10.04.2018

Urriðaholt og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Skipulag Urriðaholts hefur verið valið sem fordæmi um hvernig innleiða má heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbær samfélög. Er það í samræmi við áherslur alþjóðasamtakana um að sýna góð dæmi sem geta vísað veginn um hvernig vinna má að sjálfbærari þróun í heiminum. Dæmum sem þykja hæf til leiðsagnar er síðan safnað á heimasíðu „One planet“ www.oneplanetnetwork.org. Í þessum alþjóðlega upplýsingagrunni er nú að finna ítarlega lýsingu á hugmyndafræði skipulagsins í Urriðaholti og hvernig unnið hefur verið að því að ná þeim. Sjá hér.

Önnur íslensk verkefni sem er að finna á þessum vettvangi er Biophilia sem er tónlistarkennsluverkefni Bjarkar Guðmundsdóttur, flokkunarátak sorphirðu í Reykjavík, Norðursigling á Húsavík og Auðlindatorgið sem er á vegum Umhverfisstofnunar.

Árið 2015 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sjálfbær þróunarmarkmið til ársins 2030 og eru upplýsingarnar um einstök verkefni á vefsvæði One planet þáttur í því að greiða leiða þeirra markmiða.

Markmiðin sem eru sautján að tölu ber ríkjum heims að ná fyrir árið 2030. Ellefta markmiðið um sjálfbæra þróun er að gera íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær.

Í skráningunni fyrir Urriðaholt er farið ítarlega í forsögu skipulagsins, aðstæðum lýst og aðgerðum til að stuðla að sjálfbærni hverfisins.

Urriðaholtið byggir á afar góðum skipulagsgrunni, sem nú þegar hefur fengið nokkrar alþjóðlegar viðurkenningar. Hverfið er vottað samkvæmt Breeam Communities staðlinum, sem staðfestir að Urriðaholtið er í fararbroddi á þessu sviði og gefur afar góðar leiðbeiningar um að hverju á að huga við skipulag vistvænnar byggðar. Jafnframt hefur Urriðaholt staðið að Svansvottun einstakra bygginga í hverfinu og verið í fararbroddi við innleiðingu sjálfbærra ofanvatnslausna á Íslandi.

IMG 3837

Tengt efni