Þúsundir komu í opið hús hjá Náttúrufræðistofnun
Þrátt fyrir ausandi rigningu og hvassviðri komu 5-6 þúsund manns í opið hús hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Urriðaholti laugardaginn 5. mars. Húsið var þéttfullt af fólki allan daginn, ekki síst barnafjölskyldum. Mikill áhugi var fyrir hinum fjölbreyttu fræðastörfum sem fram fara hjá Náttúrufræðistofnun og höfðu starfsmenn vart undan að svara spurningum. Hér er hlekkur á myndband frá opna húsinu.
Náttúrufræðistofnun flutti inn í hin nýju heimkynni í Urriðaholti í lok síðasta árs. Húsið er fyrsti vísir að uppbyggingu skrifstofu- og þjónustustarfsemi í Urriðaholti. Það er sérstaklega sniðið utan um starfsemi stofnunarinnar, en hins vegar er þar lítil sem engin sýningaraðstaða.
Allir krókar og kimar voru nýttir í opna húsinu til að sýna náttúrugripi og kynna starfsemina. Í matsalnum sátu börn og lituðu, settu saman gogga með dýramyndum eða skreyttu sig með fuglagrímum. Sagt var frá spennandi verkefni sem nú stendur yfir hjá stofnuninni, að gera beinagrind af steypireyð, stærstu skepnu jarðar, tilbúna til sýningar. Hér er hlekkur á myndband um þetta verkefni.
Geirfuglinn, sem íslenska þjóðin keypti á uppboði í London fyrir 40 árum, vakti einnig mikla athygli eins og vænta mátti.
Arkitektar hússins, Björn Guðbrandsson og Egill Guðmundsson frá Arkís, sátu fyrir svörum um hönnun þess og hugmyndafræðina á bak við BREEAM umhverfisvottun hússins. Gestir höfðu mörg orð um hvað þeim fannst húsið vel heppnað og við hæfi starfseminnar. Ekki var minni áhugi fyrir kynningu Halldóru Hreggviðsdóttur frá ráðgjafarfyrirtækinu Alta á skipulagi Urriðaholts og þeim tækifærum sem hverfið býður upp á.
Hinn mikli áhugi á starfsemi Náttúrufræðistofnunar minnir að sjálfsögðu á þá óþægilegu staðreynd að engin sýningaraðstaða er fyrir hendi hér á landi fyrir náttúrugripi. Starfsemi Náttúruminjasafns liggur í láginni en margir hafa vakið máls á því að safninu væri best komið við hlið Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti.
Urriðaholt ehf. hefur látið teikna tillögu að sýningarhúsnæði fyrir Náttúruminjasafn. Ef áhugi reynist á því að fara þessa leið er hægt að hefja framkvæmdir með litlum fyrirvara, enda er lóðin tilbúin og skipulag frágengið.
Margt mælir með því að hafa sýningarhúsnæði fyrir náttúruminjar við hlið Náttúrufræðistofnunar, enda eru gripirnir allir varðveittir hjá stofnuninni. Umsýsla með gripina yrði því öll einfaldari en ef safnið yrði staðsett annars staðar og hægt að vera með afar fjölbreyttar sýningar hverju sinni.
Urriðaholt er miðsvæðis á suðvesturhorni landsins. Meirihluti gesta í náttúrugripasöfnum eru skipulagðir hópar skólafólks og ferðamanna sem koma með rútum, þannig að staðsetningin er síður en svo óhentug. Það virðist heldur ekki þvælast fyrir fólki að leggja leið sína í ýmsar af þeim vinsælu verslunum sem eru í Kauptúni, steinsnar frá.