14.02.2008

Aukið jarðsamband í Urriðaholti

Dreifikerfi rafmagns í Urriðaholti verður svokallað 5-víra kerfi, í stað hefðbundins 4-víra kerfis. Tilgangurinn er að auka jarðsamband í dreifikerfinu og draga þannig úr líkum á ójöfnu flæði rafmagns.

„Umræða um svokallaða rafmengun vakti áhuga okkar og leiddi til þess að við tókum upp viðræður við Hitaveitu Suðurnesja um að efla jarðsamband í dreifikerfi rafmagns í Urriðaholti,“ segir Sigurður Gísli Pálmason, sem á sæti í stjórn Urriðaholts ehf. Hann segir að Brynjólfur Snorrason hjá Orkulausnum hafi verið óþreytandi að benda á að lélegt jarðsamband geti leitt til truflana á flæði rafmagns, eða það sem hann kallar rafmengun. „Að mati Brynjólfs getur þessi rafmengun orsakað ójafnvægi í umhverfinu og haft neikvæð áhrif á heilsufar manna og dýra. Sú lausn sem verður notuð í Urriðaholti mun vafalítið draga úr slíkri rafmengun,“ segir Sigurður Gísli.

Í hefðbundnu 4-víra rafdreifikerfi fer flutningur á jarðstraum og núllstraum um sama leiðara en 5-víra kerfi miðar að því að aðgreina þessa strauma.