Logo

Hvað er svona gott við að búa í Urriðaholti?

Allt skipulag Urriðaholts byggir á hugsjón um að íbúabyggð eigi að hámarka lífsgæði fólksins sem þar býr. Hér að neðan má lesa um hvernig þær áherslur hafa orðið að veruleika á þeim tæplega tveimum áratugum sem uppbygging hverfisins hefur staðið yfir.

Image
Image
Image

Vistvottað skipulag

Vistvottað skipulag Urriðaholts miðar að því að gera daglegt líf íbúa ánægjulegt, þægilegt og öruggt. Blöndun íbúðaforma skapar fjölbreytta búsetumöguleika, stutt er að fara til að njóta útivistar og margvísleg þjónusta í nágrenninu.

Image
Image
Image
Image

Sjálfbær umhverfisvernd

Urriðavatn og votlendið umhverfis það er ævintýraheimur og heimkynni ótal plantna og dýra. Sjálfbærar ofanvatnslausir (einnig kallaðar blágrænar ofanvatnslausnir) tryggja hringrás úrkomu sem fellur í Urriðaholti svo lífríki vatnsins raskist ekki og haldi áfram að dafna.

Útivist allt um kring

Urriðaholt liggur við friðlandið í Heiðmörk, sem er stærsta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Búrfellshraun og Urriðavatn eru beintengd hverfinu, golfvöllur á næsta leiti og upplönd Garðabæjar í göngufæri.

Image
Image
Image
Image

Samspil margra þátta skapar hverfisandann

Þétt byggðarmynstur hverfisins skapar nálægð sem stuðlar að öryggi og hverfisanda. Gatnahönnun hvetur til hóflegs umferðarhraða. Lýsing utanhúss er hófstillt til að náttúruleg birta og stjörnubjartar nætur fái að njóta sín.

Image
Image
Image
Image

Áhugaverð saga uppbyggingar Urriðaholts

Uppbygging Urriðaholts hófst 2007 og var að mestu lokið 2025. Hverfið er skipulagt sem ein heild og byggt upp í áföngum. Í haus (menu) þessarar vefsíðu er hlekkur á yfirlit um áhugaverða sögu þessarar uppbyggingar og frásagnir þeirra einstaklinga sem komu þar að málum.

Metnaðarfullt skólastarf

Urriðaholtsskóli hefur vaxið samhliða uppbyggingu hverfisins og spannar nú öll skólastig grunnskólans, frá leikskóla til tíunda bekkjar. Skólinn nýtur góðs af þeim metnaði sem einkennir allt skólastarf í Garðabæ. Að auki sinna Urriðaból 1 og 2 leikskóladvöl yngstu íbúanna.

Gott að vita fyrir íbúa

Vernda þarf lífríki Urriðavatns

Til að vernda viðkvæmt lífríki Urriðavatns og næsta nágrennis þarf að gæta þess að veiða ekki, vaða né sigla á vatninu og trufla ekki fugla á varptíma. Halda þarf hundum frá vatninu meðan varp og uppeldi unga stendur yfir, frá miðjum apríl fram í miðjan ágúst. Utan þess tíma þurfa hundar að vera í taumi á ferð við vatnið.

Þannig virka blágrænu ofanvatnslausnirnar

Til að blágrænu ofanvatnslausnirnar fyrir Urriðavatn skili tilætluðum árangri þarf að gæta þess að óæskileg efni fari ekki út í jarðveginn í hverfinu. Regnvatn rennur af þökum út í jarðveginn til að tryggja vatnsbúskapinn. Því þarf að varast að tengja afrennsli heitra potta við rigningarniðurföll. Rigning og snjór sem fellur á götur, bílastæði og innkeyrslur rennur sömuleiðis beint út í ofanvatnsrásirnar og þaðan til vatnsins. Fyrir vikið má ekki þvo bíla utanhúss í Urriðaholti, því við þvottinn leysast upp ýmis óæskileg efni sem renna út í jarðveginn og enda sem mengun í Urriðavatni. Affall af þessu tagi þarf að fara í niðurföll holræsakerfisins.

Image
Image
Image
Image

Þess vegna eru göturnar mjórri

Gatnahönnun í Urriðaholti er þéttari en almennt þekkist. Götur eru mjórri og óreglulegri en víðast hvar og upphækkanir eru á öllum gatnamótum og gönguleiðum. Tilgangurinn er að draga úr umferðarhraða og auka þannig öryggi allra vegfarenda. Þessi gatnahönnun einkennir skipulag Urriðaholts.
 

Reglurnar um hæð skjólveggja

Skjólveggir og girðingar hafa allnokkra sérstöðu í Urriðaholti. Um hæð þeirra og staðsetningu gilda sérstök ákvæði nr 4.6.4 í deiliskipulagi. Hæðin er takmörkuð við 1,5 metra, þannig að framhliðar húsa séu sýnilegar frá stærstum hluta götunnar fremur en faldar á bak við háar girðingar. Tilgangurinn er að ýta undir aðlaðandi og opið umhverfi ásamt betri götumynd og stuðla í leiðinni að öryggi vegfarenda.