12.01.2018

Styttist í að Urriðaholtsskóli taki til starfa

Orgerður Anna 0661
Skólastjórinn fyrir framan Urriðaholtsskóla í byrjun janúar, verið að vinna utan- og innanhúss í leikskólaálmunni sem áformað er að taki til starfa í mars.

Þorgerður Anna Arnardóttir, nýráðin skólastjóri Urriðaholtsskóla, segir að stefnt sé að því að hefja leikskólastarfið í mars næstkomandi. Næsta haust er svo ráðgert skólastarf 1. til 4. bekkja. Skólastarf fyrir eldri bekki mun svo vaxa í framhaldinu.

„Skólastarfið verður fyrst um sinn í leikskólaálmunni, sem er 1.000 fermetrar og núna er verið að ganga frá öllu innanhúss í þeirri álmu. Við gerum ráð fyrir að alls verði 80-100 börn í skólanum næsta haust og við verðum því í litlu samfélagi til að byrja með. Útisvæði fyrir bæði leik- og grunnskólabörn er þegar tilbúið, en við sjáum svo til þegar nær dregur hvenær nákvæmlega verður hægt að fara að taka á móti börnunum í leikskólann,“ segir Þorgerður Anna.

Íbúafundur 17. janúar

Hægt verður að ræða um skólastarfið og önnur málefni Urriðaholts á íbúafundi sem verður 17. janúar næstkomandi kl. 17.30 í sal Toyota í Kauptúni. Bæjarstjóri ásamt sviðsstjórum frá Garðabæ verða þar til að veita upplýsingar og svara spurningum og mun Þorgerður Anna einnig sitja þennan fund.

Skólabókin stjórnar ekki lengur

Um starfshætti Urriðaholtsskóla segir hún að samkennsla verði ríkjandi. „Við verðum ekki með hefðbundna bekki. Kennsluhættir eru að breytast sem betur fer, skólabókin er hætt að vera þetta stýrandi afl. Markmið aðalnámskrár mun ráða för og staða hvers barns. Það þurfa ekki allir að vera á sama stað á sama tíma í náminu og þannig verður það allan skólann upp í 10. bekk.“

Uppbyggingarstefna

Þorgerður Anna er Garðbæingur og hóf kennaraferil sinn í Hofsstaðaskóla og tók síðan við stjórn skóla Hjallastefnunnar við Vífilsstaði. Undanfarið hefur hún verið aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness. „Þar er starfað eftir uppbyggingarstefnunni uppeldi til ábyrgðar, það er margt líkt með henni og Hjallastefnunni og ég mun nýta mér þessa reynslu í Urriðaholtsskóla. Þessar stefnur snúast meðal annars um að efla sjálfstrú barnanna, gera þau ábyrg fyrir eigin hegðun, kenna þeim virðingu, samlíðan, efla áræðni þeirra og færni í að takast á við hið óþekkta og fjölbreyttar áskoranir.“

Metnaðarfullt skólasamfélag

Þorgerður Anna segir engan vafa leika á því að Garðabær sé, að öðrum ólöstuðum, það sveitarfélag sem stendur best að skólamálum. „Ég þekki þetta jafnt sem foreldri barna í grunnskólum Garðabæjar og kennari og skólastjórnandi. Það er engin vafi að ákvörðun bæjarins um frjálst val um skóla ýtti við fólki og hefur skilað sér í virkilega góðu fagstarfi. Foreldrar velja þann skóla sem þeir telja henta sínum börnum og fyrir vikið er skólasamfélagið á tánum og meðvitað um fyrir hvað það stendur. Skólarnir í bænum eru ólíkir og fara ólíkar leiðir en á hverjum stað er öflugur hópur fagfólks sem skilar frábærum árangri. Garðabær er mér vitanlega líka eina bæjarfélagið sem raunverulega stendur við þá stefnu að skólinn taki við þegar fæðingarorlofi sleppir því að hér eru börn eru tekin inn í leikskóla eins árs.“

Íþróttir og útikennsla

Íþróttaaðstaða er enn ekki fyrir hendi við Urriðaholtsskóla, „en við leysum það með öðrum hætti til að byrja með,“ segir Þorgerður Anna. „Aftur á móti er gert ráð fyrir möguleikum til útikennslu, bæði niðri við vatnið og meira að segja uppi á þaki skólans þegar byggingu hans verður lokið,“ segir hún. „Það eru forréttindi að vera með skólastarf í svona mikilli nálægð við náttúruna. Á Vífilsstöðum vorum við með útikennslu og það var algjör draumur. Ég sé einnig fyrir mér gott samstarf við Náttúrufræðistofnun Íslands hér í hverfinu.“


Orgerður Anna 0660
Þorgerður Anna Arnardóttir, nýráðin skólastjóri Urriðaholtsskóla, er Garðbæingur og hefur sinnt kennslu og skólastjórnun í grunnskólum og hjá Hjallastefnunni.

Uppbygging og starfsfólk

Að sögn Þorgerðar Önnu hefst innritun í grunnskólann í mars. „Urriðaholtið er í mikilli uppbyggingu og það má búast við að börn bætist í hópinn í hverjum mánuði. En svo eigum við líka eftir sjá hvernig verður með börn sem búa í hverfinu og eru byrjuð í öðrum grunnskólum Garðabæjar, hvort þau og foreldrar þeirra vilja sækja strax um að komast í Urriðaholtsskóla eða bíða kannski og sjá til. Í skólanum verður fullbúið móttökueldhús og er Garðabær með samning við Skólamat sem býður upp fjölbreyttan og hollan mat, mikið af fersku grænmeti og í ávallt eru tveir réttir í boði í hádeginu.

En líkt og með alla aðra grunnskóla í Garðabæ, þá geta þeir sem ekki búa í Urriðaholti valið þennan skóla. Börnin í hverfinu hafa hins vegar forgang ef skólar fyllast. Ég geri ráð fyrir að við getum tekið við öllum sem sækja um leikskólavist.“

Að sögn Þorgerðar Önnu er verið að ráða starfsfólk um þessar mundir. Búið er að ráða Unu Guðrúnu Einarsdóttur sem aðstoðarskólastjóra yngri barna upp að miðstigi. Þá hafa borist yfir 20 umsóknir um störf við leikskólann og er þar jafnt um að ræða háskólamenntað fólk og ófaglært. Þar á meðal eru nokkrir sem búa í Urriðaholti.