Uppbygging í burðarliðnum
Land var rutt undir golfvöll og ráðist í stígagerð og friðlýsingar. Áform um þekkingarsamfélag og háskóla, Kauptún verður til, Urriðaholt ehf. stofnað og hugað að íbúðabyggð.
Uppbygging jarðarinnar Urriðavatns í eigu Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellow var í þeirri röð að fyrst var ráðist í gerð Urriðavallar, síðan byggt í Kauptúni og að lokum í Urriðaholti.
Undirbúningur að gerð golfvallarins hófst árið 1988 og framkvæmdir 1990. Urriðavöllur varð leikhæfur sem níu holu völlur 1992 ásamt æfingavellinum Ljúflingi.
Árið 2000 var farið að ræða uppbyggingu í Urriðaholti undir þekkingarsamfélag með hátæknigarði, háskóla og íbúðabyggð. Þau áform runnu út í sandinn í framhaldi af því að netbólan sprakk.
Hluti aðstandendur þeirra hugmynda tóku sig síðan saman um uppbyggingu verslunar- og atvinnuhúsnæðis á svæðinu sem nú er Kauptún. Bygging IKEA hófst þar árið 2005.
Sömu aðilar fóru jafnframt árið 2004 að ræða breyttar tillögur um skipulag í Urriðaholti, með áherslu á íbúðabyggð og staðsetningu háskóla. Háskólinn í Reykjavík fékk tilboð um staðsetningu í Urriðaholti en það féll um sjálft sig 2005 þegar HR ákvað að fara annað.
Frumgerð rammaskipulags Urriðaholts leit dagsins ljós snemma árs 2006.
Land rutt undir Urriðavöll og golfklúbbur stofnaður
Í framhaldi af útkomu Hvítbókar um uppbyggingu Urriðavatns var Golfklúbbur Oddfellowa (GOF) stofnaður 12. maí 1990. Klúbburinn tók að sér að byggja golfvöllinn og gáfu eða styrktu félagar í Oddfellowreglunni að mestu alla vinnuna, þar á meðal vélavinnu. Óskar G. Sigurðsson var fyrsti formaður golfklúbbs Oddfellowa og dreif hann framkvæmdirnar áfram af mikilli elju. Gríðarmikil vinna fólst í að hreinsa grjót úr landinu og fjarlægja drasl sem herinn hafði skilið eftir þegar hernáminu lauk. Hönnun vallarins var í höndum Hannesar Sigurðssonar golfvallahönnuðar. Var landslagið látið ráða legu golfbrautanna og áhersla lögð á að hreyfa hvergi við hrauninu.
Níu holu völlur var orðinn leikhæfur síðsumars 1992 ásamt æfingavellinum Ljúflingi. Samhliða var reist lítið hús undir starfsemina. Aðrar níu holur kláruðust 1997 og var Urriðavöllur þá orðinn 18 holur. Skóflustunga að nýjum golfskála var tekin 2004 og var hann tilbúinn fjórum mánuðum síðar. Fyrsta Íslandsmótið var haldið á vellinum 2006.
Þann 24. nóvember 1991 samdi Styrktar- og líknarsjóður Oddfellow (StLO) við Golfklúbb Oddfellowa um afnot af golfvellinum til 50 ára, endurgjaldslaust fyrstu 17 árin. Golfklúbburinn framleigði síðan samninginn til Golfklúbbsins Odds sem var stofnaður 1993 og er opinn öllum. Starfsemi klúbbanna var síðar sameinuð.
Stígagerð, friðlýsingar og stækkun golfvallarins
Samhliða uppbyggingu golfvallarins var ráðist í gerð stíga eftir Búrfellshrauni og að tengja þá við stíga í Vífilsstaðahlíð. Samþykkt var að heimila reiðleið meðfram Heiðmerkurvegi/Vífilsstaðahlíð í Urriðakotshrauni og var hún opnuð 2004.
Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa hefur lagt fram drjúgan hluta af landi Urriðavatns til friðlýsingar. Sjóðurinn á hluta af landi Selgjár, sem var ásamt Búrfelli og Búrfellsgjá friðlýst sem náttúruvætti í júní 2020. Árið 2014 kom StLO að friðlýsingu Vífilsstaðahrauns og Maríuhella.
