Gæði raforku í Urriðaholti tryggð með 5-víra kerfi
Hitaveita Suðurnesja og fyrirtækið Orkulausnir hafa undanfarin misseri unnið að því að tryggja það sem kalla má gæði raforkudreifingar í Urriðaholti. Aðgerðirnar draga úr líkum á svokallaðri rafmengun, sem getur valdið ýmsum vandkvæðum fyrir fólk og dýr, jafnt sem ótímabæru sliti og bilunum í raftækjum.
Rafmengun stafar oftast af ónógum jarðtengingum og/eða lélegri spennujöfnun. Til að tryggja sem bestar jarðtengingar í Urriðaholti hefur Hitaveita Suðurnesja borað fjölda jarðskauta allt að 80 metra niður í jörðina. Jarðskautin eru tengd götuskápum og spennistöðvum í Urriðaholti og frá þeim liggja sérstakir rafstrengir inn í hvert einasta hús til að tryggja góða jarðtengingu. Venjulega liggja fjórir vírar frá götuskápum inn í hús, en með þessari sérstöku jarðtengingu bætist fimmti vírinn við og þá er gjarnan talað um 5-víra dreifikerfi.
Brynjólfur Snorrason, eigandi Orkulausna, segir að framkvæmdirnar hafi gengið vel og samstarfið við Hitaveitu Suðurnesja, Garðabæ og Urriðaholt verið til mikillar fyrirmyndar.
“Markmiðið með 5-víra rafdreifikerfinu er að stuðla að spennujöfnun og bæta jarðbindingu. Þannig er dregið úr líkum á ójöfnu flæði rafmagns og svokallaðri yfirtíðnibjögun. Þetta er í einu orði kallað rafmengun, sem getur orsakað ójafnvægi í umhverfinu og haft neikvæð áhrif á heilsufar manna og dýra,” segir Brynjólfur.
„Þegar hús eru illa spennujöfnuð og illa jarðtengd, þá hreinlega líður fólki ekki nógu vel,“ segir Brynjólfur. „Stundum finnst þessi vanlíðan á ákveðnum stöðum innanhúss, þar sem spennujöfnun er áfátt eða yfirtíðnibjögun vegna skorts á jarðtengingum. Þetta sést til dæmis á því að ló og ryk safnast fyrir á ákveðnum stöðum, sprungur myndast í veggjum, móða á milli glerja, málning flagnar eða að tæki bila óeðlilega mikið. Fólk getur fundið fyrir þreytu og sleni eða hreinlega orðið veikt við slíkar aðstæður og dýr eru mjög næm fyrir þeim.“
Brynjólfur segir að húsbyggjendur, bæjaryfirvöld, verkfræðingar, rafmagnsveitur og aðrir sem koma að þessum málum hafi betur og betur áttað sig á nauðsyn þess að hafa tryggja jafnvægi í rafkerfum.
„Númer eitt er auðvitað að farið sé í einu og öllu eftir reglugerðum um gerð raforkuvirkja, þar á meðal um snertispennuvarnir, varnarleiðiskerfi og auðvitað um gerð jarðskauta og jarðskautstauga,“ segir Brynjólfur. „Því miður eru vanhöld á að þessum reglum sé fylgt og þá skapast hætta á rafmegnun.“ Hann segir að í Urriðaholti sé þessum reglum ekki aðeins fylgt út í æsar, heldur gengið lengra með því að bora fyrir jarðskautum djúpt í jörðu til að tryggja fullkomna jarðtengingu.
Brynjólfur bendir jafnframt á að í mörgum eldri hverfum, þar sem áður voru góðar jarðtengingar í gegnum vatnsleiðslur úr járnrörum, hafi leiðslurnar verið endurnýjaðar með plaströrum, sem ekki leiða rafmagn. Sjaldnast séu gerðar ráðstafanir til að jarðtengja með einhverjum öðrum hætti og þá skapist hætta á ójafnri spennu, sem ekki var áður fyrir hendi. Brynjólfur segir að víða sé pottur brotinn í þessum efnum, en þar sem rafmengunin er sjaldnast sjáanleg og vandasamt er að mæla hana, þá gerist það alltof oft að eigendur og forráðamenn húsbygginga bregðast ekki við vandanum.
„En sífellt fleiri eru að vakna til vitundar um mikilvægi þess að hafa „hreint“ streymi rafmagns í kringum sig, þannig að ég tel að þetta standi til bóta, segir Brynjólfur Snorrason.