Vatnafari Urriðavatns er viðhaldið með sjálfbærum ofanvatnslausnum
Stór hluti Urriðaholts er innan vatnasviðs Urriðavatns. Hefðbundnar fráveitulausnir safna ofanvatni frá byggð í fráveitukerfi og beina því þannig almennt til sjávar. Væri slíkum lausnum beitt í Urriðaholti er hætt við að náttúrulegt rennsli til Urriðavatns myndi minnka, með neikvæðum afleiðingum fyrir grunnt vatnið og lífríki þess. Þess í stað var leitað leiða við að meðhöndla ofanvatn staðbundið og beita samfara því náttúrulegri hreinsun til að koma í veg fyrir að mengunarefni berist til Urriðavatns.
Aðferðir við meðhöndlun ofanvatns í Urriðaholti
Ofanvatn er meðhöndlað á sem náttúrulegastan hátt. Opnar ofanvatnsrásir og tjarnir í bland við pípur, þar sem það á við, þjóna því hlutverki að taka við, hreinsa og hægja á flæði ofanvatns og koma í veg fyrir flóð af völdum asahláku.
Innan hverfis er ofanvatni beint um þar til gerðar rásir og til opinna grænna svæða á yfirborði, þar sem vatn getur safnast fyrir og/eða sigið ofan í jarðveg, sem jafnframt þjónar tilgangi við hreinsun mengunarefna.Ofanvatnsrásir eru jafnframt staðsettar við götur og bílastæði. Leitast er við að beina þakvatni í jörð innan lóða.
Sjálfbærar ofanvatnslausnir auka hlutfall grænna opinna svæða
Það vatn sem ekki sígur í jarðveg í ofanvatnsrásum, berst til safnlauta fyrir ofanvatn í grænum geirum.Gert er ráð fyrir að ofanvatnsrásir, safnlautir og tjarnir geti tekið við vatni í miklum rigningum og/eða leysingum og að tryggt sé að ofanvatn valdi ekki flóðum og sé nægilega hreinsað þegar það berst til viðtaka. Þegar þurrt er mynda ofanvatnsmannvirki hluta af grænu landslagi svæðisins.
Náttúrulegir ferlar nýttir til að draga úr vatnsmengun
Á leið sinni ofan úr hverfi í Urriðavatn verða föst efni í vatninu að miklu leyti eftir í grónu yfirborðinu og í jarðlögum og ýmist brotna þar niður eða verða skaðlaus áður en vatnið skilar sér aftur út á yfirborðið og til Urriðavatns.