17.11.2015

Urriðaholt vekur áhuga útfyrir landsteinana

Skipulagið í Urriðaholti hefur í gegnum tíðina vakið töluverða athygli, m.a. erlendis frá. Ekki síst vekja áhuga áherslur á lífsgæði, öruggt umhverfi, blandaða byggð og náttúrulegt viðhald Urriðavatns.

Sveitarstjórnarfólk frá Noregi og Póllandi hefur til að mynda komið gagngert til Íslands til að fræðast um Urriðaholt. Nýlega kom hópur frá frá Jaworzno, 100 þúsund íbúa bæ í Póllandi, til að leita góðra fordæma við uppbyggingu bæjarins. Í Urriðaholti vildi hópurinn fræðast um hvernig farið hefur verið að því að skipuleggja nútíma byggð eins og þessa, með heilbrigði og vellíðan íbúa í huga og virðingu við náttúruna í kring.

Um 50 starfsmenn frá Kristiansand Kommune í Noregi, sem starfa þar að skipulags- og veitumálum komu í heimsókn í Urriðaholtið til að fræðast um skipulagsvinnuna, ekki síst hvernig blágrænu ofanvatnslausnirnar virka í raun.

Í gegnum tíðina hafa erlendir háskólar, sérfræðingar og tæknimenn sveitarfélaga sótt Urriðaholtið heim til að heyra betur af skipulagsvinnunni og sjá hvernig hverfið byggist upp á þeim grunni. Hópur stúdenta frá Quebec háskóla í Montréal, sem kom gagngert til Íslands til að kynna sér umhverfismál, fékk kynningu um Urriðaholtið og umhverfisvænar áherslur í skipulagi þess.

Tækniháskólinn í Þrándheimi NTNU, heldur árlega endurmenntunarnámskeið fyrir norska tæknimenn hjá sveitarfélögum, mastersnema og ráðgjafa í ofanvatns- og fráveitumálum. Síðustu árin hefur Halldóra Hreggviðsdóttir, hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sem hélt utanum rammaskipulagsvinnuna, verið fengin til að halda þar fyrirlestur um skipulag og innleiðingu blágrænu ofanvatnslausnanna í Urriðaholti og reynsluna af þeim.

Ekki má svo gleyma því að skipulagið í Urriðholti hefur fengið tvenn virt alþjóðleg verðlaun, annars vegar frá International Awards for Livable Communities (LivCom) og hins vegar frá Boston Society of Architects.

Hópur frá Póllandi 3
Hópurinn frá frá Jaworzno, 100 þúsund íbúa bæ í Póllandi, sem heimsótti Urriðaholt til að leita góðra fordæma við uppbyggingu bæjarins.