25.08.2017

Flogið yfir Urriðaholt á góðviðrisdegi

Hér að neðan má sjá myndskeið af flugi yfir Urriðaholtið á góðvirðisdegi í júlí síðastliðnum. Ekki fer á milli mála að mikil uppbygging á sér stað í þessu nýjasta hverfi Garðabæjar, sem mun fullbyggt verða heimili allt að 5.000 íbúa og nokkurs fjölda fyrirtækja og stofnana.

Alls 613 íbúðir eru annaðhvort tilbúnar eða í byggingu í hverfinu. Því til viðbótar hafa verið jarðvegsframkvæmdir fyrir 368 íbúðir sem margar hverjar er byrjað að reisa. Því verða tæplega eitt þúsund íbúðir tilbúnar eða á framkvæmdastigi í hverfinu á þessu ári.

Garðabær og Urriðaholt hafa ákveðið að hefja undirbúning að næstu áföngum í uppbyggingu íbúðabyggðarinnar. Stefnt er að því að skipulagstillögur þar um geti legið fyrir í árslok og næstu lóðir geti orðið byggingarhæfar sumarið 2018. Gert er ráð fyrir að í fullbyggðu Urriðaholti verði 1.650 íbúðir.