16.03.2021

Svansvottuð raðhús fyrir aukin lífsgæði

Vistbyggð ehf hefur sett ný Svansvottuð raðhús í sölu, efst við Urriðaholtsstræti. Raðhúsin eru byggð úr krosslímdum timbureiningum og fylgja ströngum kröfum um efnisval og umhverfisspor til að standast kröfur Svansins, sem er umhverfismerki Norðurlandanna.

„Í þessum húsum erum við að vinna með þætti sem hafa jákvæð áhrif á líðan og heilsu fólks. Þar á meðal má nefna áherslu á góða hljóðvist, sem dregur úr streitu og þreytu. Einnig náttúrulega lýsingu, því að við mannfólkið leggjum mikið upp úr dagsbirtunni. Í húsunum er janframt loftskiptikerfi sem minnkar orkunotkun húsanna verulega og hindrar rakamyndun,“ segir Benedikt Ingi Tómasson, framkvæmdastjóri Vistbyggðar ehf.

Vistbyggðarhús 1
Tölvugerð mynd af endanlegu útliti raðhúsanna. Framkvæmdir standa yfir við frágang lóðar.

Áhersla á vellíðan

„Við Íslendingar verjum mjög miklum tíma innanhúss, um 65% af þeim tíma er á heimilinu og því skiptir miklu máli að húsakynnin láti okkur líða vel. Kröfur Svansvottunarinnar styðja afar vel við þau markmið og stuðla auðvitað um leið að umhverfisvænum byggingarmáta,“ segir Benedikt.

„Sem dæmi má nefna loftskiptikerfið. Þá er fersku lofti að utan blásið inn og svo sogað út aftur og varminn frá útsogsloftinu notaður til að hita loftið sem kemur inn. Þessi varmaendurvinnsla minnkar orkunotkunina verulega og þarmeð hitaveitureikninginn. Um leið draga þessi loftskipti úr rakamyndun innanhúss,“ bætir hann við.

„Við hönnun húsanna horfðum við til þess að skapa heilnæmt húsnæði fyrir alla fjölskylduna, að það yrði auðvelt að fá vini í heimsókn og geta verið saman, en líka sitt í hvoru lagi í ró og næ

Vistbyggðarhús 3
Tölvugerð mynd af kvöldstemmningu í Vistbyggðarhúsi.

Byggt á góðri reynslu

Raðhús Vistbyggðar við Urriðaholtsstræti eru 16 talsins í tveimur 8 húsa lengjum. Hvert þeirra er 184 fermetrar á tveimur hæðum, 6 herbergja og með útigeymslu. Urriðaholtsskóli er skammt undan. Arkís hannaði húsin og eru þau byggð í samvinnu við Element ehf, sem hefur mikla reynslu af byggingu húsa úr krosslímdum einingum. Alls hefur Element reist 80 hús úr þessu vistvæna byggingarefni á síðustu 6 árum, þar á meðal eru efstu hæðir þriggja fjölbýlishúsa í Urriðaholti.

„Það má segja að við séum í nýsköpun í byggingageiranum með þessum byggingarmáta og áherslu á Svansvottunina,“ segir Benedikt. „Þetta eru fyrstu vottuðu húsin sem eru byggð fyrir almennan markað og fyrstu viðtökur eftir að við settum húsin í sölu hjá Mikluborg gefa okkur byr undir báða vængi um að við séum á réttri leið. Og auðvitað hjálpar til að vera í Urriðaholtinu í þessu frábæra vistvottaða hverfi stutt frá skóla og fyrirhuguðum almenningsgarði, stutt út í náttúruna, áhersla á hjóla- og gönguleiðir og stutt í golf svo nokkuð sé nefnt.“

Lægsta kolefnisfótspor bygginga á Íslandi

Í tengslum við vottunarferlið var gerð vistferlisgreining (LCA eða Life Cycle Assessment) á nýju raðhúsunum. Hún felst í því að reikna kolefnisfótspor þeirra, kolefnisígildi per fermetra. Niðurstaðan varð sú að kolefnisfótsporið er það lægsta sem reiknað hefur verið fyrir hús á Íslandi, eða 303 kg á fermetra. Vistferlisgreining er aðferðarfræði til að meta staðbundin og hnattræn umhverfisáhrif vöru eða þjónustu yfir líftíma hennar.

Vistbyggð ehf hefur þó engan veginn lokið störfum í Urriðaholti. Næsta verkefni félagsins er bygging 19 raðhúsa við Kinnargötu og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í sumar.

Krosslímdar einingar í byggingu IMG 2992
Frá byggingu húsanna haustið 2020 - hér má sjá krosslímdu veggeiningarnar áður en þær voru klæddar.