Regngarðar - skemmtileg þátttaka í náttúrulegu ferli

Hvað eru regngarðar?
Regngarður er flötur sem mótaður hefur verið með landslagshönnun til að drekka í sig og sía afrennsli af þökum, innkeyrslum, veröndum og öðru hörðu yfirborði sem hleypir vatni ekki í gegnum sig. Regngarðar eru hannaðir með það í huga að regnvatn geti safnast þar fyrir tímabundið en eru ekki hugsaðir sem varanlegar tjarnir.

Í sinni einföldustu mynd má segja að regngarðar séu grunnar dældir sem auðvelt er að laga að garðinum þínum í stærð og lögun. Virkni þeirra byggir á blönduðum undirbyggðum jarðvegi sem auðveldar vatni að síast hratt í jörðu, meðhöndlar afrennsli og styður við vöxt plantna. Vel hannaður regngarður er gjarnan gróðursettur fjölbreyttum runnum og/eða fjölærum plöntum sem gleðja augað ásamt því að hafa afar jákvæð áhrif á umhverfi okkar.

Regngarðar eru ákaflega mikilvægt og fjölhæft verkfæri til að miðla úrkomu á sem náttúrulegastan hátt án þess að ganga á umhverfisleg gæði og er hluti af svokölluðum blágrænum lausnum.

Hvers vegna þurfum við regngarðar í Urriðaholti?
Náttúrulegt umhverfi okkar er þeim kostum gætt að drekka í sig, geyma og sía vatn áður en því er skilað tæru og hreinu í ár, læki, votlendi, vötn og strendur. Fjölbreytt lífríki sjávar og vatna sem og á landi er undir því komið að hafa aðgang að hreinu vatni, eigi það að þrífast.

Eftir því sem byggð okkar þenst út er náttúrulegt umhverfi okkar og jarðvegur leyst af hólmi með vegum, þökum og öðrum hörðum flötum. Í úrkomu eða snjókomu flæðir meira vatn um þessa hörðu fleti en óröskuð svæði og bera olíu, gróðuráburð, plágueyði og önnur skaðleg efni með straumnum. Æ stærri hluti mengunar sem berst í ár og vötn á uppruna sinn í byggðum svæðum með slæmum afleiðingum fyrir vistkerfi vatna.

Í Urriðaholti er brugðist við óæskilegum áhrifum byggðar á umhverfi okkar með blágrænum lausnum. Blágrænar lausnir eru að ryðja sér rúms um allan heim og leitast við að meðhöndla úrkomuvatn staðbundið, það er, sem næst þeim stað sem hún fellur á, í stað þess að veita vatninu í fráveitukerfi. Með þeim hætti má tryggja að umhverfisleg gæði í Urriðaholti haldist þrátt fyrir að þar verði blómleg byggð.

Regngarðar eru hluti blágrænna lausna og eru geysilega árangursrík leið til að minnka vatnsmengun. Rannsóknir erlendis frá hafa sýnt fram á að götur með regngörðum geta stöðvað yfir 90 prósent skaðlegra mengunarvalda sem eru á götum, innkeyrslum og öðrum hörðum flötum frá því að berast út í umhverfið. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að regngarðar ná að binda málma og brjóta önnur mengandi efni niður í smærri efnisþætti sem minni usla í umhverfinu.  

Mynda regngarðar tjörn?
Regngarðar mynda alla jafna ekki tjörn. Sé rétt staðið að hönnun og framkvæmd ætti vatn ekki að standa í þeim í meira í 48 klukkustundir. Sé úrkoma marga daga í röð er möguleiki að vatn standi í regngarðinum þar til henni slotar og vatnið fær tíma til að síast niður.

Er kostnaðarsamt að búa til regngarð?
Kostnaður fer eftir nokkrum þáttum eins og stærð garðsins, hversu mikla vinnu þú getur sjálfur lagt í undirbúning og gerð hans og hvers kyns efni þú velur í hann. Sé gert ráð fyrir að þú getir sjálf/ur útbúið hann liggur meginkostnaður í kaupum á plöntum. Þeim kostnaði má einnig halda í lágmarki, t.d. með því að velja smærri plöntur og fylgjast með vexti þeirra, eða með því að flytja plöntur annars staðar frá, annað hvort úr náttúrulegu umhverfi sínu (þar sem það má) eða öðru svæði sem þú hefur umsjón yfir.

Hvaða áhrif hefur regngarður á verðmæti fasteigna?
Samkvæmt erlendum könnunum getur vel hannaður regngarður með aðlaðandi og þrifalegum gróðri haft jákvæð áhrif á verðmæti fasteigna, ekki síst í endursölu. Vegna jákvæðra eiginleika regngarða, til dæmis minni viðhaldskostnaðar fyrir húseigendur, aðlaðandi gróðursvæðis með litlu viðhaldi geta þeir auðveldlega borgað sig upp í auknu verðmæti.

Þarfnast regngarðar mikils viðhalds?
Þvert á móti. Hanna má regngarða sem krefjast lágmarksviðhalds með því að velja réttar plöntur, planta þétt, setja hlífðarlag (trjákurl eða annað lífrænt efni) á yfirborð og reita illgresi jafnóðum og það birtist til að hindra vandamál tengd viðhaldi í framtíðinni. Í slíkum görðum má sleppa með 15 mínútna viðhald á mánuði yfir vaxtartíma gróðursins. Mælt er með því að bæta við hlífðarþekju á hverju ári til að hamla vexti illgresis og endurnýja lífræn efni í jarðveginum og vökva vel fyrstu tvö árin eftir gróðursetningu meðan gróður festir sig í sessi á nýjum stað.

Heimildir

  • Rain Garden Handbook for Western Washington. A Guide for Design, Installation, and Maintenance.: https://fortress.wa.gov/ecy/publications/publications/1310027.pdf
  • 12.000 Rain Gardens in Puget Sound.: http://www.12000raingardens.org/
  • Rain Garden Manual for Homeowners. Protecting our water one yard at a time.: http://www.crawfordswcd.org/documents/Rain%20garden%20manual.pdf

Í regngörðum er áhersla lögð á að nýta regnvatnið til hins ítrasta til að skapa fallegt umhverfi og leiða vatnið með náttúrulegum hætti niður í jörðina.