir til úr ýmsum áttum til að takast á við þetta flókna viðfangsefni. Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi hefur unnið að uppbyggingu svæðisins allt frá 1987 og var hluti af hópnum sem leitaði leiða til að laga skipulag Urriðaholts að vernaráformum Urriðavatns.

Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt hjá Landslagi, segir frá hvernig blágrænu ofanvatnslausnirnar urðu hluti af skipulagi hverfisins.

Rannsóknir Háskóla Íslands og Veðurstofunnar á blágrænum ofanvatnslausnum í Urriðaholti

Hópur vísindamanna frá Háskóla Íslands annaðist rannsókn á því sem kallast „sjálfbær regnvatnsstjórnun í köldu loftslagi“ í Urriðaholti á árunum 2018 til 2020. Rannsóknin fór fram undir stjórn Hrundar Ólafar Andradóttur, prófessors við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. Rannsóknarverkefnið hlaut 3 ára styrk frá Rannís árið 2018 og auk HÍ komu Veðurstofan, Garðabær og Urriðaholt að því.

Rannsóknin sneri einkum að því hvernig ofanvatnslausnir virka í köldu loftslagi. Markmiðið var að skilja betur hvernig snjóbráð og vatn síga niður í jarðveginn þegar tíð frost og þíða eru viðvarandi. Þrjár vísindagreinar voru gefnar út um rannsóknina.

Rannsóknin sýndi að þrátt fyrir frost voru gróðurrásirnar ekki nálægt því að yfirfyllast og virtust því hafa gegnt hlutverki sínu við að beina umframvatni úr hverfinu niður í grunnvatnið. Í tengslum við þessa rannsókn var sérstök veðurstöð sett upp Urriðaholti. Mælingar úr henni eru aðgengilegar á vef Veðurstofunnar. Áformað er Urriðaholt verði áfram vettvangur fyrir vísindalegar rannsóknir á blágrænum regnvatnslausnum.

Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri Alta, lýsir hlutverki greinu geiranna í Urriðaholti og segir frá rannsóknum vísindamanna Háskóla Íslands og Veðurstofunnar á blágrænu ofanvatnslausnunum í hverfinu.

Vistvottanir í Urriðaholti

Í Urriðaholti hefur skipulag hverfisins hlotið vistvottun BREEAM Communities og sama er að segja um hús Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá uppfylla nokkur hús skilyrði Svansvottunar Umhverfisstofnunar.

Markmið vistvottunarkerfisins BREEAM er að neikvæð umhverfisáhrif séu í lágmarki, að byggingar séu heilnæmar og öruggar, stuðla að góðri hönnun, minnka rekstrarkostnað (t.d. með bættri orkunýtni) og hvetja til vandaðra vinnubragða í hvívetna. 

BREEAM vistvottun skipulagsins

Staðfesting BREEAM Communities á því að Urriðaholt uppfylli skilyrði um framúrskarandi skipulag var afhent 10. maí 2016. Urriðaholt er fyrsta hverfið hér á landi sem hlotið hefur vistvottun skipulags samkvæmt vottunarkerfi BREEAM Communities, sem er leiðandi á þessu sviði í heiminum. Vottunin staðfestir  að unnið hafi verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Áður hafði rammaskipulag Urriðaholts hlotið viðurkenningu BREEAM Communities.

Við þetta tækifæri sagði fulltrúi BREEAM að með lokavottun deiliskipulagsins væri því fylgt eftir að unnið hafi verið að upprunalegu markmiðunum í rammaskipulaginu. Þetta sýndi að skipulag Urriðaholts endurspeglaði metnaðarfull markmið um sjálfbærni sem myndi hafa jákvæð áhrif til langrar framtíðar. Fram kom þegar viðurkenningin var afhent að BREEAM matskerfið væri mjög umfangsmikið, 40 kaflar sem spanna mjög vítt svið. Helsti styrkleiki skipulagsins í Urriðaholti væri sú mikla áhersla sem lögð hefur verið í verndun vatnasvæðis Urriðavatns ásamt verndun vistkerfisins sem umlykur vatnið. Þá fælist mikill styrkleiki í því öfluga samráði sem verið hafði um skipulag Urriðaholts. Einkunn lokavottunar deiliskipulagsins var „very good.“

Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri Alta, talar um hvað felst í vistvottun skipulags Urriðaholts.

BREEAM vistvottun húss Náttúrufræðistofnunar Íslands

Árið 2010 var hús Náttúrufræðistofnunar við Urriðaholtsstræti er eitt af fyrstu húsum hér á landi til að fá alþjóðlegu BREEAM umhverfisvottunina. Vottunin tekur til þeirra þátta byggingarinnar sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif hennar og stuðla að sjálfbærni. Að frumkvæði Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra var ákveðið að fá húsið vottað miðað við BREEAM vottunarkerfið fyrir vistvænar byggingar.

Það var ekki síst með hliðsjón af eðli starfsemi Náttúrufræðistofnunar að áhersla var lögð á að hönnun hússins grundvallaðist á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Húsið er sérstaklega hannað fyrir starfsemi stofnunarinnar og var fyrsti vísir að uppbyggingu skrifstofu- og þjónustustarfsemi í Urriðaholti. Glerhjúpur setur sterkan svip á bygginguna og er helsta einkenni hennar. Auk þess myndar hann veðurhlíf um bygginguna og tryggir betur virkni náttúrulegrar loftræstingar, jafnvel í verstu veðrum.

Náttúrufræðistofnun Íslands opnaði formlega í nýjum heimkynnum í Urriðaholti föstudaginn 17. desember 2010 en bygging þess hófst í október 2009. Arkís hannaði húsið og Ístak var aðalverktaki við bygginguna. 

Þráinn Hauksson landslagsarkitekt segir frá metnaðarfullum umhverfisáherslum við byggingu húss Náttúrufræðistofnunar og stígnum sem tengir Urriðaholtið við aðra hluta Garðabæjar.

Stóra grasþakið er hluti af umhverfisáherslunum

Verslunarhúsið Kauptún 3 er tæplega 23 þúsund fermetrar. Þakið á því blasir við ofan úr Urriðaholti, en vegna þess að það er allt grasi lagt þá verða sjónræn áhrif þess mun minni en ella. Bræðurnir Jón og Sigurður Gísli Pálmasynir byggðu Kauptún 3 og töldu mikilvægt að þak hússins séð ofan úr Urriðaholti rímaði vel við umhverfisáherslur hverfisins.

Jón Pálmason og Sigurður Gísli Pálmason segja frá ákvörðun sinni um að leggja grasþak á Kauptún 3.