14.11.2017

Fyrsta Svansvottaða húsið á Íslandi er í Urriðaholti

Einbýlishúsið að Brekkugötu 2 í Urriðaholti fékk þann 10. nóvember Svansvottun Umhverfisstofnunar. Þetta er fyrsta einbýlishúsið á Íslandi sem fær umhverfisvottun af þessu tagi.

Hjónin Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir og Finnur Sveinsson eru eigendur hússins og frumkvöðlar að byggingu þess. Þau veittu vottuninni viðtöku ásamt framkvæmda- og ráðgjafafyrirtækinu Mannverki sem hefur haft með höndum byggingarstjórn og ber ábyrgð á því að húsið uppfylli allar kröfur Svansins.

Markmið eigenda hússins og annarra sem að byggingunni koma var ekki síst að efla vitund um mikilvægi umhverfismála í byggingariðnaði á Íslandi. Staðsetning þess í Urriðaholti undirstrikar þessar áherslur, en Urriðaholt er fyrsta og eina hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags (BREEAM Communities).

Svansvottaða húsið Urriðaholt apríl 2018 0923
Húsið er steypt, einangrað að utan með íslenskri steinull og klætt með álklæðningu og að hluta viðarklæðningu.

Ryður brautina fyrir byggingu fleiri vistvænna húsa

Finnur Sveinsson segir að fá upphafi hafi þau Þórdís Jóna mætt skilningi og veljvilja en umfram allt miklum áhuga á því að leita nýrri og umhverfisvænni leiða í íslenskum byggingariðnaði.

„Við lögðum á það áherslu að nýjungar í húsinu væru umtalsverðar og mikilvægar en þó ekki svo miklar að byggingariðnaðurinn treysti sér ekki til að stíga nauðsynleg skref við útfærsluna. Við erum ánægð með niðurstöðuna því okkur tókst að byggja umhverfisvottað hús án þess að það hefði einhvern aukakostnað í för með sér. Vinnan var lærdómsrík fyrir alla og nú er svo komið að margir birgjar hafa byggt upp getu til bjóða vörur fyrir Svansvottuð hús. Fyrst við gátum byggt umhverfisvottað þá ætti það að vera leikur einn fyrir byggingarverktakana.“

Undirritun visthús Jón Pálmi Gunnar Þórdís Finnur IMG 0541
Frá undirritun samkomulags um fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi í lok júlí 2016. Frá vinstri: Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir og Finnur Sveinsson.

Orkunotkun í lágmarki

Húsið að Brekkugötu 2 er 216 fermetrar á tveimur hæðum með innbyggðum bílskúr. Bygging þess hófst í september 2016 og hefur því aðeins staðið í rúmt ár. Í húsinu er meðal annars leitast við að halda orkunotkun í lágmarki og nota byggingarefni sem hefur ekki verið meðhöndlað með efnum sem eru flokkuð sem krabbameinsvaldandi, valda stökkbreytingum eða hafa áhrif á frjósemi. Að lágmarki 70% hluti timburs sem notað er í húsinu kemur úr vottaðri skógrækt og allt timbur er rekjanlegt. Húsið er steypt og einangrað að utan með íslenskri steinull. Það er klætt með álklæðningu og að hluta viðarklæðningu.

Svansvottun sýnir umhverfislegan ávinning

Viðmið fyrir Svansvottaðar byggingar eru umfangsmikil og taka til margra ólíkra þátta sem eiga að stuðla að betri gæðum fyrir umhverfi og heilsu þeirra sem nota bygginguna. Það eru því strangar kröfur varðandi efnanotkun, val á byggingarefni og innivist. Á Norðurlöndunum hefur Svansvottun bygginga átt mikilli velgengni að fagna þar sem Svanurinn býður upp á skilvirkt vottunarkerfi sem sýnir fram á umhverfislegan ávinning. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.

Urriðaholt er fyrsta vistvottaða hverfið á Íslandi

Skipulag Urriðaholts hefur hlotið staðfestingu frá vottunarsamtökunum Breeam Communities að Urriðaholt uppfylli skilyrði um framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

Skipulag Urriðaholts er það fyrsta á Íslandi sem hlýtur þessa vistvottun. Breeam Communities er hluti af starfsemi Breeam umhverfisvottunarkerfisins, sem er eitt útbreiddasta vottunarkerfi heims fyrir visthæfi bygginga og byggðar.

IMG 0204
IMG 0200
IMG 0192

Tengt efni