Fjöldi fólks í opnu húsi í Urriðaholti

Yfir eitt þúsund manns mættu í opið hús í Urriðaholti laugardaginn 17. október. Fimmtíu nýjar íbúðir voru til sýnis í níu fjölbýlishúsum og skoðuðu flestir íbúðir í öllum húsunum.

Byggingaraðilar og fasteignasalar stóðu að opna húsinu í samvinnu við Urriðaholt ehf. og var það einróma álit að dagurinn hafi verið mjög vel heppnaður. Það sama var að heyra á þeim sem komu til að skoða og höfðu margir orð á hversu gott væri að geta skoðað svona margar og fjölbreyttar íbúðir á sama tíma.

Fyrstu fjölbýlishúsin í Urriðaholti eru ýmist fullkláruð eða að frágangur er á lokametrunum. Önnur eru tilbúin til innréttinga og nokkur hús eru fokheld. Mikil uppbygging á sér nú stað í Urriðaholti og bygging skóla er hafin. Íbúar eru fluttir inn í fjögur húsanna og fjöldi íbúða er þegar seldur. Hægt er að sjá yfirlit um íbúðir til sölu í Urriðaholti með því að smella á hlekkinn "Fasteignaleit" hér að ofan.

Hér að neðan gefur að líta nokkrar myndir frá opna húsinu.

Málin rædd við húsbyggjandann að Holtsvegi 37.
Stór hluti íbúðanna í opna húsinu var á byggingarstigi.
Horft upp eftir Holtsvegi - það var þröng á þingi en samt komust allir fyrir.
Gögn fasteignasalanna skoðuð.
Úr langflestum íbúðum í Urriðaholti er fallegt útsýni, óháð því hvernig veðrið er.
Íbúðir til sölu eru víðast hvar vel merktar.
Um margt þarf að spyrja þegar verið er að velta fyrir sér fasteignakaupum.
Fasteignasalar stóðu vaktina og veittu upplýsingar.
Nokkur húsanna eru fullkláruð, þar á meðal þetta að Hraungötu 1.
Skipulagið skoðað til að sjá heildarmyndina.
Horft niður eftir Holtsvegi, þar sem flest tilbúnu fjölbýlishúsin standa.