1.06.2015

Bygging Urriðaholtsskóla að hefjast

Garðabær hefur auglýst eftir tilboðum í uppsteypu fyrsta áfanga Urriðaholtsskóla og verða þau opnuð þann 19. júní næstkomandi. Framkvæmdum á að vera lokið um miðjan janúar á næsta ári og áformað er að skólinn taki til starfa þá um haustið. Þessi fyrsti áfangi skólans verður 5.300 fermetrar. Í honum verða um 100 heilsdagspláss fyrir börn á leikskólaaldri og rými fyrir um 250 börn á grunnskólaaldri upp í 10. bekk.

Fullbyggður verður Urriðaholtsskóli með allt að 700 börn á grunnskólaaldri og sex deildir leikskóla með um 120 heilsdagsplássum. Skólinn verður því vel í stakk búinn að taka við nýjum íbúum í Urriðaholti.

BREEAM umhverfisvottun fyrir skólann

Í samstarfssamningi Garðabæjar og Urriðaholts ehf. er ákvæði um áherslur í umhverfismálum og hefur Garðabær samþykkt sérstaka umhverfisstefnu fyrir skóla í Urriðaholti. Vegna þessara áhersluatriða í uppbyggingu Urriðaholts er unnið að því að skólinn fái hina alþjóðlegu BREEAM umhverfisvottun. Vottunin tekur til þeirra þátta byggingarinnar sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif hennar og stuðla að sjálfbærni. Þess má geta að hús Náttúrufræðistofnunar Ísland í Urriðaholti var eitt af fyrstu húsum hér á landi til að fá BREEAM vottunina. Jafnframt er nú unnið að því að Urriðaholt verði fyrsta hverfið á Íslandi til að hljóta vistvottun samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu Breeam communities sem er leiðandi á þessu sviði í heiminum.

Vandað til við hönnunina

Garðabær auglýsti á sínum tíma eftir hönnunarhópi til að taka þátt í útboði á hönnun Urriðaholtsskóla. Samið var við hönnunarhóp í febrúar 2014, en í hópnum var m.a. að finna arkitekta, verkfræðinga, landslagsarkitekta og vottaða BREEAM ráðgjafa. Umsjón með hönnuninni hefur verið í höndum Úti og inni arkitekta undir stjórn Baldurs Ó. Svavarssonar arkitekts.

Töluverður undirbúningur hefur átt sér stað í uppbyggingu skólastarfs í Urriðaholti. Strax í upphafi voru lagðar ákveðnar línur í rammaskipulagi Urriðaholts og á árinu 2008 fór fram umtalsverð undirbúningsvinna á vegum fræðslu- og menningasviðs Garðabæjar í samstarfi við arkitekta og ráðgjafa.

Verkefnisstjórn hefur yfirumsjón með mótun og byggingu Urriðaholtsskóla. Í henni eru: Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur, Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs og Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf.

1331 Aðalaðkoma
Útlitsmynd af aðalaðkomunni að Urriðaholtsskóla.
Útlitsmynd Urriðaholtsskóli að utanverðu.
1331 Suðurhliðin
Útlitsmynd af suðurhlið skólans.
Undirritun Hönnun Urriðaholtsskóla
Við undirritun samnings um hönnun Urriðaholtsskóla í febrúar 2014. Frá vinstri: Jón Pálmi Guðmundsson frá Urriðaholti ehf., Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, Erlendur Birgisson frá VEB verkfræðistofu, Friðrik