19.12.2010

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur til starfa í Urriðaholti

Náttúrufræðistofnunar Íslands opnaði formlega í nýjum heimkynnum í Urriðaholti föstudaginn 17. desember. Nýja húsið er sérstaklega hannað fyrir starfsemi stofnunarinnar og er fyrsti vísir að uppbyggingu fjölbreyttrar skrifstofu- og þjónustustarfsemi í Urriðaholti.

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, sagði við opnunina að hin nýju heimkynni í Urriðaholti væru mikið framfaraspor, ekki síst þegar kemur að öruggri varðveislu verðmætra náttúrusýna og aðgengi að þeim til rannsókna.

Með hliðsjón af eðli starfsemi Náttúrufræðistofnunar var mikil áhersla lögð á að hönnun hússins grundvallaðist á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Að frumkvæði Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra var ákveðið að fá húsið umhverfisvottað miðað við BREEAM, sem er evrópskt vottunarferli fyrir vistvænar byggingar.

Fjöldi gesta var við opnunina. Ávörp fluttu Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ, Eyþór Einarsson elsti starfsmaður Náttúrufræðistofnunar, Ólafur Helgi Ólafsson stjórnarformaður Náttúrufræðihúss ehf. og Jón Gunnar Ottósson forstjóri NÍ.

Áformað er að hafa opið hús hjá Náttúrufræðistofnun snemma á næsta ári.

Húsið

Bygging húss Náttúrufræðistofnunar hófst í október 2009. Arkís hannaði húsið og Ístak var aðalverktaki við bygginguna. Húsið er sérstaklega sniðið utan um starfsemi Náttúrufræðistofnunar. Það er 3.500 fermetrar að stærð og nýjustu tækni er beitt til að tryggja varðveislu náttúrugripa, sem margir eru mjög verðmætir og sjaldgæfir.

Glerhjúpur setur sterkan svip á bygginguna og er helsta einkenni hennar. Auk þess myndar hann veðurhlíf um bygginguna og tryggir betur virkni náttúrulegrar loftræstingar, jafnvel í verstu veðrum.

Tveir meginstigar á milli allra hæða eru í byggingunni. Þau rými mynda eins konar gjá með brúm á milli innri rýma og leggja einnig áherslu á þrískipt form hússins.

Gjörbreytt starfsumhverfi

„Hlutverk Náttúrufræðistofnunar í íslensku þjóðfélagi er mjög þýðingarmikið og fer vaxandi og nú er stofnunin enn betur í stakk búin til að sinna því hlutverki sem henni er ætlað,“ segir Jón Gunnar Ottósson forstjóri.

„Nýja húsnæðið í Urriðaholti gjörbreytir öllu starfsumhverfi stofnunarinnar og bætir mjög aðstöðu til rannsókna, fræðslu og varðveislu gripa. Helsta breytingin er sú að umfangsmikil og verðmæt gripasöfn stofnunarinnar komast loks í viðunandi húsnæði. Safnaskálar bjóða upp á fullkomnustu aðstöðu fyrir varðveislu gripa og uppfylla strangar öryggiskröfur þar sem brunavarnir eru fyrsta flokks ásamt nákvæmu eftirliti með loftræstingu, hita og raka.

Í fyrsta skipti verður hægt að veita vísindamönnum og nemendum aðgang að söfnum til rannsókna. Einnig er þetta í fyrsta skipti í rúmlega 120 ára sögu stofnunarinnar sem hún getur boðið starfsfólki sínu upp á frambærilegar rannsóknarstofur,“ segir Jón Gunnar einnig.

Vottun og viðurkenningar

Hús Náttúrufræðistofnunar er eitt af fyrstu húsum hér á landi til að fá alþjóðlegu BREEAM umhverfisvottunina. Vottunin tekur til þeirra þátta byggingarinnar sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif hennar og stuðla að sjálfbærni. Rammaskipulag Urriðaholts fékk árið 2007 verðlaun fyrir áherslu á lífsgæði í borgarskipulagi, frá Alþjóðasamtökunum LivCom, sem njóta stuðnings UNEP, Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Upplifun í anddyrinu

Í anddyri húss Náttúrufræðistofnunar geta gestir og gangandi notið vídeólistaverka sem tengjast íslenskri náttúru. Í gólf anddyrisins hefur verið fellt listaverkið Lægð, sem er spírall úr messing og táknmynd fyrir lægðakerfin sem móta náttúru landsins. Spírallinn skírskotar einnig almennt til tengsla náttúru og vísinda, enda er þetta form víða að finna í náttúrunni.

Skipulag í Urriðaholti

Skipulag í Urriðaholti í Garðabæ er blanda af verslunum og þjónustu í Kauptúni, íbúðabyggð í sunnanverðu holtinu og atvinnuhúsnæði að norðanverðu, auk menningar- og samfélagsþjónustu á háholtinu. Hús Náttúrufræðistofnunar er fyrsti vísir að uppbyggingu fjölbreyttrar skrifstofu- og þjónustustarfsemi í Urriðaholti.

Umhverfið í holtinu er einstakt. Mikil nálægð er við náttúruna, þar er fallegt útsýni, náttúruleg umgjörð, einstök staðsetning og gott aðgengi að meginumferðaræðum höfuðborgarsvæðisins.

Um Náttúrufræðistofnun Íslands

Náttúrufræðistofnun á rætur að rekja til ársins 1889, þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað. Á Náttúrufræðistofnun Íslands í Garðabæ og á Akureyri starfa rúmlega 50 manns við margvíslegar rannsóknir og vöktun á náttúru landsins. Þá sinnir stofnunin ráðgjöf um landnotkun og nýtingu náttúruauðlinda sem og fræðslu til skóla og almennings.

Vefsetur Náttúrufræðistofnunar www.ni.is

Hus NI Urridaholt CF109993 litil
Náttúrufræðistofnunar Íslands er formlega tekin til starfa í Urriðaholti í nýjum og glæsilegum heimkynnum við Urriðaholtsstræti.
Natturufraedistofa islands 34
Eyþór Einarsson grasafræðingur, elsti starfsmaður Náttúrufræðistofnunar, flutti ávarp við opnunina og rifjaði meðal annars upp að skömmu eftir að hann hóf störf hjá stofnuninni árið 1959 flutti hún í “bráðabirgðahúsnæði” við Hlemm – og var þar til húsa næs
Natturufraedistofa islands 45
Gunnar Einarsson bæjarstjóri bauð Náttúrufræðistofnun Íslands velkomna í Garðabæinn og sagðist gjarnan vilja sjá að sýningarhúsnæði Náttúruminjasafns yrði reist við hliðina á húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti.
Natturufraedistofa islands 60
Ólafur Helgi Ólafsson, formaður stjórnar Náttúrufræðihúss ehf. afhenti Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra afsteypu af listaverkinu Lægð sem prýðir gólfið í anddyri hússins.
Natturufraedistofa islands 47
Bæði forstjóri Náttúrufræðistofnunar og umhverfisráðherra fengu afhenta afsteypu af listaverkinu Lægð.
Natturufraedistofa islands 64
Jón Gunnar Ottósson forstjóri NÍ sýnir Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra og eiginmanni hennar Torfa Hjartarsyni safnaskála hússins, en í þeim eru geymdar milljónir náttúrugripa, margir hverjir mjög gamlir og sjaldgæfir.
Natturufraedistofa islands 102

Tengt efni