Árið 2013 var stofnuð landnýtingarnefnd StLO til að móta stefnu um framtíðarnýtingu Urriðavatns. Nefndin hafði sérstaklega í huga hvernig þau áform gætu passað inn í aðalskipulagsbreytingar Garðabæjar fyrir árin 2016-2030. Stækkun Urriðavallar í 27 holur var meðal þeirra tillagna sem fram komu og fólst hluti þeirrar stækkunar í því að leggja golfbrautir í hraunflatanum í Urriðakotshrauni. Samhliða var unnið að því að friðlýsa fólkvangi í Urriðakotshrauni. Unnið var að deiliskipulagi svæðisins samhliða friðlýsingunni og var það í fyrsta skipti sem slíkt var gert. Deiliskipulagið var samþykkt í júlí 2023 og 10. janúar 2024 skrifaði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra undir tillögu Garðabæjar og landeigandans um friðlýsingu fólkvangsins. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem fólkvangur er friðlýstur í einkalandi.
Áform um þekkingarsamfélag var undanfari uppbyggingar Urriðaholts
Bræðurnir Jón og Sigurður Gísli Pálmasynir, Hugvit hf, GoPro-Landsteinar og Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn stofnuðu Þekkingarhús ehf. 26. júlí 2000. Stofnendur félagsins höfðu stórhuga áform um að nýta uppgang í upplýsingatækni til að skapa þekkingarsetur með hátæknigarði, háskóla og fjölbreyttri aðstöðu fyrir atvinnulífið. Áformin vöktu umtal og athygli og leið ekki á löngu þar til Jón Otti Sigurðsson formaður StLO og forsvarsmenn Þekkingarhússins hittust til að ræða möguleika á því að þekkingarsetrið fengi land í Urriðaholti.
Talsmenn Þekkingarhúss áttu fundi með yfirstjórn Oddfelloweglunnar til að ræða hugmyndir og staðsetningu. Haustið 2000 var ákveðið að StLO sæi um samskiptin af hálfu Oddfellow. Rætt var um að Þekkingarhús fengi á leigu 70 hektara lands í Urriðaholti (hektararnir urðu 80 að lokum) undir samfélag fyrirtækja í hátækniiðnaði. Viljayfirlýsing var undirrituð 15. desember 2000 og var Þekkingarhúsið þá komið í aðstöðu til að eiga samskipti við Garðabæ um skipulagsmál. Mikil vinna tók við til að undirbúa og kynna verkefnið. Um svipað leyti lá stofnun Háskólans í Reykjavík fyrir og var lýst yfir áhuga á að fá hann til að vera með. Breytt skipulag var samþykkt í júní 2001 og var skipulagsvinnan í höndum Tekton arkitekta og bandarísku arkitektastofunnar Arrowstreet í Boston.
Uppbyggingaráform kynnt til sögunnar
Áformin voru kynnt opinberlega 1. desember 2001. Gert var ráð fyrir 220 þúsund fermetrum af atvinnu- og stofnanahúsnæði á næstu 35 árum og að 8.500 manns myndu starfa á svæðinu. Áhersla var lögð á umhverfismál, græn svæði og og að byggðin yrði felld að ósnortinni náttúru landsins. Þarna átti að vera hátæknigarður með húsakynnum sem yrðu leigð út, byggjast upp á forsendum atvinnulífsins og draga að sér háskóla.
Um svipað leyti sprakk netbólan svokallaða, tæknin var ekki jafn langt komin og vonast hafði verið eftir. Áhuginn dofnaði hratt og drógu upplýsingatæknifyrirtækin sig út úr Þekkingarhúsi. Áform um uppbyggingu þekkingarsamfélags í Urriðaholti voru lögð á ís.
Kauptún og IKEA komast á kortið
Land Oddfellowa var þar með komið á radarinn hjá þeim Jóni og Sigurði Gísla Pálmasonum, eigendum IKEA. Þeir voru að leita að lóð undir framtíðarhúsnæði verslunarinnar og höfðu skoðað möguleikana á byggingu á Korputorgi í Reykjavík og Vetrarmýri í Garðabæ. Jón Otti sýndi þeim gamlar skipulagsteikningar með verslunarsvæði við Reykjanesbraut. Við tóku viðræður um möguleikana fyrir IKEA og var niðurstaðan sú að staðsetning verslunarinnar væri ákjósanleg á þessum stað. Um miðjan mars 2003 var formlega byrjað að ræða um byggingu IKEA og þurfti að létta hverfisvernd af hluta svæðisins. Framkvæmdir hófust haustið 2005 og opnaði verslun IKEA 12. október 2006. Nokkru áður hafði Vegagerðin lokið við gerð mislægra gatnamóta yfir Reykjanesbrautina inn í hverfið.
