Róleg byrjun í kjölfar bankahrunsins
Hægagangur í uppbyggingu en ekkert hik á aðstandendum verkefnisins. Fyrstu íbúar flytja inn 2010. Unnið að deiliskipulagi næstu hverfishluta, götur lagðar, lóðir gerðar tilbúnar og 5-víra kerfið innleitt..
Framan af árinu 2008 höfðu framkvæmdir verktaka við fjölbýli meira eða minna ekki hafist, þar sem lánsfé var ekki á lausu. Byrjað var á uppsteypu nokkurra einbýlishúsa. Við fall bankanna haustið 2008 stöðvuðust allar framkvæmdir. Margir þeirra sem keypt höfðu lóðir héldu þeim, en þeir sem tekið höfðu lán til lóðakaupa lentu flestir í því að bankar tóku þær til sín. Um 100 lóðir lentu hjá Arionbanka og stofnuðu Urriðaholt ehf og bankinn fyrirtækið Urriðaland ehf utan um eignirnar árið 2011 til að hafa stjórn á markaðsferlinu. Jafnframt keypti Urriðaland lóðir af Landsbankanum sem höfðu lent þar í hruninu. Árið 2015 var búið að selja flestar lóðir Urriðalands.
Mögur ár en ekki tíðindalaus
Eins og kemur fram hér á undan var afar lítið byggt af íbúðarhúsnæði í Urriðaholti frá 2008 til 2012. Þjóðfélagið var meira og minna í áfalli eftir bankahrunið og litla sem enga lánafyrirgreiðslu að hafa. Þau sem byggðu gerðu það fyrir eigin fé. Ekki bætti úr skák að gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum hafði veikst verulega þannig að verð hækkaði á aðföngum frá útlöndum.
Þetta tímabil var þó ekki tíðindalaust, því Táknatréð var afhjúpað efst á holtinu og hús Náttúrufræðistofnunar Íslands reis við Urriðaholtsstræti. Auk þess var unnið af krafti við undirbúning og lagningu 5-víra dreifikerfis rafmagns í hverfinu.
Listaverkið Táknatréð afhjúpað 2008
Um miðjan maí 2008 var listaverkið Táknatréð afhjúpað efst í Urriðaholti. Táknatréð var þar með fyrsta mannvirkið til að rísa í hverfinu. Síðar var verkið flutt og sett upp við hús Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það fór síðan í geymslu í nokkur ár og var að lokum sett upp varanlega við á Vörðutorgi við Vinastræti, ekki langt frá þeim stað þar sem það reis fyrst. Vörðutorgi er ætlað að vera eitt mikilvægasta almenningsrýmið í Urriðaholti. Þegar frágangi þess verður lokið mun torgið verður beintengt við tröppustíginn niður að Urriðavatni.
Hugmyndin að því að fyrsta mannvirkið í Urriðaholti yrði listaverk varð til eftir heimsókn frönsku listamannanna Mathias Augustyniak og Michael Amzalag, einu nafni M/M, til Íslands snemma árs 2007. Verkið, sem kallaðist Tree of Signs, unnu þeir Mathias og Michael í samstarfi við Gabríelu Friðriksdóttur. Haldin var sýning á frumteikningum í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ. Urriðaholt ehf keypti listaverkið og kostaði uppsetningu þess. Táknatréð byggist á sömu leturgerð M/M og notuð var fyrir umslagið á plötu Bjarkar, Medúllu. Teikningar Gabríelu eru mótaðar í lágmyndir sem hanga í trénu eins og ávextir eða fræ.
Táknatréð er úr bronsi og rúmir fimm metrar á hæð. Við afhjúpun listaverksins sagði Gabríela að kalla mætti það “minnisvarða um möguleikana, innblásið af gjafmildi góðs samstarfs ólíkra aðila og endurspegli þannig undirstöðu þeirrar byggðar sem rísa eigi í Urriðaholti.”
Bygging húss Náttúrufræðistofnunar Íslands
Ríkiskaup auglýstu í júlí 2007 eftir tilboðum í byggingu húss fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ), sem ríkið myndi taka á leigu. Tilboði Urriðaholts ehf var tekið um byggingu 3.500 fermetra húss sem yrði sérhannað utan um starfsemi NÍ. Gengið var frá samkomulagi um bygginguna í mars 2008. Arkís teiknaði húsið og tók Ístak að sér byggingu þess. Hús Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6 var fyrsta atvinnuhúsnæðið sem reis í Urriðaholti.
Þar með átti Náttúrufræðistofnun að komast í varanleg heimkynni, eftir fimm áratuga aðsetur í leiguhúsnæði við Hlemm. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustunga að nýja húsinu 30. júní 2008. Framhaldið gekk þó ekki þrautalaust, því eftir fall bankanna örfáum mánuðum síðar lokaðist fyrir lánsloforð. Samið var við ríkið um að seinka byggingunni en það stopp stóð ekki lengi því Ístak ákvað að gerast hluthafi í verkefninu til að koma því í gang. Stofnað var félagið Náttúrufræðihús ehf um bygginguna og átti Ístak 28,7% hlut á móti Urriðaholti ehf. Lánsfjármögnun fékkst að lokum og hófust framkvæmdir á miðju ári 2009. Hlutur Ístaks var síðar keyptur út og er húsið nú í eigu Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellow, sem hefur af því leigutekjur.
Hús Náttúrufræðistofnunar var formlega tekið í notkun 17. desember 2010. Þann 5. mars 2011 var opið hús hjá NÍ og þrátt fyrir slagveðursrigningu komu á milli 5-6 þúsund manns til að skoða húsið og kynnast starfsemi stofnunarinnar.
Fyrstu íbúarnir sem fluttu í Urriðaholt
Í apríl 2010 var sex manna fjölskylda Hafsteins Guðmundssonar og Steinunnar Bergmann fyrst til að flytja í Urriðaholt, í einbýlishús að Keldugötu 7. Húsið var ekki fullbúið að innan, þannig að fjölskyldan bjó á neðri hæðinni þangað til sú efri var fullkláruð.
Fjölskyldan bjó áður í Krókamýri í Garðabæ en þurfti að stækka við sig, keypti lóðina við Keldugötu og byrjaði að byggja í desember 2008, skömmu eftir fall bankanna. Þegar þau fluttu inn voru dæturnar á heimilinu 11, 21 og 23 ára og sonurinn 13 ára. Þegar þetta er skrifað 2024, bjó fjölskyldan enn í Keldugötunni.