TRÍPÓLÍ og KRADS vinna hugmyndasamkeppni um Vinastræti 20–24

Sjónarhorn úr vinningstillögu Trípóli og Krads að Vinastræti 20-24. Hægra megin á teikningunni sést í Vinastræti 16.

Mikilvægt er að klára uppbyggingu á háholti Urriðaholts, sérstaklega nú þegar framkvæmdir við Oddfellowhúsið og lokaáfanga skólans standa yfir.  Sama gildir fyrir allt umhverfið, göngustíga, opin svæði og torgið. Til að vinna að uppbyggingu á lóðinni Vinastræti 20-24 var í kjölfarið á umræðu með skipulagsnefnd Garðabæjar og á íbúafundi í nóvember 2024 ákveðið að efna til lokaðrar hugmyndasamkeppni um mögulega þróun á lóðinni sem gekk út á að blanda saman atvinnustarfsemi á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Þetta var rætt áfram á fundi skipulagsnefndar í febrúar og á íbúafundi í apríl, samhliða kynningu á skipulagstillögum fyrir Urriðaholtsstræti 1-7. Gögn voru send út vegna hugmyndasamkeppninnar í mars 2025 og niðurstöður liggja nú fyrir.

Urriðaholt ehf. stóð að samkeppninni og var hún aðeins opin þeim þremur teymum sem áður tóku þátt í lokaferli samkeppni um Kennileitishúsið við Vörðugötu 2. Leitast átti við að skapa táknræna og aðlaðandi byggingu sem félli vel að torginu og umhverfinu, með áherslu á hagkvæmni og búsetugæði, íbúðarhúsnæði á efri hæðum og atvinnustarfsemi á jarðhæð.

Tillagan sem skaraði fram úr

Allar innsendar tillögur uppfylltu skilyrði samkeppninnar, en dómnefnd taldi tillögu TRÍPÓLÍ og KRADS skara fram úr hvað varðar gæði og útfærslu. Tillagan fellur vel að umhverfi sínu, býður upp á fjölbreyttar og vel hannaðar íbúðir sem allar snúa í a.m.k. tvær áttir og er almennt vel hönnuð bygging. Hugað er að birtu, vind og skuggavarpi og endurhönnun yfir í íbúðarhúsnæði er vel útfærð. Á jarðhæð er á haganlegan hátt gert ráð fyrir atvinnustarfsemi. Núverandi deiliskipulag gerir ráð fyrir einni langri og breiðri byggingu sem rís hæst 21 m en í tillögunni er húsið lækkað í 16,5 m þar sem það rís hæst en fer hæst í 10,5-13,5 næst götu. Tillögur og niðurstöður voru kynntar á fundi skipulagsnefndar 19. júní 2025.

Tillaga TRÍPÓLÍ og KRADS sýnir gróðurhús á torginu við Vinastræti 20-24 en í stað þess eru nú áform um að efna til hugmyndasamkeppni meðal  4-5 listamanna um verk/mannvirki á miðju torgsins sem verði táknrænt kennileiti fyrir torgið og Urriðaholt, veki forvitni og áhuga fólks á öllum aldri og verði eftirsóknarverður staður fyrir íbúa.

Tillögurnar þrjár sem bárust í hugmyndasamkeppnina (PDF skjöl)

Útiog Inni A3 Háholt Kynning 070425

TRIPOLI KRADS VINATORG TILLAGA

TARK Háholt hugmyndasamkeppni Apríl 2025

Nokkur sjónarhorn úr vinningstillögunni.
Núgildandi deiliskipulag vinstra megin, ný tillaga hægra megin.