20.10.2021

Niðurstaða í samkeppni um kennileitishús

Á grundvelli niðurstöðu dómnefndar hefur stjórn Urriðaholts ehf valið tillögu arkitektastofunnar Trípolí+Krads að kennileitishúsi við Vörðugötu 2 efst í Urriðaholti. Kennileitishúsið stendur á áberandi stað í hverfinu og var sóst eftir að kalla fram frumlega og vandaða tillögu að skipulagi og hönnun með tilliti til þess.

Þrjár arkitektastofur tóku þátt í samkeppni um hönnun kennileitishússins. Tillögur þeirra töldust allar frambærilegar og varð tillaga Trípólí+Krads á endanum fyrir valinu.

Fyrirtækið JE Skjanni ehf. er samstarfsaðili hönnuða og í framhaldinu var samið við það fyrirtæki um byggingu hússins.

Þrjátíu íbúðir verða í kennileitishúsinu. Alls verður húsið 6.600 fermetrar, þar af 1.500 neðanjarðar.

Í greinargerð arkitekta segir m.a.: „Form byggingarinnar er einstakt og mun vekja athygli allra sem leið eiga framhjá. Þegar ferðast er upp Urriðaholtsstræti blasir vesturhlið hússins við sem í fyrstu virðist vera línuleg byggingin en þegar nær dregur blasir austurhliðin við og þar með þríhyrningslaga form hússins. Þegar ferðast er niður strætið er formið greinilegt úr nokkurri fjarlægt enda blasir suðvesturhorn hússins þar við líkt og stefni á skipi.“

Tillagan gerir ráð fyrir forsteyptum einingum með lifandi organísku yfirborði, sem Egill Sæbjörnsson myndlistarmaður hannaði. Egill hefur gefið meðhöndlun steypunnar nafnið „flókið yfirborð“. Aðferðina hefur hann þróað í myndlist sinni.

Íbúðir snúa ýmist í suður, vestur eða austur, en um helmingur þeirra njóta dagsbirtu og útsýnis til tveggja átta. Markmið tillögunnar er að umbreyta alröskuðu svæði í náttúrulega hlíð sem verður grædd upp með staðargróðri Heiðmerkur, þ.e. kjarr- og lynggróðri með birki, gulvíði, loðvíði og einiberjarunnum. Því verður um algjöra endurmótun lóðarinnar að ræða.

Hér að neðan er hlekkur á PDF skjal með tillögu Tríólí+Krads arkitekta.

Séð úr vestriÞaksvalir
Kennileitishúsið við Vörðugötu 2 séð úr vestri og af þaksvölum yfir til Heiðmerkur

Tengt efni