Urriðaholt og Garðabær taka forskot í þróun og byggingu smáíbúða
Ákveðið hefur verið að í fjölbýlishúsinu að Urriðaholtsstræti 10-12 verði allt að 36 smáíbúðir frá 25 fermetrum að stærð. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem gert er ráð fyrir þessum litlu íbúðum í bland við stærri íbúðir. Með því að heimila byggingu íbúða af þessari stærð er Garðabær að leggja sitt af mörkum til að koma til móts við mikla eftirspurn á fasteignamarkaði eftir litlum íbúðum, sérstaklega á meðal ungs fólks. Einnig er horft til umhverfissjónarmiða og þess að breikka úrval íbúða í bænum.
Garðabær tekur með þessari skipulagsákvörðun forskot í þróun og byggingu smáíbúða á Íslandi. Bærinn hefur átt í samstarfi við þróunaraðila Urriðaholts um útfærslu skipulagsins. Áætlað er að byggingarframkvæmdir hefjist fljótlega eftir áramót 2016-2017 og verða fyrstu íbúðir tilbúnar vorið 2018 ef allt gengur eftir. Um er að ræða leiguíbúðir og samkvæmt kröfu bæjarins verða þær allar í eigu sama aðila og eingöngu í langtímaleigu.
Hvergi er slakað á kröfum byggingareglugerðar, t.d. varðandi salerni og eldunaraðstöðu í hverri íbúð, en meginávinningurinn felst í smæð íbúðanna.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir ánægjulegt að bærinn skuli taka forystu í verkefni sem þessu sem leitt geti til aukinnar sjálfbærni og breiðara íbúðavals í bænum. „Þetta er þróunarverkefni sem við gáfum grænt ljós á og viljum sjá hvernig reynist. Við erum að reyna að koma til móts við ungt fólk og það verður spennandi að sjá hvernig þetta lukkast,“ sagði Gunnar í viðtali við Morgunblaðið þegar verkefnið var kynnt.