10.07.2020

Nýtt kort af gönguleiðum í nágrenni Urriðaholts

Ítarlegt kort með göngu- og reiðleiðum í nágrenni Urriðaholts er komið út. Ennfremur er á kortinu að finna helstu örnefni á svæðinu.

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa gefur kortið út, en Urriðaholt og stór hluti af landi í kringum Urriðaholt hefur verið í eigu sjóðsins frá 1957.

Mikið úrval er af gönguleiðum til austurs og suðurs frá Urriðaholti, en samfellt kort af þeim hefur ekki verið til fyrr en nú. Prentuðu kortinu var dreift til allra íbúa í Urriðaholti fyrri hluta júlí og stóð Urriðaholt ehf að prentun og dreifingu þess. Prentútgáfan er fáanleg án endurgjalds í afgreiðslu Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6-8, svo og í þjónustuveri Garðabæjar og bókasafninu á Garðatorgi. Ennfremur liggur kortið frammi í golfskála Odds á Urriðavelli.

Kortið í símann

Fyrir þá sem kjósa frekar að hafa kortið í símanum býðst afar snjöll lausn í gegnum Avenza appið, sem er fáanlegt bæði fyrir Android og iPhone. Avenza er ókeypis app og í gegnum það er hægt að ná í útivistarkortið rafrænt – að sjálfsögðu án endurgjalds. Best er að finna kortið í kortaverslun Avenza með því að leita eftir heiti kortsins „Örnefni og útivist í upplandi Garðabæjar.“ Með kortinu í símanum sér notandinn hvar hann er staddur hverju sinni (blár depill sýnir stöðuna).

Hægt er að nálgast rafræna útgáfu gönguleiðakortsins með því að smella á hlekkinn neðst í fréttinni eða senda póst á jpg@urridaholt.is og óska eftir að fá það sent.

Kort með bláum hring
Með því að ná í kortið (án endurgjalds) í snjallsíma í gegnum Avenza appið er hægt að sjá hvar viðkomandi er staddur/stödd hverju sinni og er það sýnt með bláum depli.

Tengt efni