Lífið tekur við í Urriðaholti

Eftir því sem fjölgaði í Urriðaholti fóru íbúar að kynnast gæðum þess betur og tókust um leið - í samvinnu við bæjarfélagið - á við áskoranir á borð við gríðarlega fjölgun barna á leikskólaaldri og vandasaman snjómokstur.

Fyrst hægt og svo hratt

Fyrsta fjölskyldan flutti í Urriðaholt árið 2010. Til ársins 2015 fjölgaði afar hægt í hverfinu, nokkrar fjölskyldur fluttu inn í einbýlis- og parhús við Keldugötu og Kinnargötu á árunum 2012 til 2014. Það var ekki fyrr en 2015 sem fyrstu íbúarnir fluttu inn í fjölbýlishús við Holtsveg. Strax upp úr 2016 fór að fjölga að ráði í hverfinu og eftir 2018 bættust við hundruð nýrra íbúa á hverju ári. Fjölgun barna var áberandi mikil og um tíma voru 13% íbúa í hverfinu á leikskólaaldri. Mesta íbúafjölgun á einu ári var 2021, en þá eignuðust 727 einstaklingar lögheimili í hverfinu.

Í töflunni hér að neðan má sjá fjölda íbúa með lögheimili í Urriðaholti í loks hvers árs frá 2010 til 2024 samkvæmt yfirliti frá Þjóðskrá.

Í töflunni má sjá fjölda íbúa með lögheimili í Urriðaholti í loks hvers árs frá 2010 til 2024 samkvæmt yfirliti frá Þjóðskrá.

Íbúar í lok hvers ársFjöldi
Með lögheimili í lok árs 20105
Með lögheimili í lok árs 20115
Með lögheimili í lok árs 201215
Með lögheimili í lok árs 201316
Með lögheimili í lok árs 201424
Með lögheimili í lok árs 201572
Með lögheimili í lok árs 2016287
Með lögheimili í lok árs 2017529
Með lögheimili í lok árs 20181.018
Með lögheimili í lok árs 20191.388
Með lögheimili í lok árs 20201.989
Með lögheimili í lok árs 20212.716
Með lögheimili í lok árs 20223.243
Með lögheimili í lok árs 20233.746
Með lögheimili í lok árs 20244.220

Plokkið leiddi til stofnunar íbúasamtaka

Fjúkandi rusl fylgir gjarnan byggingarframkvæmdum og Urriðaholt var engin undantekning. Vegna umfangs framkvæmdanna fundu íbúar sérstaklega mikið fyrir ruslinu og erfitt var að henda reiður á hvaðan það fauk. Nokkrir íbúar tóku sig því saman í apríl 2018 og boðuðu til fyrsta plokkdagsins í hverfinu, á Degi jarðar. Framtakinu var afar vel tekið og leiddi þessi samstaða til stofnunar íbúasamtaka í Urriðaholti. Plokkdagur hefur verið haldinn árlega í hverfinu síðan þá.

Hafliði Kristinsson formaður íbúasamtaka Urriðaholts talar um hvernig stofnun þeirra bar að.

Þrengsli eða nánd – skipulag Urriðaholts er „öðruvísi“

Í gegnum tíðina hafa líflegar umræður skapast meðal íbúa í Urriðaholti um þann þéttleika sem einkennir skipulag hverfisins. Allt er það samt með ráðum gert, áherslan var lögð á að skapa tilfinningu fyrir rótgróinni og þéttri byggð og stuðla að auknu öryggi vegfarenda. 

Hafliði Kristinsson formaður íbúasamtaka Urriðaholts talar um hvaða áhrif það hefur að búa þétt í Urriðaholti.

Þegar snjóar á þröngar götur

Mikil snjókoma og þröngar götur fara ekki endilega vel saman. Byrjunarörðugleikar voru í snjómokstri og hálkuvörnum í Urriðaholti og ekki laust við pirring meðal íbúa sem illa komust leiðar sinnar. Það tók starfsmenn Garðabæjar tíma að ná tökum á hvernig best væri að bregðast við þessum aðstæðum.

Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar frá 2022 talar um áskoranir sem fylgja snjómokstri í Urriðaholti.
Hafliði Kristinsson formaður íbúasamtaka Urriðaholts talar um áhrifin af mikilli snjókomu og hvernig til hefur tekist í glímunni við hana.

Útivistarperlur á næsta leiti

Íbúar í Urriðaholti hafa oft á orði hvað möguleikar til útivistar eru miklir í næsta nágrenni. Stutt er yfir í Heiðmörk og upplönd Garðabæjar til austurs, vinsælt er að ganga í kringum Urriðavatn og út á hrauntangann og til norðurs liggja stígar um Vífilstaðahraun.

Hafliði Kristinsson formaður íbúasamtaka Urriðaholts lýsir upplifun sinni af nálægðinni við náttúruna.
Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar frá 2022 talar um lífsgæðin sem fylgja nálægð Urriðaholts við útivistarperlur.