16.08.2016

Skólinn bíður eftir börnunum

Byggingu Urriðaholtsskóla við Lindastræti efst í Urriðaholti miðar vel og er í takt við uppbyggingu hverfisins. Uppsteypu fyrsta áfanga skólans er lokið og styttist senn í að vinna hefjist við utanhússklæðningu, innréttingar og frágang. Stefnt er að því að hefja skólastarf í Urriðaholtsskóla þarnæsta haust, en um þessar mundir á mikil uppbygging sér stað í hverfinu og margir að flytja inn.

Vistvænar áherslur alla leið

Urriðaholtsskóli er leik- og grunnskóli og í fyrsta áfanga verður pláss fyrir 250 börn á grunnskólaaldri og 100 heilsdagspláss í leikskóla. Í fyrsta áfanganum verða leikskóli, almenn kennslurými, bókasafn og stjórnunarrými skólans.

Að sögn Margrétar Bjarkar Svavarsdóttur, forstöðumanns fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, verður Urriðaholtsskóli umhverfisvænn og munu vistvæn sjónarmið og umhverfisvitund endurspeglast bæði í innra starfi og ytra umhverfi hans. Við byggingu skólans eru vistvæn efni nýtt til hins ítrasta og áhersla lögð á umhverfisvænan rekstur og samgöngur til og frá skólanum. Stefnt er að því að skólinn fái hina alþjóðlegu BREEAM umhverfisvottun, þá sömu og hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti fékk.

Nálægðin við náttúruna markar skólastefnuna

Margrét Björk segir að tengsl við náttúruna allt um kring í Urriðaholti verði ríkur þáttur í námi barnanna. „Þau verða virkir þátttakendur í vistvænum rekstri og lögð áhersla á að rækta með þeim vitund og virðingu fyrir umhverfinu. Vísindastöðvar verða einnig víðsvegar um skólann þar sem börnin fást við verkefni sem tengjast umhverfinu,“ segir hún.

Margrét Björk segir að lagt sé upp með að skólinn verðir skapandi og skemmtilegur. „Kennsluhættir taki mið af ólíkum námsþörfum nemenda og boðið verður upp á fjölbreyttar leiðir til náms. Áhersla er lögð á að börnin þroski með sér sjálfstraust, ábyrgð, gagnrýna hugsun og víðsýni,“ bætir hún við.

Í stefnu skólans er áhersla á að samstarf einkenni alla starfshætti bæði nemenda og starfsmanna. Markviss þjálfun verður í samskiptahæfni og áhersla á virka þátttöku nemenda.

Tengsl við grenndarsamfélagið

Skólinn verður hjarta samfélagsins í Urriðaholti. Í fyrsta lagi er þar staðsett öll starfsemi sem tengist börnum og unglingum s.s. félagsstarf unglinga, tónlistarskóli og aðstaða til íþrótta. Í öðru lagi munu íbúar hverfisins hafa aðgang að skólahúsnæðinu og sækja þangað þjónustu t.d. bókasafn, námskeið, tónleika o.fl.

Sóldögg er tákn skólans

Sóldögg er afar sjaldgæft blóm sem vex á okkrum stöðum á landinu, þar á meðal í Urriðaholti. Hún var því valin tákn skólans og undirstrikar þannig virðingu fyrir náttúrunni. Ekki síður táknar Sóldöggin hvernig allt starf skólans tengist órjúfanlega saman í eina heild þar sem leiðir ólíkra hópa skarast.

Urriðaholtsskóli úr lofti DJI 0084
Urriðaholt í júní 2016, Urriðaholtsskóli er til hægri á myndinni og horft er niður Holtsveg í átt að Kauptúni. Urriðavatn til vinstri.
Urriðaholtsskóli úr lofti í fjarlægð DJI 0121
Horft yfir Holtsveg í átt að Heiðmörk og golfvelli Odds. Skólabyggingin er efst fyrir miðri mynd.
Skólinn steyptur upp IMG 0529
Þessi mynd sem tekin var í maí sl. sýnir hversu vel hefur miðað við byggingu nýja skólans.