11.08.2023

Vinningstillaga um nýtt regluheimili Oddfellow í Urriðaholti

KRADS, TRÍPÓLÍ og Urbanlab Nordic urðu hlutskörpust í samkeppni um hönnun nýs heimilis Oddfellowreglunnar efst í Urriðaholti í Garðabæ. Niðurstaða samkeppninnar var kynnt um miðjan júní. Um var að ræða hönnunarsamkeppni að undangengnu forvali. Fimm teymum var boðið til þátttöku í samkeppninni að loknu forvali.

Oddfellowreglan efndi til samkeppninnar í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Um er að ræða nýtt 3.000 fermetra regluheimili á tveimur hæðum með bílakjallara. Oddfellowreglan hefur afar sterka tengingu við Urriðaholt: landið var í eigu Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellow þegar ákveðið var að ráðast í skipulagningu þess fyrir íbúðabyggð.

„Áhersla var lögð á raunhæfa og spennandi tillögu sem sómir sér vel í umhverfinu og er ætlað að verða ákveðið kennileiti á háholtinu. Gerð var krafa um að umhverfissjónarmið, sjálfbærni og að vistvæn hönnun verði höfð að leiðarljósi við hönnun og efnisval,“ segir á vef Oddfellow um vinningstillöguna. Dómnefndin segir meðal annars um vinningstillöguna að hún sýni vandaða og hlýlega byggingu sem fangi vel hugmyndina um regluheimili. Aðlögun að umhverfi og staðaranda sé góð og heildarútkoman fáguð og góð byggingarlist.

Oddfellow er með regluheimili í Vonarstræti og Hafnarfirði, auk átta annarra heimila víðs vegar um land.

ODDFELLOW STREET scaled
Sýn arkitekta á hið nýja regluheimili Oddfellowa.
ODDFELLOW FOYER
Séð inn í anddyri hins fyrirhugaða regluheimilis.
1stfloorplan
Grunnflötur fyrstu hæðar.
Section BB
Þversnið af húsinu langsum.