Bygging fjölbýlishúsa
Bygging 15 lítilla fjölbýlishúsa er hafin í Urriðaholti. Átta verktakafyrirtæki standa að byggingu húsanna og er jarðvegsframkvæmdum lokið.
Alls verða 103 íbúðir í fjölbýlishúsunum, en þær rísa við Holtsveg með útsýni yfir Urriðavatn, Hafnarfjörð og út á Reykjanes. Stærð íbúðanna er á bilinu 80 til 145 fermetrar og flestum þeirra fylgja stæði í bílageymslum. Byggingarnar liggja allar á sama svæðinu hlið við hlið og lögð er áhersla á að byggingar rísi allar samtímis til að samhliða verði hægt að ganga endanlega frá götum, gangstígum og opnum svæðum og að væntanlegir íbúar búi ekki við byggingaframkvæmdir sér við hlið í mörg ár.
Mikill áhugi verktaka á byggingu fjölbýlis gefur nú góð fyrirheit um hraða uppbyggingu í Urriðaholti. M.a. hefur Garðabær ákveðið að hefja byggingu skóla í Urriðaholti á næsta ári og stefnt er að skólastarf geti hafist haustið 2015.