Mikil uppbygging í Urriðaholti
Mikil hraði er í uppbyggingu íbúðabyggðar í Urriðaholti um þessar mundir. Alls 613 íbúðir eru annaðhvort tilbúnar eða í byggingu í hverfinu. Því til viðbótar er nú verið að ljúka jarðvegsframkvæmdum fyrir 368 íbúðir sem byrjað verður að reisa í sumar. Því verða tæplega eitt þúsund íbúðir tilbúnar eða á framkvæmdastigi í hverfinu á þessu ári.
Fyrstu íbúarnir fluttu í einbýlishús í Urriðaholti í apríl 2010 og í nóvember 2014 fluttu fyrstu íbúarnir í fjölbýli í hverfinu. Síðustu þrjú árin hefur mikil uppbygging átt sér stað og eiga nú vel á þriðja hundrað manns heimili í Urriðaholti.
Vegna mikillar eftirspurnar og skorts á nýbyggingum sem einkennt hefur fasteignamarkaðinn hafa Garðabær og Urriðaholt ákveðið að hefja undirbúning að næstu áföngum í uppbyggingu íbúðabyggðarinnar. Stefnt er að því að skipulagstillögur þar um geti legið fyrir í haust og næstu lóðir geti orðið byggingarhæfar sumarið 2018. Gert er ráð fyrir að í fullbyggðu Urriðaholti verði 1.650 íbúðir.
Uppbygging í Kauptúni
Vart hefur farið framhjá nokkrum að mikil gerjun á sér einnig stað í Kauptúni í Urriðaholti. Costco áformar að opna 14.000 fermetra verslun í lok maí og á svipuðum tíma opnar Vínbúðin við hliðina á Bónus. Verið er að stækka verslun Bónuss og sömuleiðis er verið að stækka húsið við hliðina á Costco. Þangað koma verslanir Rúmfatalagersins og Ilva að loknum framkvæmdum. Ekki má gleyma því að bensínstöð Costco tekur til starfa um leið og verslunin. Fyrir í Kauptúni eru IKEA,Toyota, Huyndai og gæludýrabúðin Fiskó þannig að íbúar í Urriðaholti eru að verða vel settir með úrval verslana og þjónustufyrirtækja í hverfinu.
Skólastarfið
Stefnt er að opnun leikskóladeildar Urriðaholtsskóla í lok ársins og grunnskólans haustið 2018. Framkvæmdum við uppsteypu fyrsta áfanga er lokið, en hann er 5.700 fermetrar. Í þessum fyrsta áfanga verður leikskóladeildin og 1.-4. bekkir grunnskóla.
Í október síðastliðnum voru tilboð í lokun skólans opnuð. Bæjarráð Garðabæjar tók ákvörðun um að hafna öllum tilboðunum þremur og bjóða þennan verkþátt út að nýju ásamt frágangi innanhúss. Það útboð er nú í lokafrágangi verður auglýst innan skamms. Útboð vegna lóðar er nú þegar frágengið og framkvæmdir hefjast í vor.