Náttúran gleður augað

Urriðaholt nýtur þess að náttúran umlykur hverfið á þrenna vegu. Vífilsstaðahraun að norðanverðu, Heiðmörk til austurs og Hádegisholt og Urriðavatn í suður og suðvestur. Hvert sem litið er úr Urriðaholtinu blasir því við sjón sem gleður augað; úfið hraun, mosaþembur, birkikjarr og fuglalíf við vatnið.

En náttúran er ekki bara til að horfa á hana. Ótal tækifæri eru til að njóta hennar í næsta nágrenni við Urriðaholt. Göngustígar hlykkjast allt um kring, jafnt í hrauninu sem Heiðmörkinni og meðfram vatninu. Góðar göngutengingar eru úr hverfinu til allra átta.

DSC2223

Heiðmörk

Heiðmörk er stærsta útivistarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu, skógi vaxin og skjólgóð með afar gott stígakerfi, grillaðstöðu, frábæru útsýni, hjólaleiðum, reiðleiðum, sögulegum stöðum osfrv. Úr Urriðaholti er aðeins 10-15 mínútna ganga yfir í eitt skemmtilegasta svæði Heiðmerkur, Vífilsstaðahlíðina.

Urridaholt

Golfvöllurinn og Hádegisholtið

Hinum megin við Heiðmerkurveginn er að finna einhverja fallegustu golfvelli landsins, Urriðavöll og Ljúfling, í eigu golfklúbbsins Odds. Vellirnir nýta sérkenni landslagsins og laga sig að hraunjaðrinum. Ofan af efstu brautum Urriðavallar er fallegt og mikið útsýni til allra átta. Hádegisholt liggur upp af golfvöllunum, en þar hefur mikil skógrækt verið stunduð áratugum saman. Ofan af Hádegisholtinu er mikið og gott útsýni yfir byggðinga í Urriðaholti og náttúruna allt um kring.

DSC2266

Urriðavatn

Urriðavatn og votlendið umhverfis það er falleg landslagsheild með margslunginn gróður og dýralíf. Hrauntanginn sem gengur út í vatnið gefur umhverfinu afar fallegan og sterkan svip og er skjól fyrir fjölbreytt fuglalíf. Í og við vatnið má meðal annars finna talsvert af urriða, smádýrum og háplöntum.

Mikil áhersla er lögð á viðhald og vernd Urriðavatns og votlendisins í kringum það með sjálfbærum vatnsbúskap (blágrænum ofanvatnslausnum), sem er nýjung í skipulagi byggðar á Íslandi. Þessi lausn felst í því að regnvatn er leitt stystu leið niður í jarðveginn af yfirborði gatna, bílastæða og þaka. Meðfram götunum liggja grasi grónar, vatnrásir sem taka við regnvatninu. Þaðan rennur vatnið niður í jarðveginn og seitlar smám saman út í Urriðavatn. Náttúrulegu rennsli í Urriðavatn er þannig viðhaldið í hringrás, í stað þess að leiða það út í sjó gegnum niðurfallslagnir.