5.12.2021

Uppbyggingu íbúða verði lokið 2024

Urriðaholt 2021 07 Keldugata
Línurnar marka hvar síðustu húsin munu rísa við Keldugötu, en vinna við byggingu þeirra er hafin.

Áætlanir gera ráð fyrir að uppbyggingu íbúða í Urriðaholti verði lokið árið 2024. Þá verða liðin 16 ár því að fyrsta húsið reis af grunni að Kinnargötu 14 og 14 ár frá því að fyrsta fjölskyldan flutti í þetta nýjasta hverfi Garðabæjar að Keldugötu 7 – og býr þar enn.

Sumarið 2008 var fyrsti áfangi Urriðaholts tilbúinn til uppbyggingar, götur og lagnir komnar í vesturhluta hverfisins. Um haustið hrundu bankarnir og efnahagslífið fór í hægagang. Aðeins nokkur hús voru reist árlega fram til 2013. Síðustu ár hefur uppbyggingin hins vegar verið miklu hraðari en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Ungt fólk í meirihluta

Hlutfall ungra íbúðakaupenda með börn hefur verið langt umfram áætlanir. Um 70% íbúa í hverfinu eru undir þrítugu. Í máli Gunnars Einarssonar bæjarstjóra á aðalfundi íbúasamtaka Urriðaholts kom fram að börn á leikskólaaldri eru um 13% íbúa í Urriðaholti, en meðaltalið á landsvísu er 4-5%. Áætlanir um uppbyggingu skóla og leikskóla í hverfinu gerðu ekki ráð fyrir þessum mikla barnafjölda. Garðabær hefur því þurft að grípa til bráðabirgðalausna á leikskólanum Mánahvoli við Vífilsstaði til að mæta eftirspurn. Gunnar sagði að bygging leikskólans að Holtsvegi 20 yrði boðin út eftir áramót og gert er ráð fyrir að hann verði tilbúinn haustið 2023.

Byrjað á síðasta áfanganum

Gatnagerð í norðurhluta 4 sem er norðan við Urriðaholtsstræti er komin á fullt en það er síðasti áfanginn í uppbyggingu Urriðaholts. Byggingar munu byrja að rísa þar seinni part næsta árs. Framkvæmdum í eldri áföngum er víðast að ljúka og m.a. eru lokaframkvæmdir í Keldugötu komnar af stað.

Bætt aðkoma og göngustígar

Bygging 1.800 íbúða með 4.500 -5.000 íbúum tekur sinn tíma eins og gefur að skilja og margvíslegt rask sem því fylgir hefur reynt á þolinmæði íbúa. Meðal þess sem sér nú fyrir endann á er breikkun Urriðaholtsstrætis og umbætur á aðkomu inn í hverfið. Jafnframt hefur verið unnið ötullega að frágangi göngustíga og hillir undir að hægt verði að ganga umhverfis Urriðavatn

Atvinnustarfsemi verður í aðkomu hverfisins, upp með Urriðaholtsstræti og á háholtinu. Náttúrufræðistofnun tók til starfa 2011 og nú er framkvæmdum að ljúka við „Húsið í hverfinu“ að Urriðaholtsstræti 2-4 en þar mun opna veitingastaður, matvörubúð o.fl. á jarðhæð og á efri hæðum verða skrifstofur Bláa Lónsins. Fyrir neðan Urriðaholtsstræti eru síðan þrjár lóðir sem eftir er að ráðstafa en stefnt er því að þeirri uppbyggingu ljúki á árinu 2024 eða á sama tíma og íbúðabyggðin. Framkvæmdarask í hverfinu ætti því að vera svo til horfið eftir þann tíma.

Fyrsta húsið í Urriðaholti 2009 015
Kinnargata 14 í febrúar 2009, fyrsta húsið sem reis af grunni í Urriðaholti.