Urriðaholt er í góðum málum með samgöngur

Rætt við Ólaf Guðmundsson umferðarsérfræðing um mælingar á aksturstíma milli Urriðaholts og áfangastaða á höfuðborgarsvæðinu.


„Tíminn sem fer í að aka milli staða skiptir í raun miklu meira máli en vegalengdin sjálf og að því leyti er Urriðaholt í mjög góðum málum.“

Þetta segir Ólafur Kr. Guðmundsson umferðarsérfræðingur.

Ólafur tók að sér fyrir Urriðaholt ehf. að mæla aksturstíma milli Urriðaholts og nokkurra áfangastaða á höfuðborgarsvæðinu. Prófunarbíllinn er útbúinn nákvæmum búnaði til að mæla tíma og vegalengdir, svo og eldsneytiseyðslu. Aksturinn er jafnframt tekinn upp á myndband.

Helstu niðurstöður akstursmælinga Ólafs eru þær að mjög fljótlegt er að komast til og frá Urriðaholti um höfuðborgarsvæðið. Þar skiptir Reykjanesbrautin mestu, en hún er ein greiðfærasta gata landsins og liggur skammt frá Urriðaholti um mislæg gatnamót.

En hvað er það sem gerir Reykjanesbrautina svona fljótfarna?

„Frítt flæði bílanna er það sem skiptir öllu máli,“ segir Ólafur. „Reykjanesbrautin er afar vel hannað og vel heppnað umferðarmannvirki. Gatnamót eru mislæg, tvær akreinar í báðar áttir og engin umferðarljós og engar hraðahrindranir fyrr en eftir 7 kílómetra við Bústaðaveg og tæplega einn kílómetra við Kaplakrika. Umferðin líður því áfram á stöðugum og góðum hraða. Þarna verða nánast aldrei umferðarteppur þrátt fyrir býsna mikla umferð.“

Skapast þá ekki meiri slysahætta þegar hraðinn er orðinn meiri?

„Þvert á móti, umferðaróhöpp og slys á Reykjanesbrautinni á þessum kafla eru hreint og beint sjaldgæf samkvæmt slysaskráningu Samgöngustofu. Meira að segja gatnamót Reykjanesbrautar og Miklubrautar við Elliðaárvog, sem eru umferðarmestu gatnamót landsins, komast ekki á lista yfir 20 hættulegustu gatnamót höfuðborgarsvæðisins. Af þessum 20 hættulegustu gatnamótum eru 19 þeirra ljósastýrð. Þar verða alvarlegustu umferðaróhöppin.

Það skiptir líka máli þegar litið er á Reykjanesbrautina að umferð úr gagnstæðum áttum er aðskilin með vegriði. Líkurnar á alvarlegum árekstrum bíla sitt úr hvorri áttinni eru því hverfandi.“

Hvað með samgöngur úr Urriðaholti þegar Reykjanesbrautinni sleppir?

„Íbúar í Urriðaholti eru í mjög góðri stöðu með samgöngur í allar áttir. Samkvæmt mínum mælingum er tiltölulega fljótlegt að skjótast í miðbæ Garðabæjar úr Urriðaholti og litlu lengur að skreppa í miðbæ Kópavogs. Það sama má segja um miðbæjarkjarna Hafnarfjarðar, en auðvitað hefur áhrif á hvaða tíma dags fólk er á ferðinni. Það segir sig svo sjálft að þeir sem sækja vinnu í miðborg Reykjavíkur þurfa að sætta sig við hægfara umferð þangað á helstu annatímum, líkt og allir aðrir. En sá seinagangur byrjar ekki fyrr en komið er út af Reykjanesbrautinni.“

Nokkur önnur hverfi á höfuðborgarsvæðinu liggja nálægt greiðfærum stofnbrautum, t.d. Grafarholt og Grafarvogur að Vesturlandsvegi. Eru þessi hverfi sambærileg við Urriðaholt hvað greiðar samgöngur varðar?

„Ekki að öllu leyti. Það getur nefnilega tekið drjúgan tíma að komast úr þeim út á Vesturlandsveginn. Hringtorg, umferðarljós, hraðahindranir og löng aðkoma hefur þar mikið að segja. Úr Urriðaholti er hins vegar mjög fljótlegt að komast út á Reykjanesbrautina. Mínar mælingar sýndu að það tók eina til eina og hálfa mínútu að jafnaði að fara úr miðju hverfisins út á Reykjanesbraut.“

Íbúum fjölgar jafnt og þétt í Garðabæ og Hafnarfirði og umferð vegna ferðamanna er mikil. Er ekki hætta á að þessar greiðu samgöngur um Reykjanesbrautina endi með umferðarteppu þegar vegurinn annar traffíkinni ekki lengur?

„Langt því frá. Reykjanesbrautin getur annað um 60 þúsund bílum á sólarhring en umferðin er varla komin í 30 þúsund bíla, þannig að það er mikið svigrúm ennþá. En svo er ekkert sem segir að bílum muni fjölga, heldur þvert á móti. Það er gríðarleg þróun varðandi sjálfkeyrandi bíla og algjörlega nýja hugsun um afnot af bílum. Allt stefnir í að fólk hætti að eiga bíla og panti bara sjálfkeyrandi bíl þegar það þarf að komast á milli staða. Sjálfkeyrandi bílar eiga eftir að hafa mikil áhrif. Unga fólkið í dag vill ekkert endilega eiga bíl, heldur hafa afnot af farartæki þegar á þarf að halda. Sjálfkeyrandi bílar munu geta náð miklu meiri afköstum en bílar með fólk undir stýri og öryggið mun aukast verulega. Um 96% af öllum umferðaróhöppum má rekja til mannlegra mistaka. Strætó og leigubílar munu heyra sögunni til og nýting bílaflotans verður margfalt betri en nú er.“

Hvernig kemur Reykjanesbrautin á þessum kafla út í samanburði við það sem þú þekkir til erlendis?

„Hún er eins og gerist best erlendis og Vegagerðin á svo sannarlega skilið fjöður í hattinn fyrir þetta vel heppnaða umferðarmannvirki. Ég fer oft um þennan vegarkafla og hef aldrei séð umferðartafir nema þegar verður skyndilega hált.

En talandi um Reykjanesbrautina, við skulum heldur ekki gleyma því að hún liggur alla leið til Keflavíkurflugvallar. Það segir sitt hvað Urriðaholt er vel í sveit sett að það tekur ekki nema hálftíma að aka þarna á milli.“