3.05.2016

Málþing um vistvottun skipulags Urriðaholts

Málþing um vistvottun skipulags Urriðaholts í Garðabæ verður haldið þriðjudaginn 10. maí næstkomandi. Málþingið verður haldið í húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti og hefst kl. 15:30. Að málþinginu standa Garðabær, Urriðaholt ehf. og Vistbyggðarráð og er það öllum opið.

Fundarstjóri verður Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.

Á málþinginu mun Cary Buchanan, fulltrúi Breeam Communities í Bretlandi, afhenda staðfestingu þess að Urriðaholt uppfylli skilyrði um framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

Skipulag Urriðaholts er það fyrsta á Íslandi sem hlýtur þessa vistvottun. Breeam Communities er hluti af starfsemi Breeam umhverfisvottunarkerfisins, sem er eitt útbreiddasta vottunarkerfi heims fyrir visthæfi bygginga og byggðar.

Á málþinginu mun Cary Buchanan gera grein fyrir áherslum Breeam Communities og ávinningi vottunar fyrir íbúa hverfisins. Auk þess halda stutt erindi Ásdís Hlökk Theódórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar og Ólöf Kristjánsdóttir hjá Mannviti, sem er vottunaraðili Breeam Communities á Íslandi.

Í lok málþingsins kynna hjónin Finnur Sveinsson og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir byggingu umhverfisvottaðs einbýlishúss í Urriðaholti, sem mun verða það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Urridaholt DSC2718
Málþingið verður haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti.

Hvaða máli skiptir vistvottun fyrir íbúða Urriðaholts?

Með Breeam vottunarferlinu eru tryggð ákveðin gæði í umhverfis- og skipulagsmálum. Vistvottunin tryggir íbúum í Urriðaholti að skipulag hverfisins búi yfir ákveðnum gæðum sem sýna sig með margvíslegum hætti. Þar á meðal má nefna:

 • Gönguleiðir í skóla og leikskóla eru stuttar og öruggar.
 • Gatnaskipulag gerir ráð fyrir öllum ferðamátum, dregur úr umferðarhraða og gerir götur því öruggari fyrir alla vegfarendur.
 • Fjölbreytt útivistarsvæði fyrir fólk á öllum aldri.
 • Nálægð og góðar tengingar við Urriðavatn og fjölbreytt lífríki þess.
 • Gangandi og hjólandi vegfarendur eru í forgangi fyrir bílum.
 • Stutt í verslun og aðra þjónustu.
 • Gott aðgengi að strætó.
 • Nálægð húsa við gönguleiðir stuðlar að öryggi fyrir vegfarendur – allir eru á vaktinni.
 • Barnvæn leiksvæði.
 • 5-víra kerfi rafmagns í öllu hverfinu til að draga úr rafmengun.
 • Stutt í náttúru og gott aðgengi með góðu stígakerfi.
 • Rými sólrík og skjólsæl.
 • Fjölbreytt framboð húsnæðis, fyrir allt æviskeiðið.
 • Þægileg lýsing utandyra, minni ljósmengun.
 • Fjölbreyttar íbúðastærðir sem stuðla að blandaðri íbúasamsetningu.
 • Blágrænar ofanvatnslausnir til að tryggja gróðurvænt umhverfi og verndun Urriðavatns.
 • Vel hugað að hönnun opinna svæða og val á gróðri með tilliti til vistkerfis svæðisins.

Gæði hverfisins byggjast á þeirri grunnhugsunað vanda vel alla skipulagsvinnu með öflugri greiningarvinnu, víðtæku samráðsferli og ítarlegum gátlistum. Þannig er lagður grunnur að áhugaverðu samfélagi, skipulagi sem er endingargott, öruggt og aðlaðandi til búsetu og býður uppá góða aðstöðu til útivistar.