29.01.2015

Staðarvísir Urriðaholts stuðlar að aðlaðandi umhverfi

Skipulagsráðgjafar, landslagshönnuðir, fulltrúar Garðabæjar og verktakar hittust á fjölmennum fundi þann 26. janúar til að ræða uppbyggingu Urriðaholts. Ekki síst var rætt um hvernig best mætti tryggja að frágangur og ásýnd húsa og lóða í Urriðaholti verði í samræmi við skipulagsáherslur hverfisins.

Til að undirstrika þessar áherslur á staðarandann fékk Urriðaholt ráðgjafarfyrirtækið Alta til að taka saman Staðarvísi fyrir Urriðaholt. Staðarvísirinn er 50 blaðsíður og er einskonar leiðarvísir fyrir húsbyggjendur og hönnuði í umhverfishönnun hverfisins. Landslag ehf. og John Thompson & Partners (JTP) unnu með Alta að gerð Staðarvísisins. Staðarvísirinn er aðgengilegur hér á vef Urriðaholts.

Fegurðin liggur í smáatriðunum

Eric Holding, skipulagsráðgjafi hjá JTP í Bretlandi og landslagsarkitektarnir Heiða Aðalsteinsdóttir frá Alta og Þráinn Hauksson frá Landslagi sögðu á fundinum að mikilvægt væri að hugsa um smáatriðin til að ná tilætluðum árangri. Þau bentu á að fólk vildi vera í fallegu og skemmtilegu umhverfi og Urriðaholt væri hugsað þannig. Hins vegar þyrfti að fylgja því alla leið, með því að gleyma ekki fegurðinni í umhverfinu og þeim margvíslegu leiðum sem hægt er að fara til að ná þeim. Þar kemur Staðarvísirinn sterkur inn, því þar er að finna margvísleg dæmi og fyrirmyndir um skemmtilega hönnun og fallegan frágang.

Garðabær gengur í takt við framkvæmdir

Gunnar Einarsson bæjarstjóri tók undir orð sérfræðinganna og sagði að Urriðaholt gæfi tóninn fyrir áherslur bæjarins í umhverfismálum. Urriðaholt væri mikilvæg fyrirmynd og engir afslættir yrðu gefnir á umhverfisáherslum í hverfinu.
Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur í Garðabæ sagði að bærinn legði mikla áherslu á að sinna gatnagerð og öðrum opinberum framkvæmdum í takti við uppbygginguna. Hann sagði að gangstéttir og yfirborð á götum yrði klárað jafnóðum og því yrði við komið.

Forsíða staðarvísis
Forsíða Staðarvísisins.
Verktakafundur janúar 2015 IMG 7209
Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur.
Verktakafundur janúar 2015 IMG 7203
Nokkrir verktakanna sem voru á kynningarfundinum.
Verktakafundur janúar 2015 IMG 7202
Baldur Ó. Svavarsson arkitekt og Eric Holding skipulagsráðgjafi.
Verktakafundur janúar 2015 IMG 7204
Jakob Líndal arkitekt gluggar í Staðarvísinn.

Tengt efni