19.02.2014

Samið um hönnun Urriðaholtsskóla

Búið er að semja um hönnun á Urriðholtsskóla og var ráðgjafarsamingur um þess efnis undirritaður þann 14. febrúar. Eftirtaldir aðilar mynda hönnunarhópinn: Landform, VEB - teiknistofa, Lagnatækni, Verkhönnun, VSÍ, öryggishönnun og ráðgjöf og Önn ehf.

Samkvæmt áætlun hönnunarhópsins skal fullnaðarhönnun fyrsta áfanga lokið 1. desember á þessu ári og útboð jarðvinnu skal fara fram 1. október næstkomandi.

Í útboðsgögnum kemur fram að miðað er við að byggingin fullbyggð rúmi sex deilda leikskóla með um 120 heilsdagspláss og grunnskóla fyrir allt að 700 börn á grunnskólaaldri. Áformað er að reisa skólabygginguna í áföngum þannig að í fyrsta áfanga verði um 100 heilsdagspláss fyrir börn á leikskólaaldri og rými fyrir um 250 börn á grunnskólaaldri (1.-10. bekk).

Lagt er til að verkefnisstjórn sem vann að gerð útboðslýsingar starfi áfram og stýri verkefninu. Í henni eru: Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur, Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs og Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Urriðaholts.

Einnig er lagt að bæjarráð skipi byggingarnefnd vegna framkvæmda við byggingu skólans.

Undirritun Hönnun Urriðaholtsskóla
Frá vinstri: Jón Pálmi Guðmundsson, Margrét Björk Svavarsdóttir, Erlendur Birgisson, Friðrik Júlíusson, Gunnar Einarsson, Baldur Svavarsson og Bjarnþór Sigurður Harðarson og Gunnar Kristjánsson.