Málþing 23. apríl 2012
Málþing um sjálfbært vatnafar í byggð, eða svokallaðar blágrænar lausnir, var haldið í húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ þann 24. apríl 2012. Málþingið var vel sótt en það sátu um 80 manns.
Pétur Kristjánsson formaður VAFRÍ setti málþingið. Síðan ræddi Sveinn Þórólfsson prófessor hjá NTNU, um sjálfbært vatnafar í nútíð og framtíð. Hrund Ólöf Andradóttir dósent í HÍ sagði frá framtíðarhönnuðum blágrænna lausna og Halldóra Hreggviðsdóttir ráðgjafi hjá Alta sagði frá innleiðingu sjálfbærs vatnafars eða blágrænna lausna í Urriðaholti í Garðabæ. Fjörlegar umræður voru síðan í pallborði þar sem þau Aldís Ingimarsdóttir, stundakennari í HR, Borgþór Magnússon, forstöðumaður hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, Eysteinn Haraldsson, bæjarverkfræðingur í Garðabæ, Sigurbjörg Sæmundsdóttir deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu og Sigurður Ingi Skarphéðinsson, tæknistjóri fráveitu hjá OR ræddu um ávinning og áskoranir af innleiðingu sjálfbærs vatnafars eða blágrænna lausna í byggð.
Í lokaorðum fundarstjóra, Gunnars Einarssonar bæjarstjóra í Garðabæ kom fram að auka þyrfti kennslu á þessu sviði og efla vitund og skilning almennings á blágrænum lausnum og hvað þær þýddu. Hingað til hefði ákveðinn vani og íhaldssemi verið ríkjandi varðandi hönnun fráveitukerfa en fara þyrfti fram meiri kostnaðargreining á mismunandi lausnum. Betra þverfaglegt samstarf þyrfti milli ólíkra fagaðila og síðast en ekki síst þyrfti að efla vitund og ábyrgð atvinnulífsins á mikilvægi umhverfisvænna launa. Í raun ætti atvinnulífið að vera þar í fararbroddi.
Allar upplýsingar um fyrirlestra og annað efni málþingsins má nálgast hér að neðan.