Góður hugur í byggingaverktökum í Urriðaholti
Verktakar nýrra fjölbýlishúsa í Urriðaholti hittust í síðustu viku til að ræða stöðu mála við þá Gunnar Einarsson bæjarstjóra Garðabæjar og Jón Pálma Guðmundsson, framkvæmdastjóra Urriðaholts ehf. Góður hugur var í mannskapnum á fundinum, enda eru margar bygginganna langt komnar og styttist í að sala fyrstu íbúðanna fari að hefjast.
Verktakarnir eiga það sameiginlegt að vera að reisa lítil fjölbýli, yfirleitt þriggja hæða með bílageymslum og lyftum. Eitt húsanna er nánast uppsteypt. Íbúðir í húsunum eru frá 80 til 145 fermetrar.
Á fundinum ræddi Gunnar Einarsson bæjarstjóri sérstaklega um byggingu skóla í Urriðaholti, en hönnun hans er þegar hafin. Gunnar sagði að leikskóli og grunnskóli myndu taka til starfa haustið 2016, en í millitíðinni gætu foreldrar barna í Urriðaholti valið í hvaða skóla börn þeirra gengju.
Fundarmenn voru sammála um að Urriðaholt byði upp á eftirsóknarverð gæði fyrir verðandi íbúa. Þar á meðal mætti nefna fallegt útsýni yfir Urriðavatn úr sólríkri hlíðinni, nálægð við útivistarperlur og golfvöll og miðlæga staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu.
Ekki spillti fyrir að vera í Garðabæ, þar sem ríkir metnaður fyrir velferð bæjarbúa.
Til viðbótar við þær rúmlega 100 íbúðir sem nú er verið að byggja í Urriðaholti hefur verið ákveðið að hefja framkvæmdir við byggingu annars eins fjölda íbúða í haust.