Vistvottað hverfi
Urriðaholt er nýtt hverfi í Garðabæ með einstakt útsýni til allra átta. Urriðaholt byggir á hugsjón um að íbúabyggð eigi að hámarka lífsgæði fólksins sem þar býr í sátt við náttúruna í kring og umhverfið allt. Skipulag Urriðaholts er fyrsta hverfið hér á landi til að hljóta vistvottun samkvæmt vottunarkerfi BREEAM Communities.
Urriðaholt er þéttbýli í náinni tengingu við nokkur helstu útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins, ósnortna náttúru og góðar samgönguæðar sem stytta leiðir í allar áttir. Skamman tíma tekur að fara með strætó til og frá Mjódd, sem er ein stærsta skiptistöðin á höfuðborgarsvæðinu.
Velkomin í Urriðaholt!
Lifandi byggð
Við hönnun Urriðaholts var lögð mikil áhersla á að byggðin verði að lifandi og sjálfstæðu samfélagi þar sem er gott að búa og að ekki þurfi að fara langt til að sækja helstu þjónustu.
Urriðaholt er hluti af Garðabæ og hverfið nýtur allrar þjónustu sem Garðabær hefur upp á að bjóða.
Lögð er áhersla á blöndun íbúðaforma til að stuðla að fjölbreytni og valkostum fyrir alla.
Urriðaholtsskóli hefur nú þegar tekið til starfa. Meira um Urriðaholtsskóla
Í Kauptúni er verslunar- og þjónustukjarni í göngufæri við íbúabyggðina í Urriðaholti. Þar eru meðal annars verslanir IKEA, Costco, Bónus og Vínbúðin.
Efst á Háholti Urriðaholts er gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða og þjónustu; verslunum, heilsugæslu, skólum og íþróttamannvirkjum svo nokkuð sé nefnt. Með því að beina erindum fólks á einn stað myndast þéttara samfélag og bæjarbragur.
Í nágrenni við Náttúrufræðistofnun Íslands er svo gert ráð fyrir þjónustustarfsemi og þannig mun fjöldi fólks eiga kost á því að búa og starfa í Urriðaholti í náinni framtíð.
Umhverfið í fyrsta sæti
Urriðavatn og votlendið umhverfis það er ævintýraheimur og heimkynni ótal plantna og dýra. Það er kappsmál að sambúðin við náttúruna sé vel heppnuð og að Urriðaholt sé umhverfisvæn byggð í hæsta gæðaflokki. Áherslum Urriðaholts í umhverfis- og skipulagsmálum hefur verið fylgt eftir með alþjóðlegu umhverfis- og vistvottunarkerfi. Þannig er tryggt að byggingar á svæðinu hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið og stuðli að mannvænu og sjálfbæru samfélagi.
Urriðaholt er fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags (BREEAM Communities) sem ætlað er að tryggja lífsgæði og umhverfisvernd með vistvænu skipulagi byggðarinnar. Auk þess var húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands ein af fyrstu byggingum hér á landi til að fá umhverfisvottun (BREEAM Construction Assessment) og í undirbúningi er sambærileg vottun Urriðaholtsskóla. Fyrsta einbýlishúsið til að fá Svansvottun hér á landi er í Urriðaholti.
Meira um umhverfisvottanir
Sjálfbærar ofanvatnslausir tryggja hringrás vatnsins í hverfinu svo lífríkið í kring raskist ekki og haldi áfram að dafna. Þessar lausnir eru þær fyrstu sinnar tegundar í íbúabyggð á landinu.
Meira um sjálfbærar lausnir
Lífsgæðin í fyrirrúmi
Lífsgæði felast ekki síst í því umhverfi sem við búum okkur. Allt skipulag byggðarinnar í Urriðaholti miðar að því að gera daglegt líf íbúanna ánægjuríkt og auðvelt þar sem náttúrunni er veitt tækifæri á að njóta sín, bæði á lóðum og í almenningsrými. Opin svæði inni í hverfinu eru skipulögð með útiveru og tómstundir í huga. Hönnun lýsingar utanhúss gengur út á að hún sé þægileg og að náttúruleg birta og stjörnubjartar nætur fái að njóta sín.
Umferðargötur hverfisins hafa verið hannaðar með auðveldar samgöngur að og frá heimili í fyrirrúmi, en um leið með það í huga að umhverfið fái að njóta sín og að umferðarhraði sé hæfilegur. Strætisvagn gengur um Urriðaholt og frá Kauptúni. Göngustíganet tengir allt hverfið saman og við nálæg útivistarsvæði.
Urriðaholt hefur hlotið viðurkenningar á sviði skipulags- og umhverfismála, m.a. “Awards for Livable Communities” um lífsgæði í borgarskipulagi.
Nánar um LivCom verðlaunin.
Dreifikerfi rafmagns í Urriðaholti er 5-víra kerfi sem tryggir betra jarðsamband en hefðbundin dreifikerfi og lágmarkar rafmengun.
Nánar um 5-víra kerfið
Bein tenging við náttúruna
Betri staðsetning fyrir náttúruunnendur og útivistarfólk er vandfundin. Urriðaholt liggur við friðlandið í Heiðmörk sem er stærsta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins og er tengt beint við það með göngu- og hjólastígum.
Í jaðri hverfisins er svo Búrfellshraunið og sjálft Urriðavatn þar sem ungir sem aldnir íbúar þorpsins geta uppgötvað fjölskrúðugt lífríkið við vatnið. Hverfið liggur aflíðandi í halla sem skapar skjól og einstakt útsýni yfir náttúruna í kring.
Nánar um náttúruna allt um kring
Stutt í allar áttir
Þótt Urriðaholt sé umkringt óspilltri náttúru þá er stutt í góðar samgönguæðar sem tengja byggðina við aðra hluta höfuðborgarsvæðisins. Auk Kauptúns er aðeins nokkurra mínútna akstur í þjónustu og verslun í Garðabæ eða Hafnarfirði.
Hverfið er með beina tengingu við Reykjanesbraut, sem tryggir greiðar leiðir í allar áttir. Fljótlegt er að fara í Smáralind eða að gatnamótum Miklubrautar og Reykjanesbrautar við Elliðaárvog. Strætó fer úr Kauptúni í Mjódd, sem er ein stærsta skiptistöðin á höfuðborgarsvæðinu.