Listaverkið „Undur og stórmerki“ á Vinatorgi

Vinningstillagan sýnir þrjá spírala sem eru táknmynd fyrir þau undur og stórmerki sem lífið reynist vera.

Urriðaholt ehf. stóð í haust fyrir hugmyndasamkeppni um verk/byggingu til að setja upp á Vinatorgi og var fimm listamönnum boðin þátttaka. Í áherslum fyrir keppnina kom fram að verkið yrði táknrænt kennileiti fyrir torgið og Urriðaholt og æskilegt ef það vekti forvitni og áhuga, og laðaði að fólk á öllum aldri. Verkið nyti sín að nóttu og degi og lýsing og litir skiptu máli. Verkið myndi styrkja torgið sem samkomustað íbúa á góðviðrisdögum og talaði við byggingarnar og umhverfið við torgið. 

Allar innsendar tillögur uppfylltu skilyrði samkeppninnar, voru áhugaverðar og báru höfundum sínum gott vitni. Dómnefnd taldi tillögu Kristins E. Hrafnssonar skara fram úr sem sérstaklega áhugaverða og myndi vekja forvitni, laða fólk að og vera sterkt kennileiti. Tillagan fellur vel að umhverfi sínu, er haganlega staðsett miðað við gönguleiðir að og frá torginu og er búin til úr stáli sem er slitsterkt efni sem þolir veður og umgengni vel. Verkið verður rúmlega 3 m hátt og í miðjunni mætast spíralarnir og þar verður óreiðan mest. 

„Spírallinn er áminning um það að endurtekningin er ekki til í öðru formi en sem hreyfing – allt er alltaf nýtt í ákveðnum skilningi og ekkert gengur aftur í sama farið.“ 

Verkið er opinn strúktúr og utan með því eru setbekkir, gróðurbeð, tré, runnar og lágstemmd lýsing.

Listaverkið „Undur og stórmerki“ verður góð viðbót við aðra uppbyggingu á háholtinu og verður hluti af því að klára uppbyggingu háholtsins með því að búa til áhugaverðan áningarstað á Vinatorgi. 

Tillögur og niðurstöður hugmyndasamkeppninnar voru kynntar á fundi skipulagsnefndar Garðbæjar 13. nóvember 2025 og á aðalsfundi íbúasamtaka Urriðaholts 17. nóvember 2025.

Tillögurnar fimm sem bárust í hugmyndasamkeppnina (PDF skjöl)

Tillaga Kristinn E. Hrafnsson

Tillaga Brynhildur Þorgeirsdóttir

Tillaga Carl Boutard

Tillaga Dagur Eggertsson

Tillaga Una Magnúsdóttir