Áhugi reyndist fyrir enn meiri uppbyggingu á verslunarsvæðinu og fékk það nafnið Kauptún að tillögu Hallgríms Helgasonar rithöfundar. Húsasmiðjan og Bauhaus sýndu áhuga á að byggja á svæðinu, en úr varð að Byko reisti stórhýsi við hlið IKEA. Byko hætti 2008 og kom Toyota í húsið í staðinn ásamt Lexus. Max tók síðar til starfa austanmegin í Kauptúni og þar á eftir Bónus, Fiskó, Hyundai, Ilva, Vínbúðin og Costco. Vorið 2004 komu fram nýjar hugmyndir um skipulag í Urriðaholti og að efla samstarf Þekkingarhúss og StLO. Um haustið voru samþykktar tillögur um breytt skipulag með aukinni íbúðabyggð, en tæknigarður og háskóli voru enn enn inni í myndinni.
Eftirsótt verslunarsvæði
Áhugi reyndist fyrir enn meiri uppbyggingu á verslunarsvæðinu sem var gefið nafnið Kauptún að tillögu Hallgríms Helgasonar rithöfundar. Húsasmiðjan og Bauhaus sýndu áhuga á að byggja á svæðinu, en úr varð að Byko reisti stórhýsi við hlið IKEA. Byko hætti starfsemi þar 2008 og kom Toyota í húsið í staðinn ásamt Lexus. Raftækjaverslunin Max tók síðar til starfa austanmegin í Kauptúni og þar á eftir Bónus, Fiskó, Hyundai, Ilva, Vínbúðin og Costco.
Nýjar hugmyndir um skipulag Urriðaholts
Vorið 2004 komu fram nýjar hugmyndir um skipulag í Urriðaholti ásamt því að efla samstarf Þekkingarhúss og StLO. Um haustið voru samþykktar tillögur um breytt skipulag með aukinni íbúðabyggð, en tæknigarður og háskóli voru enn enn inni í myndinni.
Urriðaholt ehf stofnað
Til að halda utan um uppbyggingaráformin í Urriðaholti var Urriðaholt ehf stofnað 31. janúar 2005 um 135 hektara land í holtinu og var verðmat þess 1.356 milljónir króna. Eignarhald félagsins skiptist þannig að Viskusteinn, félag bræðranna Jóns og Sigurðar Gísla átti 35% og Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa 65%. Greiðslur bárust síðan frá Viskusteini til StLO samkvæmt samkomulagi. Þekkingarhús var fært undir Urriðaholt ehf. og var Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri þess, en hann hafði áður verið framkvæmdastjóri Þekkingarhúss.
HR boðinn velkominn í Urriðaholt
Nafni Viðskiptaháskólans í Reykjavík var breytt í Háskólann í Reykjavík (HR) árið 2000. Nokkrir eldri skólar höfðu sameinast um stofnun skólans og var vaxandi þörf fyrir nýtt húsnæði til eftir því sem námsleiðum fjölgaði. Aðstandendur Þekkingahúss og síðar Urriðaholts ehf, ásamt Garðabæ, áttu um árabil viðræður við þróunarsvið HR um að byggja í Urriðaholti og sömuleiðis var rætt við Listaháskólann. Mikil vinna var lögð í að skipuleggja háskólasvæðið og bauð Garðabær undir forystu Ásdísar Höllu Bragadóttur bæjarstjóra niðurfellingu gjalda og að bærinn myndi leggja fram 75% af uppbyggingarkostnaði.
Aðstandendur HR höfðu sýnt áhuga á því að fá lóð í Reykjavík en fengu lítil eða engin svör. Þegar tilboð Garðabæjar lá hins vegar fyrir tók Reykjavíkurborg við sér og bauð á móti útivistarsvæði í Nauthólsvík. Til að það væri gerlegt fékk borgin undanþágu frá umhverfismati. HR kynnti síðan í júní 2005 að Nauthólsvík hefði orðið fyrir valinu. Hugmyndin um tæknigarð og háskóla í Urriðaholti var þar með ekki lengur í myndinni.