5 víra dreifikerfi rafmagns í Urriðaholti
Fimmti vírinn tryggir gott jarðsamband í rafdreifikerfinu
Gott jarðsamband í rafdreifikerfi Urrðaholts er einn af þeim fjölmörgu þáttum sem stuðla að gæðum hverfisins. Þetta góða jarðsamband fæst með 5 víra dreifikerfi rafmagns, en þá er sérstakur jarðvír – fimmti vírinn í kerfinu – tengdur úr hverju húsi við sérstök jarðskaut sem boruð hafa verið víða í Urriðaholti.
Tilgangurinn með bættu jarðsambandi er m.a. að koma yfirtíðni, sem ótal straumbreytar og ljósdeyfar valda, með greiðum hætti út úr húsunum og „niður í jörðina“ og koma um leið í veg fyrir svokallaða „flökkustrauma.“ Straumbreytar eru í langflestum heimilistækjum, þar á meðal sjónvarpstækjum, útvarpstækjum, halogenljósum, vekjaraklukkum og síma- og tölvuhleðslutækjum.
Fyrirtækið Orkulausnir, sem sérhæfir sig í að bæta jarðsamband í húsum, hannaði jarðvírakerfið í Urriðaholti í samstarfi við HS veitur. Í kerfinu felst að sérstakur jarðvír – fimmti vírinn – er lagður til viðbótar hefðbundinni jarðtengingu rafveitunnar.
Heimtaugar rafmagns í húsin í Urriðaholti hafa því 5 leiðara í stað fjögurra eins og venja er. Það gerir mögulegt að aðskilja betur „núllstrauminn“ og spennujöfnun, sem eru alla jafna í sama leiðaranum (vírnum) í hefðbundnum fjögurra víra kerfum. Fimmti vírinn sem bætist við í Urriðaholti gegnir því eingöngu hlutverki spennujöfnunar. Rök hafa verið færð fyrir því að sérstök jarðtenging með þessum hætti hjálpi við að leiða rafstraum og yfirtíðni til jarðar. Með því sé hægt að draga úr ýmsum neikvæðum áhrifum á menn og dýr sem geta skapast innanhúss (yfirtíðni og „flökkustrauma“). Einu orði er þessu lýst sem rafmengun.
Samkvæmt reglugerð ber húseigendum og hönnuðum að sjá til þess að gott jarðsamband sé í húsum. Verktakar, húsbyggjendur og hönnuðir huga almennt ekki nógu vel að þessu atriði og virðist takmarkað eftirlit vera með því að þetta sé í lagi. Til að tryggja heildstæða lausn í þessum efnum lagði Urriðaholt ehf., í samstarfi við HS veitur, í umtalsverðar framkvæmdir með tilheyrandi kostnaði. Allt að 100 metra djúp jarðskaut voru boruð víða í Urriðaholti og frá þeim lagðir strengir í spennistöðvar og tengikassa rafmagns. Öll hús í Urriðaholti tengjast þessu 5 víra kerfi.
HS veitur og Orkulausnir hafa unnið saman við að koma þessu viðbótar jarðvírakerfi fyrir í Urriðaholti. Fyrstu mælingar gefa vísbendingu um ágæti kerfisins. HS veitur munu áfram vinna að því að bæta jarðvírakerfið almennt og verða mælingar í Urriðaholtinu hjálplegar við það.
Spurt og svarað
Eru hús ekki yfirleitt jarðtengd í gegnum hitaveitu- og vatnsveitulagnir?
Járnrör vatnsveitu og hitaveitu hafa löngum verið notuð til að tryggja tengingu húsa í jarðsamband. Þá er jarðvír rafmagnstöflu viðkomandi húss tengdur við inntaksrör. Sú breyting hefur hins vegar orðið síðustu ár að þessi rör eru ekki endilega úr járni heldur oftar úr plasti (PE, PEX), en plast leiðir ekki rafmagn. Þetta á bæði við um ný og gömul hús, vegna reglulegrar endurnýjunar veitukerfis.
Getur fólk fundið fyrir neikvæðum áhrifum vegna ófullnægjandi jarðtenginga?
Þau geta t.d. komið fram sem þreyta eða vanlíðan, stundum tengt veru á ákveðnum svæðum innanhúss. Vísbendingar geta til dæmis verið ef óeðlilega mikið af ló og ryki safnast fyrir á ákveðnum stöðum, sprungur myndast í veggjum, móða á milli glerja, málning flagnar, ljósaperur duga illa og tæki bila óeðlilega mikið. Fólk getur fundið fyrir þreytu og sleni eða hreinlega orðið veikt við slíkar aðstæður og dýr eru sérstaklega næm fyrir þessum áhrifum.
Er hægt að mæla yfirtíðni?
Til eru margvíslegar mæliaðferðir og mælitæki sem fagmenn (rafvirkjar, rafverktakar, rafmagnstæknifræðingar, verkfræðistofur o.fl.) nota til að finna hvort önnur tíðni er í húsrafmagninu en 50 rið. Mælanleg viðmiðunargildi eru oftast kölluð
yfirtíðni (harmonics) og skammstafað á ensku THD (Total Harmonic Distortion). Slíkar mælingar geta oftar en ekki leitt í ljós hvort ástæða sé til aðgerða.
Hvað getur fólk gert sjálft til að draga úr áhrifum rafmengunar (yfirtíðni og flökkustrauma)?
Fyrir utan það að fá fagaðila til að ganga úr skugga um að jarðtenging sé í góðu lagi, þá má gæta að því að hafa rafbúnað ekki að óþörfu í sambandi eða í gangi. Slökkva á tækjum (ekki með fjarstýringu heldur með rofa) eða taka þau úr sambandi þegar þau eru ekki í notkun.
Er rafmengun einungis nútíma fyrirbæri?
Breytt notkun, ný tækni og aukin notkun hefur valdið aukið yfirtíðni og flökkustrauma verulega. Það þekktist varla áður, þegar raforkunotkun var eingöngu í viðnámshiturum og glóperum.
Á sama tíma hefur notkun stállagna fyrir dreifikerfi vatnsveitna lagst af, inntök hitaveitu stundum líka og lagnakerfi húsa ekki lengur með samfelld leiðandi efni út í stál-stofnlangir hita- og vatnsveitu. Við þetta hefur jarðsamband og „jarðskaut“ tengt raforkukerfum snarminnkað.