4.02.2015

Hönnun Urriðaholtsskóla langt komin

Rætt við Baldur Ó. Svavarsson arkitekt, sem hefur yfirumsjón með hönnun skólans.

Hönnun grunnskóla og leikskóla í Urriðaholti miðar vel og samhliða hefur verið unnið að jarðvegsframkvæmdum. Grunnskólinn og leikskólinn verða sambyggðir og er gert ráð fyrir uppbyggingu í tveimur til þremur áföngum.

Arkitektastofan Úti og inni vann samkeppni um hönnun skólans, en stofan hefur mikla reynslu af sams konar verkefnum víða um land.

Grunnskólinn ásamt tilheyrandi aðstöðu mun standa á skilgreindri lóð ofarlega í hverfinu með góða útsýn til allra átta og góð tengsl við megin göngustíga hverfisins. Aðkoma akandi verður einnig greið.

Alls mun grunnskólinn rúma 640 nemendur og leikskólinn 120. Skólinn verður byggður í a.m.k. tveimur áföngum. Fullbyggð verður byggingin alls um 10-11 þúsund fermetrar með íþróttamannvirkjum og sundlaug. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir fullbyggðum leikskóla ásamt stjórnunaraðstöðu skólans, svo og um 6 heimasvæðum.

Meginstefið er alhliða nýting húsnæðisins

Baldur Ó. Svavarsson arkitekt, annar eigandi Úti og inni, segir að við hönnun skólans sé hugað að alhliða nýtingu hans fyrir skólastarf, tómstundir, íþróttaiðkun, námskeiðahald og félagslíf íbúa. Ennfremur er kappkostað að endurspegla áherslur Urriðaholts í skipulags- og umhverfismálum.

„Það verður hægt að nýta rými skólans með afar fjölbreyttum hætti frá morgni til kvölds. Skólinn er ekkert síður hugsaður sem alhliða félagsmiðstöð íbúanna en menntastofnun barnanna,“ segir Baldur.

„Hönnun skólans er nokkuð flókin þar sem hann verður byggður og nýttur í áföngum. Rými sem verður notað í einum tilgangi í fyrri áfanganum verður svo kannski virkjað í skilgreint rými í fullbyggðum skólanum. Við þurfum að gæta að því að öll starfsemi komist fyrir á öllum byggingarstigum þannig að þetta er nokkuð púsl.“

Heimasvæði fyrir hvern árgang

Hönnun skólans byggir á „opnu“ skipulagi fyrir hvern árgang. Þannig eru engar hefðbubndnar bekkjarstofur fyrir staka bekki eins og tíðkast hefur. Þetta fyrir komulag hefur rutt sér til rúms hérlendis á liðnum árum og eru nokkur dæmi um slíka skóla á höfuðborgarsvæðinu. Hönnun þessa skóla byggir á þessu fyrir komulagi, en þó er leitast við að hólfa svæðin betur niður. Er þar m.a. horft til Sjálandsskóla með það í huga. Hver árgangur hefur eitt svokallað heimsvæði sem skiptist í stórt sameiginlegt kennslusvæði og nokkur minni lokuð rýmið ásamt vinnuastöðu fyrir kennara árgangsins.

Tónlist, sérgreinar og félagsstarf

Auk almennra kennslurýma verða sérgreinastofur í skólanum, s.s. heimilisfræði, smíði, myndmennt og textíl. Þær mynda sameiginlega eitt svæði í byggingunni með aðstöu fyrir sérgreinakennara. Þá verða auk tónmenntastofu einnig litlar kennslustofur fyrir tónlistarkennslu, eins konar útibú frá tónlistarskóla bæjarins. Félagsmiðstöð fyrir unglinga hverfisins verður jafnframt í byggingunni. Lagt er upp úr aðgengi að þessum sérrýmum eftir lokun skóla á köldin til afnota fyrir íbúa hverfisins og annarra bæjarbúa vegna námskeiða, sem og tengsl við félagsmiðstöð.

Baldur segir að hönnun íþróttamannvirkja skólans standi nú yfir. „Það er gert ráð fyrir íþróttasal og sundlaug ásamt búningsherbergjum og þessi mannvirki eru ætluð jafnt fyrir skólastarf sem almenna notkun.“

Kennsla hefst á næsta ári

Áformað er að kennsla í Urriðaholtsskóla hefjist haustið 2016. Fram að því sækja börn sem búa í Urriðaholti einhvern hinna grunnskólanna í Garðabæ. En almennt þá hafa foreldrar í Garðabæ frjálst val um það hvern af skólum bæjarins þau velja að láta börn sín í.

Við hönnun skólans njóta arkitektarnir leiðsagnar rýnihóps þriggja skólastjórnenda í Garðabæ, ásamt starfsmönnum skólaskrifstofu bæjarins.

„Þessi ráðgjöf er afar mikilvæg í öllu ferlinu, því þarna fáum við leiðbeiningar og rýni frá þaulreyndum skólastjórnendum við að skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir skólastarfið,“ segir Baldur að lokum.

1331 Aðalaðkoma
Aðalaðkoma að skólanum.
1331 Norðurhliðin
Norðurhliðin.
1331 Suðurhliðin
Suðurhlið skólans.
Vetrarstemmning.