15.10.2014

Deiliskipulag 2. áfanga Urriðaholts kynnt til sögunnar

Almennur kynningarfundur á drögum að deiliskipulagi 2. áfanga Urriðaholts var haldinn þriðjudaginn 14. október í Flataskóla. Skipulagsnefnd Garðabæjar stóð að kynningunni. Að auki voru kynntar tillögur að breytingum á deiliskipulagi vesturhluta Urriðaholts sem nær til Mosagötu.

Um var að ræða forkynningu á deiliskipulagstillögunni. Hún gerir ráð fyrir 161-181 íbúðareiningum í blandaðri byggð. Þar af verða um 121 til 141 íbúð í fjölbýli, 24 í raðhúsum, 12 í parhúsum og 4 í einbýlishúsum. Leitast er við að skapa fjölbreytni í húsgerðum og lifandi tengsl bygginga og göturýma. Hæð og fyrirkomulag húsa leitast við að taka mið af skjólmyndum eftir því sem hægt er og að sólar og útsýnis njóti sem víðast.

Deiliskipulagssvæðið liggur í norðurhlíð Urriðaholts á milli Urriðaholtsstrætis í norðri og græns geira í suðri. Að vestanverðu afmarkast það af Holtsvegi og að austanverðu af Brekkugötu. Skipulagssvæðið er um 5 ha óbyggt svæði og þar er gert ráð fyrir blandaðri íbúðarbyggð með einbýli, parhúsum, raðhúsum og fjölbýlishúsum.

Tillögurnar eru aðgengilegar á heimasíðu Garðabæjar, gardabaer.is og á heimasíðu Urriðaholts, urridaholt.is. Hér að neðan eru krækjur á tillögurnar.

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á því að koma með ábendingar sem verða teknar til umfjöllunar við endanlega mótun tillögunnar. Skal þeim skilað skriflega til skipulagstjóra Garðabæjar fyrir 29. október.

IMG 6315
Mikil uppbygging á sér nú stað í 1. áfanga Urriðaholts og ekki seinna vænna en fara að huga að næsta áfanga.
Skýringarmynd af 2 áfanga deiliskipulags
Skýringarmynd sem sýnir drög að deiliskipulagi 2. áfanga Urriðaholts.

Tengt efni