Urriðaholt kemst á skrið
Þó svo að fyrstu lóðir hafi selt 2007 liðu fimm ár þar til uppbygging hófst fyrir alvöru og íbúum fór að fjölga. Um leið kom að Garðabæ að láta til sín taka.
Allt fór á fullt hjá Garðabæ
Þó svo að skipulag Urriðaholts hafi verið á vegum landeigandans, Urriðaholts ehf, þá fór það fram í nánu samstarfi við yfirvöld í Garðabæ. Allar deiliskipulagstillögur fóru fyrir skipulagsnefnd og til samþykktar bæjarstjórn. Í fimm ár eftir bankahrunið var lítið um að vera í Urriðaholti, en þegar einstaklingar og verktakar fóru að taka við sér kom að bæjarfélaginu að vinna hratt að uppbyggingu nauðsynlegra innviða og og veita nýjum íbúum nauðsynlega þjónustu.
Barnasprengjan
Það hafði mikil áhrif á hraðan vöxt hverfisins að barnafjölskyldur sóttust eftir að flytja í Urriðaholt. Ekki aðeins voru þær í brýnni þörf fyrir húsnæði heldur var og er Garðabær þekktur fyrir að veita barnafólki góða þjónustu. Ásókn barnafólks reyndist hins vegar töluvert meiri en áætlað var, sem leiddi til þess að í örfá ár var ekki hægt að standa fyllilega við fyrirheit um leikskóladvöl yngstu barnanna.
Urriðaholtsskóli kemst á legg
Á miðju ári 2008 var efnt til hugmyndavinnu með þátttöku íbúa í Garðabæ um hönnun skóla og íþróttamannvirkja í Urriðaholti. Danska arkitektastofan Arkitema vann úr þeim hugmyndum og voru teikningar stofunnar kynntar í Garðabergi í september 2008.
Í nóvember 2013 var farið að undirbúa skólabyggingu fyrir hverfið, en þá auglýsti Garðabær eftir áhugasömum ráðgjöfum til að taka þátt í útboði á hönnun nýbyggingar skóla við Lindastræti, efst í Urriðaholti. Miðað var við að fullbúinn myndi skólinn rúma sex deilda leikskóla fyrir um 120 heilsdagspláss og grunnskóla fyrir allt að 700 börn.
Í febrúar 2014 var samið um hönnun á Urriðaholtsskóla við hönnunarhóp skipaðan Landformi, VEB - teiknistofu, Lagnatækni, Verkhönnun, VSÍ öryggishönnun og ráðgjöf og Önn ehf.
Árið 2016 lauk uppsteypu fyrsta áfanga skólans og vinna hófst við utanhússklæðningu, innréttingar og frágang. Síðla árs 2017 var Þorgerður Anna Arnardóttir ráðin skólastjóri. Skólinn tók á móti sínum fyrstu nemendum í byrjun apríl 2018 en þá voru opnuð tvö heimasvæði fyrir leikskólastig, Klif og Kelda. Haustið 2018 tók svo grunnskólastig til starfa og árin á eftir fjölgaði bekkjardeildum jafnt og þétt.
Annar áfangi skólans afhentur 2024
Vinna við annan byggingaráfanga lauk í apríl 2024 og var húsið afhent við hátíðlega viðhöfn á sex ára afmæli skólans, síðasta vetrardag, 24. apríl 2024. Í lok 2024 eru sex heimasvæði leikskólabarna fyrir um 130 heilsdagspláss og fjögur heimasvæði grunnskólabarna sem rúma vel 240 nemendur. Nemendur eru frá eins árs og upp í 10. bekk grunnskóla. Þá hefur Tónlistarskóli Garðabæjar aðstöðu til kennslu í húsinu.
Innviðagjaldið létti undir með bæjarfélaginu
Nýr leik- og grunnskóli í nýju og hratt stækkandi hverfi er áskorun fyrir alla sem að koma - foreldra, börn, skólastjórnendur og bæjarfélagið. Það skipti miklu fyrir Garðabæ að samningar höfðu tekist við Urriðaholt ehf um greiðslu innviðagjalds af hverri íbúð til að tryggja að skóli yrði til staðar. Uppbygging hans var skipulögð í þremur áföngum og var á árinu 2024 lokið við tvo fyrstu og byrjað á þeim þriðja og síðasta.
Skólastarfið
Fyrsta skólaár Urriðaholtsskóla voru nemendur á aldrinum eins til fimm ára á leikskólastigi. Hugmyndin var að nemendur myndu vaxa upp með skólanum, þannig að árgangar kæmu inn einn af öðrum.
Heilsuleikskólarnir Urriðaból 1 og 2 við Kauptún og Holtsveg
Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti haustið 2020 að efna til samkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um hönnun nýs leikskóla í Urriðaholti við Holtsveg 20. Ljóst var að hefja þyrfti uppbyggingu nýs leikskóla í takt við mikla fjölgun íbúa. Hátt í 2.500 manns bjuggu þá í hverfinu og gert var ráð fyrir að allt að 4.500 íbúum þegar það yrði fullbyggt.
Markmið Garðabæjar var og er að bjóða börnum dvöl í leikskóla þegar þau ná 12 mánaða aldri, en mikil fjölgun barna í hverfinu reyndi töluvert á þau fyrirheit. Til að bregðast við afar brýnni þörf fyrir leikskólapláss voru einingahúsum komið fyrir við Kauptún 5, á svæðinu fyrir neðan Holtsveg 20. Heilsuleikskólinn Urriðaból 1 tók þar til starfa í lok september 2022, með sex deildum fyrir 96 börn.
Nýi leikskólinn, Urriðaból 2, stendur neðan Holtsvegar á lóð sem opnast út að grænu svæði sem liggur frá efri hluta holtsins niður í átt að Kauptúni. Urriðaból 2 tók til starfa 14. mars 2024 en þá færðust börn fædd 2020 þangað af Urriðabóli 1. Urriðaból 2 er sex deilda leikskóli fyrir allt að 126 börn frá 12 mánaða aldri.
Í október 2024 hlaut Urriðaból 2 tvennar viðurkenningar fyrir áherslu á að byggja mannvirki með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum. Annars vegar var um að ræða Svansvottun Umhverfisstofnunar og hins vegar „Grænu skófluna”, viðurkenningu Grænni byggðar. Með Svansvottun Urriðabóls 2 eru húsin orðin fjögur í Urriðaholti sem hafa hlotið Svaninn í árslok 2024.
Skólar ehf reka Urriðaból 1 og 2, en alls reka Skólar ehf sex leikskóla þar sem áhersla er lögð á heilsueflandi skólastarf.

Vöxturinn jafnar sig út um síðir
Óhætt er að segja að óvenju mikil fjölgun barnafjölskyldna í Urriðaholti hafi skapað sannkallaða vaxtarverki fyrir bæjarfélagið. En reynslan sýnir að með tímanum jafnast staðan.
Hefði eitthvað mátt betur fara?
Það tók Urriðaholt 17 ár að byggjast upp og hér að neðan ræðir Gunnar Einarsson fyrrum bæjarstjóri um þau mál sem bærinn hefði að hans mati mátt taka fastari tökum frá byrjun. Sumt í þróun hverfisins var þó illa hægt að sjá fyrir, þar á meðal vinsældir þess hjá fjölskyldum með ung börn.