Oddfellowar eignuðust Urriðavatn

Félagar í Oddfellow keyptu jörðina Urriðavatn 1946 en gáfu hana síðar til Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellow. Næstu áratugir voru tíðindalitlir þar til hugað var að frekari landnýtingu 1987 með útgáfu Hvítbókar.

Sumarbúðir að Urriðavatni

Árið 1946, aðeins ári eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk, keyptu 30 félagar í Oddfellowreglunni jörðina Urriðavatn. Jarðarkaupin voru ekki gerð í nafni Oddfellowreglunnar, heldur voru það einstaklingar innan hennar sem þarna tóku sig saman. 

Forsaga þess að Urriðavatn komst í eigu einstaklinga í Oddfellowreglunni er sú að bræðurnir Alfreð og Kári Guðmundssynir höfðu keypt jörðina Urriðakot árið 1939. Þeir breyttu heiti hennar í Urriðavatn árið 1944 og leigðu jörðina frá sér. Leigutekjur stóðu þó vart undir kostnaði og nálgaðist Alfreð Oddfellowfélagann og verslunarmanninn Gunnar Ásgeirsson 30. apríl 1946 og spurði hvort hann hefði áhuga á að kaupa jörðina. Gunnari leist vel á og hóaði nokkrum félögum í Oddfellowreglunni saman til að skoða möguleika á nýtingu landsins. Jörðin var auglýst til sölu 22. maí 1946 og gerði hópurinn tilboð upp á 167 þúsund krónur. Garðahreppur sýndi ekki áhuga á að nýta forkaupsrétt.

Sumarbúðir að Urriðavatni í eigu 61 Oddfellowa

Alls stóðu 30 Oddfellowar að kaupunum á Urriðavatni og stofnuðu þeir félagið Sumarbúðir að Urriðavatni um framtakið og buðu öllum Oddfellowum að vera með. Alls urðu félagar 61 talsins og var árgjaldið 2.000 krónur. Hugmyndin var að hver og einn félagi gæti reist sumarbústað og svo yrði reistur skáli með mötuneyti, verslun og þvottavélum. Ekki síst var hugmyndin með mötuneyti að húsmæður gætu fengið frí frá daglegri matseld.

Barningur 

Áform Oddfellow félaganna um nýtingu Urriðavatns gengu aðeins að hluta eftir. Efni fólks voru alla jafna lítil og gjaldeyrishöft eftirstríðsáranna gerðu öll aðföng erfið eða jafnvel ómöguleg. Félagsmenn áttu margir hverjir í erfiðleikum með að standa skil á árgjaldinu. Enda var það svo að strax árið 1948 var fyrst farið að ræða hvort gefa ætti Oddfellowreglunni landið.

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellow eignast Urriðavatn

Fremur brösuglega gekk að standa undir landareigninni og byggja upp aðstöðu til sumardvalar. Eftir að Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowreglunnar var stofnaður árið 1955 var farið að ræða möguleika þess að sjóðurinn tæki við Urriðavatni. Það varð svo úr að 11. maí 1957 samþykktu félagsmennirnir, sem þá voru 61 talsins, að gefa sjóðnum jörðina, sem var alls um 400 hektarar. Það var hins vegar ekki fyrr en rúmlega fjórum áratugum síðar sem landareignin fór að skila tekjum að ráði, með uppbyggingu Kauptúns og Urriðaholts. Það tók því hátt í sex áratugi frá kaupunum á Urriðavatni þar til jörðin fór að gefa af sér til góðra málefna.

Ingjaldur Ásvaldsson Oddfellowi talar um fyrstu árin sem félagar í reglunni áttu Urriðavatn

Tekjur af Urriðavatni voru lengst af engar, en 1969 var samið við verktaka um malarnám í Búrfellshrauni. Náttúruverndarráð lagðist gegn því, taldi spjöll verða á hrauninu og bannaði sýslumaður malartökuna. Henni var engu að síður haldið áfram til 1974 en þá var jörðin Urriðavatn sett í heild sinni á skrá yfir náttúruminjar. Nokkurt lýti var að námasvæðinu og tók Garðabær að sér að snyrta það árið 1995.

Hugað að skógrækt

Fljótlega eftir að jörðin komst í eigu Sumarbúða að Urriðavatni var farið að huga að skógrækt. Girða þurfti land til að verjast ágangi fjár og var það gert í nokkrum áföngum og lauk 1962. Þá hófst undirbúningur trjáræktar, Oddfellowstúkur fengu úthlutað gróðursetningarreitum og reyndist áhugi mikill og var gróðursett af kappi, sérstaklega í Flatahrauni/Urriðakotshrauni og einnig þar sem nú er Kauptún. Síðar var einnig farið að gróðursetja á svæðinu í Búrfellshrauni sem snýr að Vífilstöðum. Þegar byrjað var að byggja í Kauptúni voru trén flutt þaðan inn á golfvallarsvæðið á árunum 2005-2008.

Skátaskálinn

Skátar fengu leyfi til að reisa skála í landi Urriðavatns árið 1968 og var hann síðan fluttur til á svæðinu eftir að byrjað var að reisa golfskálann á Urriðavelli.

Hluti seldur til bæjarins

Markmið Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar með eignarhaldinu á Urriðavatni var ávallt að reyna að hafa af því tekjur sem verja mætti til almannaheilla. Ýmsar hugmyndir voru ræddar og tillögur meðal annars lagðar fram á árunum 1971 til 1975. Garðabæ var boðið að kaupa landið, en ekki reyndist áhugi á því. Aftur á móti keypti bærinn 5,8 hektara úr jörðinni í Molduhrauni (vestan megin við Reykjanesbrautina), þar sem áformað var að hafa atvinnustarfsemi.

Ekkert var aðhafst frekar næstu árin, en eftir að nákvæm landamerki lágu fyrir komst hreyfing á málin.

Tímamót með Hvítbókinni

Árið 1987 markar ákveðin tímamót, þá var settur kraftur í að fara að nýta jörðina, þar á meðal fyrir golfvöll. Vinnuhópur var settur á laggirnar undir forystu Oddfellowans Jóns Otta Sigurðssonar og hélt hópurinn fyrsta fund sinn 6. apríl 1987. Árið eftir var niðurstaða vinnunnar gefin út í Hvítbók um framtíðarskipan Urriðavatns. Gert var ráð fyrir íbúðabyggð fyrir 4.500 manns, skólum og leikskólum á 96 hektörum lands og golfvelli á 65 hektörum með áherslu á góða göngustíga

Ingjaldur Ásvaldsson segir frá Hvítbók Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar, þar sem lagður var grunnurinn að því að nýta jörðina Urriðavatn til góðra verka.
Þráinn Hauksson landslagsarkitekt talar um hvernig áform Oddfellowa í Hvítbókinni hafa að mestu gengið eftir.