18.12.2020

Samkeppni um nýjan leikskóla í Urriðaholti

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti í haust að efna til samkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um hönnun nýs leikskóla í Urriðaholti. Dómnefnd hefur tekið til starfa og er að semja samkeppnislýsingu. Ljóst er að hefja þarf uppbyggingu nýs leikskóla í hverfinu í takt við íbúafjölgun, enda er íbúabyggð í örum vexti. Hátt í 2.500 manns búa nú í hverfinu og gert ráð fyrir að allt að 4.500 íbúum þegar það verður fullbyggt.

Í Urriðaholtsskóla er samrekinn leik- og grunnskóli, með hátt í 160 börn á leikskólaaldri. Markmið Garðabæjar er að bjóða börnum dvöl í leikskóla þegar þau ná 12 mánaða aldri og er sveitarfélagið stöðugt að færast nær því markmiði. Öll börn fædd 2019 fengu boð um dvöl í leikskóla í haust og líklegt er að hægt verði að innrita einhver börn úr 2020 árganginum eftir áramót.

Leikskóli við Holtsveg 20

Nýi leikskólinn verður við Holtsveg 20 neðan götu sem opnast út að grænu svæði sem liggur frá efri hluta holtsins niður í átt að Kauptúni. Áætlað er að leikskólinn verði 6 deilda leikskóli fyrir allt að 120 börn frá eins árs aldri.

Hönnunarsamkeppnin

Í samkeppnislýsingu fyrir hönnun leikskólans er m.a. farið yfir tæknileg atriði og lýsingar en einnig helstu áhersluatriði dómnefndar við mat á úrlausnum keppenda. Það geta verið atriði eins og heildarlausn og hugmyndafræði, byggingarlist í húsnæði og hönnun útisvæðis og umhverfis, sjálfbærni og kostnaðaraðgáts, hvernig skólinn og umhverfið sé hannað og uppfylli sem best væntingar til leiks, náms, velferðar og aukins þroska barna.

Áhugasamir sem vilja koma hugmyndum á framfæri við dómnefndina á meðan gerð samkeppnislýsingar stendur yfir í desember geta haft samband við formann dómnefndarinnar, Áslaugu Huldu Jónsdóttur, í netfangi aslaug.hulda.jonsdottir@gardabaer.is

Í dómnefndinni sitja fyrir hönd Garðabæjar Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar sem er jafnframt formaður dómnefndarinnar, Hrefna Gunnarsdóttir, deildarstjóri í Urriðaholtsskóla og Kristjana Fjóla Sigursteinsdóttir, formaður leikskólanefndar Garðabæjar. Freyr Frostason arkitekt og Sigurður Einarsson arkitekt sitja í dómnefndinni fyrir hönd Arkitektafélag Íslands. Ritari dómnefndarinnar er Arinbjörn Vilhjálmsson, skipulagsstjóri Garðabæjar, og trúnaðarmaður er Helga Guðjónsdóttir hjá Arkitektafélagi Íslands.

Stefnt er að því að auglýsa samkeppnina í byrjun næsta árs og að niðurstöður liggi fyrir fljótlega eftir páska.

IMG 3564 Urriðaholtsskóli
Þrjár vinkonur í Urriðaholtsskóla.
Leikskólalóð Holtsvegi 20
Nýi leikskólinn verður við Holtsveg 20.