19.03.2008

LivCom á Íslandi

Allt það sem við gerum heimavið til að bæta umhverfið og lífsgæðin skila sér á heimsvísu. Þetta segir Alan Smith, framkvæmdastjóri alþjóðasamtakanna Livable Communities. Alan var hér á landi til að kynna áherslur samtakanna Livable communities – eða LivCom – fyrir íslensku sveitarstjórnarfólki. Hann hélt erindi í golfskálanum á Urriðavelli fyrir rúmlega 50 áhugasama starfsmenn sveitarfélaga og kjörna fulltrúa auk arkitekta og skipulagsfræðinga. LivCom verðlaunin eru veitt ár hvert. Þar koma saman fulltrúar sveitafélaga alls staðar að úr heiminum og kynna verkefni sín fyrir dómnefnd og öðrum þátttakendum. Mörg dæmi eru um að sveitarfélög hafi tekið upp samstarf sín á milli til að vinna á sameiginlegum vandamálum í kjölarið. Segja má að þetta sé eini samráðsvettvangur sveitarfélaga á hnattrænum vettvangi. Skipulag Urriðaholts í Garðabæ var fyrsta íslenska verkefnið sem tók þátt í Livcom og hlaut það silfurverðlaun í sínum flokki í desember síðastliðnum. LivCom leggur áherslu á að allar aðgerðir til að bæta líf og umhverfi í nærsamfélagi fólks hafi líka jákvæð áhrif fyrir heimsbyggðina. Fyrir vikið nýtur LivCom stuðnings UNEP, Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í erindi sínu sagði Alan Smith að með nánu samstarfi íbúa og sveitarfélaga mætti gera kraftaverk í umhverfismálum og auka þar með lífsgæðin heimavið. Hann sagði að lykilatriði væri að stuðla að sjálfbærni samfélagsins, þannig að auðlindir þess nýttust einnig næstu kynslóðum. Stuðla þyrfti að heilbrigðum lífsstíl, draga úr mengun, virða menningarsöguna og skapa fegurra umhverfi. Sem dæmi bendir Alan á að sveitarfélag sem örvar fólk til að ganga eða hjóla með þar til gerðum stígum, ásamt því að styðja við almenningssamgöngur, leggur þung og mikilvæg lóð á vogarskálar velferðar heimsins. Þessar aðgerðir draga úr notkun á takmörkuðum auðlindum og minnka mengun. Um leið verður samfélagið lífvænlegra, hlýlegra og minna stressandi.

YC6 U2916