Ný viðbót við fjölbreytta íbúðavalkosti í Urriðaholti

Nýjasti íbúðavalkosturinn í Urriðaholti er að verða fullbúinn, fjölbýli fyrir 50 ára og eldri í norðurhlíð Urriðaholtsstrætis, hús númer 9, 11, 13 og 15. Þetta er í fyrsta skipti sem ákvæði um lágmarksaldur fylgir íbúðum í Urriðaholti.

Tilkoma 50+ húsanna styður við vistvottun hverfisins, en vottunin byggir meðal annars á því að íbúðavalkostir séu fjölbreyttir. Í þeim efnum er af nógu að taka. Fyrir utan hefðbundin einbýlishús, raðhús, parhús og fjölbýli í fjölskyldueigu má nefna almennar leiguíbúðir, smáíbúðir, íbúðir fyrir Bjarg leigufélag og íbúðir fyrir Búseta. Auk þess má nefna að áhersla hefur verið lög á byggingu hagkvæmra íbúða í fjölbýli á völdum stöðum, t.d. án bílakjallara. Breiddin í íbúðavalkostum er því afar mikil og gerir íbúum kleift að færa sig til innan hverfisins eftir efnum og ástæðum hverju sinni.

Allar íbúðir í nýju húsunum í norðurhlíð Urriðaholtsstrætis hafa tvö bílastæði og stærri íbúðir þrjú. Húsin fjögur hafa sameiginlegan bílakjallara. Þar er einnig sérstök aðstaða til að þvo bíla með tilheyrandi hreinsibúnaði. Tengibyggingar liggja á milli húsanna og er hægt að ganga á milli allra þeirra inn í  300 fermetra rými sem ætlað er fyrir samveru og afþreyingu. Þar er salur til að njóta veitinga og ræða málin, fullkomnir golfhermar, píluspjöld, snókerherbergi, heilsurækt og fundarsalur. 

Urriðaholt ehf og ÞG verktakar buðu nýlega fulltrúum Garðabæjar til að kynnast þessum nýjasta íbúðavalkosti í bænum. Litið var inn í sameiginlega rýmið og nokkrar íbúðir skoðaðar. Flutt er inn í fyrstu þrjú húsin og fjórða húsið er á lokastigi.  

Frá kynningu á uppbyggingu 50+ húsanna. Frá vinstri, fulltrúar Urriðaholts ehf: Jón Pálmi Guðmundsson, Heiðar Friðjónsson og Guðmundur Eiríksson, fulltrúar Garðabæjar: Björg Fenger og Almar Guðmundsson, fulltrúar ÞG verktaka: Gunnar Valur Guðmundsson, Þorvaldur Gissurarson og Hrefna Þorvaldsdóttir.
Þorvaldur Gissurarson frá ÞG verktökum og Almar Guðmundssson bæjarstjóri skoða útsýnið af svölum íbúðar við Urriðaholtsstræti 13.
Alrýmið fyrir íbúa húsanna í norðurhlíð Urriðaholtsstræti er í tengibyggingu á jarðhæð.