24.07.2016

Fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi byggt í Urriðaholti

Fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið hér á landi verður reist í Urriðaholti. Um er að ræða 216 fermetra einbýlishús að Brekkugötu 2 sem hjónin Finnur Sveinsson og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir hafa ákveðið að byggja með umhverfisáherslur að leiðarljósi. Miðað er við að húsið verði vottað með norræna umhverfismerkinu Svaninum.

Finnur segir að þó svo húsið verði umhverfisvottað, muni það í öllum meginatriðum vera eins og íbúðarhús eru almennt með nútíma þægindum. Ekki er lagt upp með flóknar sérlausnir til að ná fram markmiðum vottunarinnar, heldur skal byggt á þekktum lausnum í byggingariðnaði hér á landi og á Norðurlöndunum.

Í húsinu er meðal annars leitast við að halda orkunotkun í lágmarki og nota byggingarefni sem hefur ekki verið meðhöndlað með efnum sem eru flokkuð sem krabbameinsvaldandi, valda stökkbreytingum eða hafa áhrif á frjósemi. Að lágmarki 70% hluti timburs sem notað er í húsinu þarf að koma úr vottaðri skógrækt og allt timbur verður að vera rekjanlegt. Þá þarf húsbyggjandinn að hafa gæða- og eftirlitskerfi sem tryggir að viðmiðum Svansvottunar sé náð.

Finnur segir að staðall Svansvottunarinnar sé byggður upp á annars vegar á 41 skilyrðum sem verður að uppfylla og hins vegar 14 stigaviðmiðum sem eru valkvæð. Lágmarks stigafjöldi fyrir einbýli er 16 stig af 42 mögulegum. Hann og Þórdís stefna að því að fá amk. 23 stig fyrir hús sitt að Brekkugötu 2.

Markmiðið með því að byggja umhverfisvottað hús er að sögn Finns ekki síst að skapa þekkingu hér á landi um byggingu umhverfisvæns húsnæðis. Hann segir það stuðla að vistvænna samfélagi og byggja upp þekkingu hjá hagsmunaaðilum, þ.m.t. arkitektum, verkfræðingum, byggingarverktökum, birgjum byggingarefnis, ráðgjöfum, sveitarfélögum, skipulagsyfirvöldum og almenningi. Ekki síður felur verkefnið í sér tækifæri til að kynna umhverfisvænar lausnir í byggingariðnaði og skipulagi.

Á vefsíðunni visthus.is er að finna viðamiklar upplýsingar um verkefnið og segir Finnur að þar verði bætt við fróðleik eftir því sem byggingunni vindur áfram. Þau hjónin stefna að því að húsið verði tilbúið þann 1. júní á næsta ári.

Urriðaholt er fyrsta vistvottaða hverfið á Íslandi

Skipulag Urriðaholts hefur hlotið staðfestingu þess frá vottunarsamtökunum Breeam Communities að Urriðaholt uppfylli skilyrði um framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

Skipulag Urriðaholts er það fyrsta á Íslandi sem hlýtur þessa vistvottun. Breeam Communities er hluti af starfsemi Breeam umhverfisvottunarkerfisins, sem er eitt útbreiddasta vottunarkerfi heims fyrir visthæfi bygginga og byggðar.

Undirritun visthús Jón Pálmi Gunnar Þórdís Finnur IMG 0541
Frá undirritun samkomulags um fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi. Frá vinstri: Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir og Finnur Sveinsson.